fimmtudagur, 29. maí 2014

Náttúra og auðlindir í landi Reykjavíkur: x-R

Alþýðufylkingin býður fram í Reykjavík í vor og slagorðið "Sósíalismi í einu sveitarfélagi" hlýtur að vekja spurningar. Hér ætla ég að skýra helstu atriðin í stefnu okkar í auðlindamálum.

Fyrst ber að geta þess að stefna okkar, félagsvæðingin, felur í sér að almennt eigi hagsmunir alþýðunnar að vera í fyrirrúmi en hagsmunir auðvaldsins að mæta afgangi. Í þessu ljósi er Alþýðufylkingin harður andstæðingur allrar markaðsvæðingar, einkavæðingar og rányrkju á náttúruauðlindum. Reykjavíkurborg á að umgangast auðlindir sínar þannig að þörfum fólks fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn sé fullnægt á hagstæðan hátt, og að vel sé gengið um allar okkar auðlindir. Það er skilyrði fyrir þessu, að náttúruauðlindirnar séu í eigu almennings og ekki þjóðfélagsafla með annarlega sérhagsmuni að leiðarljósi. Þá ekki bara í beinum skilningi eignarhaldsins, heldur líka í hinum óbeina skilningi skuldsetningar.

Því skuldsettari sem opinber fyrirtæki eru, þess viðkvæmari verða þau fyrir yfirtöku. Hér hefur Orkuveitu Reykjavíkur, sameign Reykvíkinga, verið leyft að dansa á brún eldfjallsins -- á sama tíma og einkafjármagn hefur látið greipar sópa í gegn um tiltæki eins og REI-málið. Verður ekki kostnaðarsamt að bjarga OR? Ekki eins kostnaðarsamt og að bjarga henni ekki! Sér í lagi ekki þar sem við viljum stofna banka á vegum borgarinnar, þar sem hún getur veitt sjálfri sér (og fleirum) nauðsynlega fjármálaþjónustu án fjármagnskostnaðar. Þar fjármögnum við Orkuveituna og höggvum hana snarlega úr snöru skuldanna.

Ef við fáum að ráða, mun Orkuveitan ekki byggja upp meiri orkuvinnslu í nágrenni Reykjvíkur í náinni framtíð, og alls ekki nema brýnir almannahagsmunir krefji. Hlutverk hennar á ekki að vera að styðja við meiri stóriðju (af henni þurfum við ekki meira) heldur að sjá almenningi fyrir vatni og rafmagni, eins og áður sagði. Hins vegar viljum við leita leiða til að nýta betur það sem þegar fellur til -- svo sem heitt og volgt afgangsvatn til að hita upp gróðurhús.


Við viljum að sérfræðiþekking sú sem Orkuveitan býr yfir verði nýtt í alþjóðlegu samstarfi til að hjálpa fátækum löndum að þróa vistvæna orkuvinnslu og félagslega eign á auðlindum og vinnslu þeirra.

Ef ykkur líst vel á þessar hugmyndir, kjósið þá Alþýðufylkinguna í Reykjavík: x-R.