miðvikudagur, 28. maí 2014

Alþýðufylkingin: Velferð er vinna - x-R

Vænta má að hugur margra Reykvíkinga sé við atvinnu- og kjaramál, nú þegar kosningar eru framundan. Þar er hugur okkar í Alþýðufylkingunni að minnsta kosti. Borgarmálastefnuskrá okkar, Sósíalismi í einu sveitarfélagi, kemur inn á margt í atvinnu- og kjaramálum.

Velferð er vinna
Fyrst ber að nefna að stór hluti af starfsfólki borgarinnar er á of lágum launum; eru það ekki bara kennarar í grunnskólum og leikskólum heldur líka starfsfólk í umönnun aldraðra og fatlaðra. Gott starfsfólk þarf að fá góð laun. Ef það fær þau ekki, leitar það annað - og gríðarleg starfsmannavelta t.d. sambýla segir sína sögu. Augljóslega bitnar atgervisflótti uppeldis- og umönnunarstétta á þeim sem síst skyldi: öldruðum, fötluðum og börnum.

Hver ræður á þínum vinnustað?
Við viljum innleiða virkt vinnustaðalýðræði á þeim vinnustöðum sem borgin rekur. Og við viljum gera það að reglu að launamunur þeirra, sem þiggja laun frá borginni, verði ekki meira en tvöfaldur frá þeim lægst launaða til þess hæst launaða.

Gull í mund
Hver segir að borgin eigi ekki að stunda verðmætaskapandi atvinnurekstur? Auðvitað á hún að gera það. Við viljum t.d. stofna bæjarútgerð og fá byggðarkvóta til að gera út fiskiskip á vegum borgarinnar. Það má hugsa sér margt annað - borgin gæti rekið bensínstöðvar, verslanir, iðnað o.s.frv. - þannig mætti bæði skapa örugg störf, m.a. fyrir fólk með skerta starfsgetu sem á erfitt uppdráttar á almennum vinnumarkaði. Um leið mundi borgin afla sér tekna.

Það þarf að taka til hendinni
Engum sem gengur um götur Reykjavíkur dylst að hún hefur drabbast niður og dytta þarf að mörgu. Það á að ráða fjölda manns í að sópa göturnar og halda borginni hreinni. Það á að ráða iðnaðarmenn til að gera upp gömul hús og gera allar öll hús í eigu borgarinnar aðgengileg fyrir fatlaða. Og borgin á sjálf að sjá um verk á borð við malbikun, snjómokstur o.fl. sem hefur verið boðið út.

Látum ekki fjárkúga okkur
Við viljum stofna banka sem borgin á og rekur. Hann mundi veita borginni sjálfri nauðsynlega fjármálaþjónustu og gæti þjónustað önnur sveitarfélög líka, fjölskyldur og fyrirtæki í verðmætaskapandi starfsemi, bara ekki brask. Snilldin við félagslega rekinn banka er að hann er ekki rekinn í gróðaskyni heldur til að útvega fjármálaþjónustu án fjármagnskostnaðar - þ.e.a.s. án vaxta. Það er betra að nota peninga sem eldivið heldur en að borga með þeim vexti, ef vaxtalaus lán eru í boði. Gleymið verðtryggingunni, vextirnir eru stóri bagginn.

Þessi banki er lykillinn að félagsvæðingunni - að sósíalisma í einu sveitarfélagi. Hann sparar borginni feikilegan vaxtakostnað og allt sem fer í það núna getur þá nýst í annað. Skoðið heimasíðu okkar, alþýðufylkingin.is (með íslenskum stöfum) til að sjá nánar um þessar hugmyndir og fleiri.


Komum okkur að verki, tökum til hendinni og exið við R, lista Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík.