föstudagur, 23. maí 2014

Svör til prófastanna í Reykjavík


Prófastar Reykjavíkurprófastsdæma eystri og vestri, Birgir Ásgeirsson og Gísli Jónasson, sendu flokknum spurningar í gær -- og eflaust hinum framboðunum líka. Velunnurum okkar, og öðrum forvitnum, til fróðleiks, birtum við spurningarnar og svörin hér:

Sp. 1) Hver er afstaða framboðsins til samskipta skóla og þjóðkirkju?

Svar:
Leikskólar og grunnskólar eiga ekki að vera vettvangur trúboðs af neinu tagi og kirkjan á ekki erindi þangað frekar en önnur trúfélög, eða stjórnmálaflokkar ef út í það er farið. Ef spurningin nær líka yfir sunnudagaskóla sem kirkjan rekur sjálf, hefur Alþýðufylkingin ekki sérstaka skoðun á þeim.

Sp. 2) Hver er afstaða framboðsins til dreifingar Nýja testamentisins til skólabarna?

Svar:
Hún á ekki að fara fram í skólum eða á skólatíma, ef það er það sem spurt er um. En Alþýðufylkingin hefur ekki skoðun á dreifingu þess t.d. í kirkjum eða safnaðarheimilum eða annars staðar.

Sp. 3) Hver er afstaða framboðsins til framlaga Reykjavíkurborgar í kirkjubyggingarsjóð Reykjavíkur, sem hafa verið óbreytt að krónutölu sl. fjögur ár?

Svar:
Þau framlög hafa lengi verið of há. Það er tímaskekkja að Reykjavíkurborg hygli trúfélögum með styrkjum úr kirkjubyggingarsjóði eða með því að fella niður gatnagerðargjöld, holræsagjöld o.s.frv.