föstudagur, 30. maí 2014

Alþýðufylkingin: Sósíalismi í samgöngu- og skipulagsmálum - x-R


Alþýðufylkingin býður í fyrsta sinn fram í borgarstjórnarkosningum um þessar mundir. Kosningaslagorð okkar er Sósíalismi í einu sveitarfélagi. Hér verður fjallað um leiðina sem sósíalisminn vísar okkur í samgöngumálum og öðrum skipulagsmálum.

Almennt séð ber skipulagsmálum að taka mið af þörfum mannfélagsins í borginni og láta sérplægni og annarlega hagsmuni auðvaldsins í besta falli mæta afgangi. Hins vegar hefur borgin skyldur sem höfuðborg og ber þar ábyrgð umfram önnur sveitarfélög.

Mislægar hendur í skipulagsmálum
Verktakafyrirtæki og lóðabraskarar eru dýrir kálfar að ala. Verktakarnir þrýsta á að borgin breyti skipulagi og leyfi stórframkvæmdir (stundum með rausnarlegum styrkjum til einstakra framsóknar- nei afsakið, ég mismælti mig: stjórnmálamanna), eða leggi sjálf í framkvæmdir á borð við mislæg gatnamót þar sem þeirra er ekki þörf. Lóðatíkurnar sölsa hins vegar til sín lóðir og selja aftur með vænum hagnaði, sem leggst ofan á húsnæðisverðið. Eins og það sé á það bætandi. Þá má ekki gleyma þeim plagsið braskara og (k)verktaka að kaupa gömul hús í miðbænum og láta þau eyðileggjast, þangað til þeir fá leyfi til að byggja eitthvað stórt og dýrt í staðinn. Hér þarf að spyrna við fótum og segja: heyrið mig nú, þetta er okkar borg og svona líðum við ekki.

Almenningssamgöngur
Það er algerlega nauðsynlegt að bæta þjónustu Strætós, fyrirtækis sem er verið að hola að innan með því að bjóða út leiðir til einkafyrirtækja og skera niður bæði akstursleiðir og tímatöflur til að spara smáupphæðir. Strætó er eitt af þessum mögnuðu fyrirbærum sem spara meiri peninga en þau kosta. Kostnaðurinn við að stórbæta leiðakerfið og tímatöflurnar, og jafnvel fella niður fargjöldin líka, borgast margfalt með sparnaðinum sem hlýst af því að fleiri farþegar taki strætó og umferð einkabíla minnki að sama skapi. Borgin sjálf sparar í viðhaldi og nýbyggingum umferðarmannvirkja, núverandi bílstjórar spara í bensínkostnaði og tjónum - fyrir utan að slys um fækkar, mengun minnkar og hljóðvist batnar. Rakið dæmi?

Járnbraut
Við teljum að það sé fýsilegur kostnaður að byggja járnbrautarlest á teinum, til að þjóna samgöngum innan borgarinnar og í nágrenni hennar. Hún ætti að vera rafknúin og ýmist ofanjarðar eða neðan, eftir legu landsins. Lest getur borið mikinn fjölda fólks hratt og örugglega, þar sem hún er aðskilin frá gatnakerfinu. Eins og strætó, mundi hún taka umferðarþunga af götunum og draga þannig úr margvíslegum kostnaði.

Flugvöllinn kjurrt
Við styðjum það að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Einhverjar breytingar má gera á honum, minnka umfang hans og fyrirferð, en við munum að óbreyttu ekki amast við honum sem slíkum. Hvers vegna? Annars vegar þarf Reykjavík sem höfuðborg að geta sinnt landsbyggðinni á margvíslegan hátt með innanlandsflugi, og þá er fyrst hægt að skoða málið af viti þegar betri lausn hefur fundist. Þangað til sitjum við uppi með hann, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og eins gott að sætta sig við það. Kröfur um að flugvallarsvæðið verði allt tekið undir byggð tökum við því ekki undir. Þótt flestum gangi eflaust gott eitt til með þeim kröfum, glittir líka í braskara og fjárplógsmenn inn á milli, sem síst hugsa um lífsgæði eða hag mannvistar í borginni.


Til að lesa tillögur okkar í öðrum málaflokkum, skoðið stefnuskrána: Sósíalisma í einu sveitarfélagi.

Og ef ykkur líst vel á þessar hugmyndir, kjósið þá Alþýðufylkinguna í Reykjavík: x-R.