föstudagur, 2. maí 2014

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2014


Alþýðufylkingin kallar íslenska alþýðu til baráttu fyrir nýju samfélagi. Kreppan hefur sýnt fram á að kapítalisminn leiðir af sér vaxandi ójöfnuð, sóun og umhverfisvá.

Þó að málpípur auðvaldsins haldi því fram að kreppan sé liðin hjá er veruleikinn allur annar.  Það vita þær þúsundir fólks sem hraktar hafa verið út á gaddinn undanfarin ár og leita nú án árangurs að leiguhúsnæði sem ekki er þeim fjárhaglega ofviða.

Alþýðufylkingin krefst þess að allir eigi rétt á húsnæði með félagslegri fjármögnun. Með félagslegu fjármálakerfi er hægt að tryggja öllum öruggt húsnæði án okurvaxta eða okurleigu. Húsnæði sem enginn getur rekið mann út úr til að leigja ferðamönnum fyrir þrefalt verð.

Þeir sem finna fyrir því að heilbrigðiskerfinu og öðrum innviðum samfélagsins er ógnað af fjársvelti og einkavæðingu, og sá fjöldi fólks sem ekki hefur haft efni á að fara til læknis – hvað þá tannlæknis, undanfarin misseri, sé í hendi sér að kreppan er ekki liðin hjá.

Kreppan líður ekki hjá fyrir alþýðuna fyrr en hún knýr fram breytta stefnu. Stefnu sem byggist á félagsvæðingu innviða samfélagsins og hindrar að fámennur hópur auðmanna geti dregið til sín öll verðmæti sem hönd á festir. Þetta eru skilaboð Alþýðufylkingarinnar á 1. maí 2014.