föstudagur, 30. maí 2014

Alþýðufylkingin: Mannréttindi eru fyrir alla - xR

Kosningaslagorð Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík, Sósíalismi í einu sveitarfélagi, hlýtur að vekja spurningar um birtingarmyndir. Hér verður augum beint að mannréttindamálum.
Fyrir það fyrsta styrkir Reykjavík ýmsa almenna og sértæka mannréttindabaráttu nú þegar. Er það vel, og mætti gjarnan vera meira. Sérstaklega er brýnt að borgin hjálpi betur því fólki sem stendur höllustum fæti í samfélaginu. Koma þar tveir hópar strax upp í hugann: heimilislaust fólk og flóttamenn.
FlóttamennAf hverju er flóttamönnum gert að hírast í Reykjanesbæ í þrengslum, óþægindum og óöryggi -- aðstæðum sem enginn mundi óska sér? Reykjavík á auðvitað að taka flóttamenn að sér á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Þeim á að útvega þokkalegan stað að búa á, þar sem þeir geta notið öryggis og einkalífs, og viðurværi og verkefni við hæfi. Allt eru þetta atriði sem munar um fyrir fólk sem oft er með áfallastreitu eftir ömurlega lífsreynslu í heimalandi sínu. Allt eru þetta mannréttindi. Þau setja ekki borgina á hausinn, en þvert á móti geta þau bjargað þjáðu fólki frá örvilnun. Er einhver spurning hvað er rétt að gera?
Heimilislausir
Á sama tíma eru úrræði fyrir heimilislausa of fá, of lítil og of vond. Heimilislausum körlum er t.d. vísað í gistiskýli á Þingholtsstræti, þar sem þeim eru ekki bara boðin útmigin rúmföt, heldur hafa Almannavarnir auk þess lýst húsið stæstu einstöku ógn við mannslíf í borginni: Heilt hús af eldsmat þar sem annar hver maður getur verið brennivínsdauður ef kviknar í. Ofan í kaupið þurfa þeir að híma í niðurlægjandi biðröð til að komast inn í herlegheitin. Hvað á þetta eiginlega að þýða? Er verið að refsa mönnum fyrir að vera veikir? Væri það banabiti fyrir fjárhag borgarinnar að sjá sjálf um þessa þjónustu og gera það af myndarskap?
Geðsjúkir
Margt heimilislaust fólk glímir við geðsjúkdóma. Þegar fólk lýkur meðferð á geðdeild er það útskrifað heim til sín. Ef það á heimili. Ef það á hins vegar ekki heimili ... hvað á þá að gera? Reka það bara á gaddinn? Eða í einhvern hlandbeddann í gistiskýlinu? Á hverjum tíma er eitthvað á annan tug manns fast inni á geðdeild vegna þess að þau hafa ekki í önnur hús að venda. Dvelja stundum á geðdeild þangað til þeim fer að hraka aftur - og á meðan er biðlisti eftir að komast að á sömu deild. Hér er vandamál sem beinlínis öskrar á að verða leyst. Reykjavíkurborg á að vaða strax í það - án tafar - að koma upp fleiri sérhæfðum búsetuúrræðum fyrir geðsjúka, og félagslegum íbúðum eftir atvikum.
Margt fleira mætti nefna, þar sem brýnt er að taka til hendinni, en það er naumast hægt að sleppa því að nefna málaflokka fatlaðra og aldraðra, sem sveitarfélögin hafa tekið að sér, sem og leikskóla og grunnskóla. Allir þessir málaflokkar eiga eitt sameiginlegt: Þeir eru fjársveltir. Á mannamáli þýðir það að það er of fátt fólk sem sinnir fötluðum og öldruðum og börnum - og það fær of lág laun. Einhvern tímann var sagt að vinna væri velferð - en velferð er líka vinna.
Hver á að borga?
Það kostar peninga að hafa öll þessi mannréttindi - og sem betur fer er til nóg af þeim. Sem stendur er þeim sóað í ýmislegt sem mætti missa sín, eins og kirkjubyggingasjóð og vexti af lánum. Seinni liðinn munum við spara með því að koma á laggirnar fjármálastofnun á vegum borgarinnar, þar sem borgin sjálf mun taka lán án vaxta. Sparnaðurinn sem af því hlýst getur nýst vel í þörf verkefni - og þar eru mannréttindamál efst á listanum.
Ef þið viljið sjá fleira af því sem við boðum, skoðið þá stutta en innihaldsríka borgarmálastefnuskrá okkar: Sósíalisma í einu sveitarfélagi.

Ef ykkur líst vel á þessar hugmyndir, kjósið þá Alþýðufylkinguna í Reykjavík: x-R.