föstudagur, 30. maí 2014

Alþýðufylkingin: Mannréttindi eru fyrir alla - xR

Kosningaslagorð Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík, Sósíalismi í einu sveitarfélagi, hlýtur að vekja spurningar um birtingarmyndir. Hér verður augum beint að mannréttindamálum.
Fyrir það fyrsta styrkir Reykjavík ýmsa almenna og sértæka mannréttindabaráttu nú þegar. Er það vel, og mætti gjarnan vera meira. Sérstaklega er brýnt að borgin hjálpi betur því fólki sem stendur höllustum fæti í samfélaginu. Koma þar tveir hópar strax upp í hugann: heimilislaust fólk og flóttamenn.
FlóttamennAf hverju er flóttamönnum gert að hírast í Reykjanesbæ í þrengslum, óþægindum og óöryggi -- aðstæðum sem enginn mundi óska sér? Reykjavík á auðvitað að taka flóttamenn að sér á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Þeim á að útvega þokkalegan stað að búa á, þar sem þeir geta notið öryggis og einkalífs, og viðurværi og verkefni við hæfi. Allt eru þetta atriði sem munar um fyrir fólk sem oft er með áfallastreitu eftir ömurlega lífsreynslu í heimalandi sínu. Allt eru þetta mannréttindi. Þau setja ekki borgina á hausinn, en þvert á móti geta þau bjargað þjáðu fólki frá örvilnun. Er einhver spurning hvað er rétt að gera?
Heimilislausir
Á sama tíma eru úrræði fyrir heimilislausa of fá, of lítil og of vond. Heimilislausum körlum er t.d. vísað í gistiskýli á Þingholtsstræti, þar sem þeim eru ekki bara boðin útmigin rúmföt, heldur hafa Almannavarnir auk þess lýst húsið stæstu einstöku ógn við mannslíf í borginni: Heilt hús af eldsmat þar sem annar hver maður getur verið brennivínsdauður ef kviknar í. Ofan í kaupið þurfa þeir að híma í niðurlægjandi biðröð til að komast inn í herlegheitin. Hvað á þetta eiginlega að þýða? Er verið að refsa mönnum fyrir að vera veikir? Væri það banabiti fyrir fjárhag borgarinnar að sjá sjálf um þessa þjónustu og gera það af myndarskap?
Geðsjúkir
Margt heimilislaust fólk glímir við geðsjúkdóma. Þegar fólk lýkur meðferð á geðdeild er það útskrifað heim til sín. Ef það á heimili. Ef það á hins vegar ekki heimili ... hvað á þá að gera? Reka það bara á gaddinn? Eða í einhvern hlandbeddann í gistiskýlinu? Á hverjum tíma er eitthvað á annan tug manns fast inni á geðdeild vegna þess að þau hafa ekki í önnur hús að venda. Dvelja stundum á geðdeild þangað til þeim fer að hraka aftur - og á meðan er biðlisti eftir að komast að á sömu deild. Hér er vandamál sem beinlínis öskrar á að verða leyst. Reykjavíkurborg á að vaða strax í það - án tafar - að koma upp fleiri sérhæfðum búsetuúrræðum fyrir geðsjúka, og félagslegum íbúðum eftir atvikum.
Margt fleira mætti nefna, þar sem brýnt er að taka til hendinni, en það er naumast hægt að sleppa því að nefna málaflokka fatlaðra og aldraðra, sem sveitarfélögin hafa tekið að sér, sem og leikskóla og grunnskóla. Allir þessir málaflokkar eiga eitt sameiginlegt: Þeir eru fjársveltir. Á mannamáli þýðir það að það er of fátt fólk sem sinnir fötluðum og öldruðum og börnum - og það fær of lág laun. Einhvern tímann var sagt að vinna væri velferð - en velferð er líka vinna.
Hver á að borga?
Það kostar peninga að hafa öll þessi mannréttindi - og sem betur fer er til nóg af þeim. Sem stendur er þeim sóað í ýmislegt sem mætti missa sín, eins og kirkjubyggingasjóð og vexti af lánum. Seinni liðinn munum við spara með því að koma á laggirnar fjármálastofnun á vegum borgarinnar, þar sem borgin sjálf mun taka lán án vaxta. Sparnaðurinn sem af því hlýst getur nýst vel í þörf verkefni - og þar eru mannréttindamál efst á listanum.
Ef þið viljið sjá fleira af því sem við boðum, skoðið þá stutta en innihaldsríka borgarmálastefnuskrá okkar: Sósíalisma í einu sveitarfélagi.

Ef ykkur líst vel á þessar hugmyndir, kjósið þá Alþýðufylkinguna í Reykjavík: x-R.

Alþýðufylkingin: Sósíalismi í samgöngu- og skipulagsmálum - x-R


Alþýðufylkingin býður í fyrsta sinn fram í borgarstjórnarkosningum um þessar mundir. Kosningaslagorð okkar er Sósíalismi í einu sveitarfélagi. Hér verður fjallað um leiðina sem sósíalisminn vísar okkur í samgöngumálum og öðrum skipulagsmálum.

Almennt séð ber skipulagsmálum að taka mið af þörfum mannfélagsins í borginni og láta sérplægni og annarlega hagsmuni auðvaldsins í besta falli mæta afgangi. Hins vegar hefur borgin skyldur sem höfuðborg og ber þar ábyrgð umfram önnur sveitarfélög.

Mislægar hendur í skipulagsmálum
Verktakafyrirtæki og lóðabraskarar eru dýrir kálfar að ala. Verktakarnir þrýsta á að borgin breyti skipulagi og leyfi stórframkvæmdir (stundum með rausnarlegum styrkjum til einstakra framsóknar- nei afsakið, ég mismælti mig: stjórnmálamanna), eða leggi sjálf í framkvæmdir á borð við mislæg gatnamót þar sem þeirra er ekki þörf. Lóðatíkurnar sölsa hins vegar til sín lóðir og selja aftur með vænum hagnaði, sem leggst ofan á húsnæðisverðið. Eins og það sé á það bætandi. Þá má ekki gleyma þeim plagsið braskara og (k)verktaka að kaupa gömul hús í miðbænum og láta þau eyðileggjast, þangað til þeir fá leyfi til að byggja eitthvað stórt og dýrt í staðinn. Hér þarf að spyrna við fótum og segja: heyrið mig nú, þetta er okkar borg og svona líðum við ekki.

Almenningssamgöngur
Það er algerlega nauðsynlegt að bæta þjónustu Strætós, fyrirtækis sem er verið að hola að innan með því að bjóða út leiðir til einkafyrirtækja og skera niður bæði akstursleiðir og tímatöflur til að spara smáupphæðir. Strætó er eitt af þessum mögnuðu fyrirbærum sem spara meiri peninga en þau kosta. Kostnaðurinn við að stórbæta leiðakerfið og tímatöflurnar, og jafnvel fella niður fargjöldin líka, borgast margfalt með sparnaðinum sem hlýst af því að fleiri farþegar taki strætó og umferð einkabíla minnki að sama skapi. Borgin sjálf sparar í viðhaldi og nýbyggingum umferðarmannvirkja, núverandi bílstjórar spara í bensínkostnaði og tjónum - fyrir utan að slys um fækkar, mengun minnkar og hljóðvist batnar. Rakið dæmi?

Járnbraut
Við teljum að það sé fýsilegur kostnaður að byggja járnbrautarlest á teinum, til að þjóna samgöngum innan borgarinnar og í nágrenni hennar. Hún ætti að vera rafknúin og ýmist ofanjarðar eða neðan, eftir legu landsins. Lest getur borið mikinn fjölda fólks hratt og örugglega, þar sem hún er aðskilin frá gatnakerfinu. Eins og strætó, mundi hún taka umferðarþunga af götunum og draga þannig úr margvíslegum kostnaði.

Flugvöllinn kjurrt
Við styðjum það að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Einhverjar breytingar má gera á honum, minnka umfang hans og fyrirferð, en við munum að óbreyttu ekki amast við honum sem slíkum. Hvers vegna? Annars vegar þarf Reykjavík sem höfuðborg að geta sinnt landsbyggðinni á margvíslegan hátt með innanlandsflugi, og þá er fyrst hægt að skoða málið af viti þegar betri lausn hefur fundist. Þangað til sitjum við uppi með hann, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og eins gott að sætta sig við það. Kröfur um að flugvallarsvæðið verði allt tekið undir byggð tökum við því ekki undir. Þótt flestum gangi eflaust gott eitt til með þeim kröfum, glittir líka í braskara og fjárplógsmenn inn á milli, sem síst hugsa um lífsgæði eða hag mannvistar í borginni.


Til að lesa tillögur okkar í öðrum málaflokkum, skoðið stefnuskrána: Sósíalisma í einu sveitarfélagi.

Og ef ykkur líst vel á þessar hugmyndir, kjósið þá Alþýðufylkinguna í Reykjavík: x-R.

fimmtudagur, 29. maí 2014

Náttúra og auðlindir í landi Reykjavíkur: x-R

Alþýðufylkingin býður fram í Reykjavík í vor og slagorðið "Sósíalismi í einu sveitarfélagi" hlýtur að vekja spurningar. Hér ætla ég að skýra helstu atriðin í stefnu okkar í auðlindamálum.

Fyrst ber að geta þess að stefna okkar, félagsvæðingin, felur í sér að almennt eigi hagsmunir alþýðunnar að vera í fyrirrúmi en hagsmunir auðvaldsins að mæta afgangi. Í þessu ljósi er Alþýðufylkingin harður andstæðingur allrar markaðsvæðingar, einkavæðingar og rányrkju á náttúruauðlindum. Reykjavíkurborg á að umgangast auðlindir sínar þannig að þörfum fólks fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn sé fullnægt á hagstæðan hátt, og að vel sé gengið um allar okkar auðlindir. Það er skilyrði fyrir þessu, að náttúruauðlindirnar séu í eigu almennings og ekki þjóðfélagsafla með annarlega sérhagsmuni að leiðarljósi. Þá ekki bara í beinum skilningi eignarhaldsins, heldur líka í hinum óbeina skilningi skuldsetningar.

Því skuldsettari sem opinber fyrirtæki eru, þess viðkvæmari verða þau fyrir yfirtöku. Hér hefur Orkuveitu Reykjavíkur, sameign Reykvíkinga, verið leyft að dansa á brún eldfjallsins -- á sama tíma og einkafjármagn hefur látið greipar sópa í gegn um tiltæki eins og REI-málið. Verður ekki kostnaðarsamt að bjarga OR? Ekki eins kostnaðarsamt og að bjarga henni ekki! Sér í lagi ekki þar sem við viljum stofna banka á vegum borgarinnar, þar sem hún getur veitt sjálfri sér (og fleirum) nauðsynlega fjármálaþjónustu án fjármagnskostnaðar. Þar fjármögnum við Orkuveituna og höggvum hana snarlega úr snöru skuldanna.

Ef við fáum að ráða, mun Orkuveitan ekki byggja upp meiri orkuvinnslu í nágrenni Reykjvíkur í náinni framtíð, og alls ekki nema brýnir almannahagsmunir krefji. Hlutverk hennar á ekki að vera að styðja við meiri stóriðju (af henni þurfum við ekki meira) heldur að sjá almenningi fyrir vatni og rafmagni, eins og áður sagði. Hins vegar viljum við leita leiða til að nýta betur það sem þegar fellur til -- svo sem heitt og volgt afgangsvatn til að hita upp gróðurhús.


Við viljum að sérfræðiþekking sú sem Orkuveitan býr yfir verði nýtt í alþjóðlegu samstarfi til að hjálpa fátækum löndum að þróa vistvæna orkuvinnslu og félagslega eign á auðlindum og vinnslu þeirra.

Ef ykkur líst vel á þessar hugmyndir, kjósið þá Alþýðufylkinguna í Reykjavík: x-R.

miðvikudagur, 28. maí 2014

Alþýðufylkingin: Velferð er vinna - x-R

Vænta má að hugur margra Reykvíkinga sé við atvinnu- og kjaramál, nú þegar kosningar eru framundan. Þar er hugur okkar í Alþýðufylkingunni að minnsta kosti. Borgarmálastefnuskrá okkar, Sósíalismi í einu sveitarfélagi, kemur inn á margt í atvinnu- og kjaramálum.

Velferð er vinna
Fyrst ber að nefna að stór hluti af starfsfólki borgarinnar er á of lágum launum; eru það ekki bara kennarar í grunnskólum og leikskólum heldur líka starfsfólk í umönnun aldraðra og fatlaðra. Gott starfsfólk þarf að fá góð laun. Ef það fær þau ekki, leitar það annað - og gríðarleg starfsmannavelta t.d. sambýla segir sína sögu. Augljóslega bitnar atgervisflótti uppeldis- og umönnunarstétta á þeim sem síst skyldi: öldruðum, fötluðum og börnum.

Hver ræður á þínum vinnustað?
Við viljum innleiða virkt vinnustaðalýðræði á þeim vinnustöðum sem borgin rekur. Og við viljum gera það að reglu að launamunur þeirra, sem þiggja laun frá borginni, verði ekki meira en tvöfaldur frá þeim lægst launaða til þess hæst launaða.

Gull í mund
Hver segir að borgin eigi ekki að stunda verðmætaskapandi atvinnurekstur? Auðvitað á hún að gera það. Við viljum t.d. stofna bæjarútgerð og fá byggðarkvóta til að gera út fiskiskip á vegum borgarinnar. Það má hugsa sér margt annað - borgin gæti rekið bensínstöðvar, verslanir, iðnað o.s.frv. - þannig mætti bæði skapa örugg störf, m.a. fyrir fólk með skerta starfsgetu sem á erfitt uppdráttar á almennum vinnumarkaði. Um leið mundi borgin afla sér tekna.

Það þarf að taka til hendinni
Engum sem gengur um götur Reykjavíkur dylst að hún hefur drabbast niður og dytta þarf að mörgu. Það á að ráða fjölda manns í að sópa göturnar og halda borginni hreinni. Það á að ráða iðnaðarmenn til að gera upp gömul hús og gera allar öll hús í eigu borgarinnar aðgengileg fyrir fatlaða. Og borgin á sjálf að sjá um verk á borð við malbikun, snjómokstur o.fl. sem hefur verið boðið út.

Látum ekki fjárkúga okkur
Við viljum stofna banka sem borgin á og rekur. Hann mundi veita borginni sjálfri nauðsynlega fjármálaþjónustu og gæti þjónustað önnur sveitarfélög líka, fjölskyldur og fyrirtæki í verðmætaskapandi starfsemi, bara ekki brask. Snilldin við félagslega rekinn banka er að hann er ekki rekinn í gróðaskyni heldur til að útvega fjármálaþjónustu án fjármagnskostnaðar - þ.e.a.s. án vaxta. Það er betra að nota peninga sem eldivið heldur en að borga með þeim vexti, ef vaxtalaus lán eru í boði. Gleymið verðtryggingunni, vextirnir eru stóri bagginn.

Þessi banki er lykillinn að félagsvæðingunni - að sósíalisma í einu sveitarfélagi. Hann sparar borginni feikilegan vaxtakostnað og allt sem fer í það núna getur þá nýst í annað. Skoðið heimasíðu okkar, alþýðufylkingin.is (með íslenskum stöfum) til að sjá nánar um þessar hugmyndir og fleiri.


Komum okkur að verki, tökum til hendinni og exið við R, lista Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík.

Alþýðufylkingin vill hafa flugvöllinn - x-R

Reykjavíkurflugvöllur á að vera á sínum stað. Að minnsta kosti allmörg næstu ár. Hvers vegna? Fyrir það fyrsta þarf höfuðborgin að hafa flugvöll til að þjóna innanlandsflugi. Í öðru lagi er engin önnur boðleg lausn í sjónmáli.

Ég játa það alveg að ég væri til í að vera laus við þann mikla hávaða sem fylgir vellinum. En sum vandamál eru bara þannig að "lausnirnar" eru ennþá meiri vandamál og er þá betur heima setið en af stað farið. Kannski finnst einhvern tímann eitthvert snjallræði og þá skulum við skoða það með opnum huga. En Hólmsheiði verður aldrei flugvallarstæði; þá væri gáfulegra að lenda bara sjóflugvélum á Skerjafirði; það þarf altént ekki að byggja undir þær flugbrautir.

Margt hefur verið sagt og skrifað um flugvöllinn, með og á móti, og sumt viturlegra en annað og annað réttara en annað. Það eru t.d. margar borgin með flugvelli rétt hjá miðbænum. London. Berlín er með tvo. Eitt er þó það atriði sem sjaldan heyrist nefnt: Jarðvegurinn í Vatnsmýrinni er mjög mengaður eftir áratuga flugvallarstarfsemi. Hvað haldið þið að margir lítrar af olíum, þynnum, hreinsiefnum og ógeði hafi lekið þarna niður? Þetta er gegnsósa - og þetta eru ekki bollaleggingar, heldur sýndi jarðvegsrannsókn heilbrigðisnefndar Reykjavíkur það fyrir rúmum tveim áratugum, að landið væri svotil óhæft til íbúðabyggðar vegna mengunar.

Annað er það, að lóðatíkurnar bíða átekta með evrumerkin í augunum. Ekki sjáum við í hugskot erlendra kröfuhafa - en nóg er líka af íslenskum kröfuhöfum og öðrum bröskurum sem eru sólgnir í fjárfestingartækifæri. Hvað liggur þá beinar við en að kaupa lóð - eða sjötíu lóðir - í Vatnsmýri til að selja þær aftur á hærra verði?

Við erum flugvallarvinir af praktískum ástæðum. Hann verður þarna því hann þarf bara að vera þarna.


Reykvíkingar, nýir og gamlir, ef þið viljið hafa flugvöllinn áfram, kjósið þá okkur, setjið x-R fyrir Alþýðufylkinguna.
.................
Skoðið jafnframt borgarmálastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar: Sósíalismi í einu sveitarfélagi.

þriðjudagur, 27. maí 2014

XR: Svör við spurningum Grapevine

Reykjavík Grapevine hefur birt spurningar og svör framboða vegna kosninganna á sunnudaginn. Þar er Alþýðufylkingin fremst meðal jafningja, nema hvað, og okkar svör má lesa sérstaklega hér ef fólk vill stytta sér leið.

Og Reykvíkingar, kjósið x-R á sunnudaginn!

Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir

Alþýðufylkingin býður fram í Reykjavík í vor. Titill stefnuskrárinnar,(*) sem jafnframt er slagorð flokksins -- Sósíalismi í einu sveitarfélagi -- hefur vakið athygli. En hvað þýðir það í alvörunni, að boða sósíalisma í einu sveitarfélagi? Í skemmstu máli að borgin eigi að reka starfsemi sína á forsendum sjálfrar sín -- samfélagsins sem myndar hana. Það þýðir að fjármunum borgarinnar á að ráðstafa af félagslegri ábyrgð til að bæta líf íbúanna. Þá, sem mestan stuðning þurfa, munar vitanlega mest um að hann sé aukinn. Við teljum að jöfnuður sé forsenda velferðar.

Einn hóp er nauðsynlegt að nefna hér sérstaklega: Geðsjúkir eru sem hópur meðal þeirra verst settu í þjóðfélagi okkar, og þótt mikið hafi unnist í þeirra málum undanfarna kynslóð eða svo, vantar enn mikið upp á að við getum verið ánægð með árangurinn. Þar stendur ýmislegt fyrir þrifum, og er skortur á félagslegu húsnæði og sérstökum búsetuúrræðum einn vandinn -- stór vandi, en líka auðleysanlegur, ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Sem stendur lenda margir geðsjúkir í flöskuhálsi í kerfinu eftir að meðferð þeirra lýkur á sjúkrahúsi -- ílengjast á geðdeild vegna þess að þeir eru heimilislausir, dvelja þar sér til skaða og teppa um leið pláss sem aðra sjúklinga vantar í meðferð. Þetta er á annan tug manns á hverjum tíma. Þetta er óviðundandi, óþolandi smán.

Reykjavíkurborg á ekki að þola það að fólk búi á götunni eða við sára fátækt eða að börn fari svöng í rúmið. Það er bara ekki í lagi. Fjárhagsaðstoð borgarinnar þarf því að hækka svo um munar. Hér ber ekki að spyrja um veður eða færð, það þarf bara að gera það.

Verið velkomin til okkar
Sem stendur þarf fólk að hafa átt lögheimili í Reykjavík í hálft ár til þess að geta átt kost á félagslegu húsnæði. Það þýðir að fólki, sem ekki hefur efni á að kaupa eða leigja húsnæði, er gert ókleift að flytja til Reykjavíkur. Borgin á ekki að taka þátt í því að halda fátæku fólki í átthagafjötrum; við eigum að veita öllum sama rétt til félagslegs húsnæðis, frá þeim degi sem þeir eiga lögheimili í borginni. Og við eigum að breiða út faðminn móti þeim sem vilja flytja til okkar. Við eigum að stela slagorðinu af fótstalli Frelsisstyttunnar og gera það að okkar: Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir.

Og hvar á allt þessa blessað fólk að búa?
Öllum sama rétt segi ég, og það á raunar ekki bara við um aðflutt, efnasnautt fólk. Þegar ég segi allir, þá meina ég allir. Félagslegt húsnæði á ekki bara að vera fyrir þá sem hafa ekki í önnur hús að venda, heldur ætti öllum að standa það til boða á kostnaðarverði, þótt þeir sem mest þurfa á því að halda ættu áfram að njóta forgangs. Það væri enda samfélagslega hagkvæmt og mundi minnka húsnæðiskostnað almennings ef öllum stæði til boða stæði öruggt og ódýrt leiguhúsnæði. Einhver hús, sem nú standa tóm, gæti borgin leyst til sín. Einnig þyrfti hún að byggja ný. Þessar framkvæmdir ætti að fjármagna á félagslegan hátt: Borgin ætti, með samfélagslegu eiginfé, að koma sér upp sinni eigin lánastofnun þar sem hún svo fengi lán án vaxta. Strax og borgin hættir að borga vexti til banka og annarra afæta, losnar um peninga sem renna inn í fjármálastofnun borgarinnar og þaðan í uppbyggingu velferðarinnar.

Það er hagur allra -- eða, a.m.k. 90% fólks -- að samfélagið leysi sín mál án þess að peningamenn geti alltaf gert sér þau að féþúfu í leiðinni. Félagsmál snúast ekki um ölmusu, heldur að allir geti notið lífsgæða og reisnar.

Tinna Þorvaldsdóttir
4. sæti Alþýðufylkingarinnar (R) í Reykjavík