þriðjudagur, 27. maí 2014

Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir

Alþýðufylkingin býður fram í Reykjavík í vor. Titill stefnuskrárinnar,(*) sem jafnframt er slagorð flokksins -- Sósíalismi í einu sveitarfélagi -- hefur vakið athygli. En hvað þýðir það í alvörunni, að boða sósíalisma í einu sveitarfélagi? Í skemmstu máli að borgin eigi að reka starfsemi sína á forsendum sjálfrar sín -- samfélagsins sem myndar hana. Það þýðir að fjármunum borgarinnar á að ráðstafa af félagslegri ábyrgð til að bæta líf íbúanna. Þá, sem mestan stuðning þurfa, munar vitanlega mest um að hann sé aukinn. Við teljum að jöfnuður sé forsenda velferðar.

Einn hóp er nauðsynlegt að nefna hér sérstaklega: Geðsjúkir eru sem hópur meðal þeirra verst settu í þjóðfélagi okkar, og þótt mikið hafi unnist í þeirra málum undanfarna kynslóð eða svo, vantar enn mikið upp á að við getum verið ánægð með árangurinn. Þar stendur ýmislegt fyrir þrifum, og er skortur á félagslegu húsnæði og sérstökum búsetuúrræðum einn vandinn -- stór vandi, en líka auðleysanlegur, ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Sem stendur lenda margir geðsjúkir í flöskuhálsi í kerfinu eftir að meðferð þeirra lýkur á sjúkrahúsi -- ílengjast á geðdeild vegna þess að þeir eru heimilislausir, dvelja þar sér til skaða og teppa um leið pláss sem aðra sjúklinga vantar í meðferð. Þetta er á annan tug manns á hverjum tíma. Þetta er óviðundandi, óþolandi smán.

Reykjavíkurborg á ekki að þola það að fólk búi á götunni eða við sára fátækt eða að börn fari svöng í rúmið. Það er bara ekki í lagi. Fjárhagsaðstoð borgarinnar þarf því að hækka svo um munar. Hér ber ekki að spyrja um veður eða færð, það þarf bara að gera það.

Verið velkomin til okkar
Sem stendur þarf fólk að hafa átt lögheimili í Reykjavík í hálft ár til þess að geta átt kost á félagslegu húsnæði. Það þýðir að fólki, sem ekki hefur efni á að kaupa eða leigja húsnæði, er gert ókleift að flytja til Reykjavíkur. Borgin á ekki að taka þátt í því að halda fátæku fólki í átthagafjötrum; við eigum að veita öllum sama rétt til félagslegs húsnæðis, frá þeim degi sem þeir eiga lögheimili í borginni. Og við eigum að breiða út faðminn móti þeim sem vilja flytja til okkar. Við eigum að stela slagorðinu af fótstalli Frelsisstyttunnar og gera það að okkar: Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir.

Og hvar á allt þessa blessað fólk að búa?
Öllum sama rétt segi ég, og það á raunar ekki bara við um aðflutt, efnasnautt fólk. Þegar ég segi allir, þá meina ég allir. Félagslegt húsnæði á ekki bara að vera fyrir þá sem hafa ekki í önnur hús að venda, heldur ætti öllum að standa það til boða á kostnaðarverði, þótt þeir sem mest þurfa á því að halda ættu áfram að njóta forgangs. Það væri enda samfélagslega hagkvæmt og mundi minnka húsnæðiskostnað almennings ef öllum stæði til boða stæði öruggt og ódýrt leiguhúsnæði. Einhver hús, sem nú standa tóm, gæti borgin leyst til sín. Einnig þyrfti hún að byggja ný. Þessar framkvæmdir ætti að fjármagna á félagslegan hátt: Borgin ætti, með samfélagslegu eiginfé, að koma sér upp sinni eigin lánastofnun þar sem hún svo fengi lán án vaxta. Strax og borgin hættir að borga vexti til banka og annarra afæta, losnar um peninga sem renna inn í fjármálastofnun borgarinnar og þaðan í uppbyggingu velferðarinnar.

Það er hagur allra -- eða, a.m.k. 90% fólks -- að samfélagið leysi sín mál án þess að peningamenn geti alltaf gert sér þau að féþúfu í leiðinni. Félagsmál snúast ekki um ölmusu, heldur að allir geti notið lífsgæða og reisnar.

Tinna Þorvaldsdóttir
4. sæti Alþýðufylkingarinnar (R) í Reykjavík