miðvikudagur, 28. maí 2014

Alþýðufylkingin vill hafa flugvöllinn - x-R

Reykjavíkurflugvöllur á að vera á sínum stað. Að minnsta kosti allmörg næstu ár. Hvers vegna? Fyrir það fyrsta þarf höfuðborgin að hafa flugvöll til að þjóna innanlandsflugi. Í öðru lagi er engin önnur boðleg lausn í sjónmáli.

Ég játa það alveg að ég væri til í að vera laus við þann mikla hávaða sem fylgir vellinum. En sum vandamál eru bara þannig að "lausnirnar" eru ennþá meiri vandamál og er þá betur heima setið en af stað farið. Kannski finnst einhvern tímann eitthvert snjallræði og þá skulum við skoða það með opnum huga. En Hólmsheiði verður aldrei flugvallarstæði; þá væri gáfulegra að lenda bara sjóflugvélum á Skerjafirði; það þarf altént ekki að byggja undir þær flugbrautir.

Margt hefur verið sagt og skrifað um flugvöllinn, með og á móti, og sumt viturlegra en annað og annað réttara en annað. Það eru t.d. margar borgin með flugvelli rétt hjá miðbænum. London. Berlín er með tvo. Eitt er þó það atriði sem sjaldan heyrist nefnt: Jarðvegurinn í Vatnsmýrinni er mjög mengaður eftir áratuga flugvallarstarfsemi. Hvað haldið þið að margir lítrar af olíum, þynnum, hreinsiefnum og ógeði hafi lekið þarna niður? Þetta er gegnsósa - og þetta eru ekki bollaleggingar, heldur sýndi jarðvegsrannsókn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur það fyrir rúmum tveim áratugum, að landið væri svotil óhæft til íbúðabyggðar vegna mengunar.

Annað er það, að lóðatíkurnar bíða átekta með evrumerkin í augunum. Ekki sjáum við í hugskot erlendra kröfuhafa - en nóg er líka af íslenskum kröfuhöfum og öðrum bröskurum sem eru sólgnir í fjárfestingartækifæri. Hvað liggur þá beinar við en að kaupa lóð - eða sjötíu lóðir - í Vatnsmýri til að selja þær aftur á hærra verði?

Við erum flugvallarvinir af praktískum ástæðum. Hann verður þarna því hann þarf bara að vera þarna.


Reykvíkingar, nýir og gamlir, ef þið viljið hafa flugvöllinn áfram, kjósið þá okkur, setjið x-R fyrir Alþýðufylkinguna.
.................
Skoðið jafnframt borgarmálastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar: Sósíalismi í einu sveitarfélagi.