mánudagur, 18. nóvember 2013

Heilbrigðismálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Ályktun um heilbrigðismál á landsfundi Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013

Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er krúnudjásn hvers siðmenntaðs þjóðfélags sem vill kenna sig við velferð.

Íslensk heilbrigðisþjónusta er nú að molna niður og borgaralegir stjórnmálaflokkar virðast ekki eiga aðrar lausnir fyrir hana heldur en að kenna hver öðrum um, þó þeir eigi allir sinn skerf af sökinni í gegn um margar undangengnar ríkisstjórnir í röð. Þótt kerfið þoli kannski aukið álag í einhverjar vikur eða mánuði, gerir það það ekki í mörg ár. Þegar svo er komið að álagið á kerfinu og þeim sem starfa við það er þegar búið að valda dauða fólks sem hefði mátt bjarga, þá er orðið of seint að afstýra slysi. Slysið er byrjað og það þarf að stöðva það áður en meira illt hlýst af.

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn í Friðarhúsi 8.-9. nóvember 2013, ályktar að það eigi tafarlaust að veita heilbrigðiskerfinu það fjármagn sem þarf til þess að endurreisa þjónustu sjúkrahúsa á landsbyggðinni, til að endurreisa þjónustu Landspítalans og til að endurreisa heilsugæsluna. Þar með talið er mikið fé sem vantar til tækjakaupa og til að hækka laun heilbrigðisstétta og ráða fleira fólk til að létta álagi af þeim sem fyrir eru.

Lykillinn að endurreisn heilbrigðiskerfisins er félagsvæðing. Annars vegar í heilbrigðiskerfinu sjálfu, hins vegar í hagkerfinu almennt. Í heilbrigðiskerfinu sjálfu þýðir félagsvæðing að öll heilbrigðisstarfsemi sé félagslega rekin, af hinu opinbera eða öðrum félagslegum öflum, svo fjármunir og mannafli nýtist betur, þannig að „hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu“, eins og segir í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar. Það þarf að ormahreinsa kerfið til að losa það við afætur sem fleyta rjómann: Hið opinbera þarf sjálft að veita kerfinu fjármálaþjónustu til að spara því vaxtakostnað. Kerfið þarf sjálft að eiga húsnæðið sem það starfar í, frekar en að leigja af einkafyrirtækjum. Félagslega reknar heilbrigðisstofnanir ættu sjálfar að taka sig saman um að flytja inn eða framleiða lyf og önnur hjúkrunargögn og miðla þeim. Aðkeyptri þjónustu ætti að halda í lágmarki og ekki úthýsa öðru en gróðasólgnum krumlum auðvaldsins.

Það borgaralega og andfélagslega viðhorf hefur um árabil ríkt á Íslandi að líta á almannaþjónustu, á borð við heilbrigðiskerfið, sem byrði á þjóðfélaginu, en ekki sem lífskjarabætandi og útgjaldasparandi mannréttindi. Það er byrði að lifa við slæma heilsu og fá ekki þau bjargráð sem þarf til að batna eða lifa með reisn. Það er byrði fyrir þjóðfélagið ef fjölda fólks er haldið í slæmri heilsu eða bágum kjörum vegna þess að ríkið vilji „spara“ eða þykist ekki „hafa efni á“ að reka almennilegt heilbrigðiskerfi.

Það eru gömul sannindi að betra er heilt en vel gróið. Þess vegna ber að leggja mikla áherslu á að byggja upp heilsugæsluna, þar sem fyrst er tekið á móti fólki sem þarf hjálp lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks, og bæta þarf lýðheilsu, forvarnir og aðrar fyrirbyggjandi ráðstafanir sem forða fólki frá veikindum. Þjónusta tannlækna og sálfræðinga ætti að vera félagsleg og gjaldfrjáls, eins og önnur heilbrigðisþjónusta.

föstudagur, 15. nóvember 2013

Ályktun Alþýðufylkingarinnar um rafmagnssæstreng

Ályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013 um rafmagnssæstreng

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn 8.-9. nóvember 2013, hafnar alfarið framkomnum hugmyndum um lagningu rafmagnssæstrengs mili Íslands og Skotlands. Jafnvel þó að slík sæstrengslögn væri tæknilega möguleg þá myndi fjárfesting af þeirri stærðargráðu kalla á stórfellda rányrkju á íslenskum orkuauðlindum og stórhækkun á raforkuverði innanlands. Ennfremur sýnir reynslan að framkvæmdir af þessu tagi verða notaðar til að auka einkavæðingu í raforkumálum þannig að gróðinn af aukinni veltu verði einkavæddur en kostnaðinum af fjárfestingunni velt yfir á almenning. Mikilvægt er að koma í veg fyrir þessa framkvæmd sem fyrst þar sem erfiðara er að stöðva hana á síðari stigum.

Lífeyrismálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Ályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013 um lífeyrismál

Lífeyriskerfið á Íslandi er tímasprengja. Frá árinu 1970 hefur því verið haldið fram að sjóðssöfnun og ávöxtun lífeyrissjóðanna sé haldreipi samfélagsins og trygging fyrir því að hægt verði að greiða lífeyri til aldraðra og öryrkja.

Kreppan hefur þó sýnt forsmekkinn af veruleikanum. Þó að iðgjöld hafi verið hækkuð er nú hvatt til frekari hækkana, jafnvel í allt að 20% af launum til að standa undir lífeyrisskuldbindingum. Það mun þó heldur ekki duga því að drjúgur hluti fjárins mun óhjákvæmilega halda áfram að glatast með töpuðum fjárfestingum í kreppunni, enda eru þeir notaðir sem ruslafata fyrir ónýt verðbréf þegar þörf krefur. Öruggustu fjárfestingar lífeyrissjóðanna felast í því að féfletta sjóðfélagana sjálfa gegnum okur á húsnæðislánum og spyrja má hvort það sé ekki dýrkeyptur lífeyrir. En gróðinn af vaxtaokrinu á sjóðfélögunum fer að miklu leyti í súginn í spákaupmennsku á fjármálamörkuðum, enda eru fjárfestingatækifæri í verðmætaskapandi starfsemi aðeins brot af því sem lífeyrissjóðirnir þurfa. Til að fjárfestingar sjóðanna í atvinnufyrirtækjum skili nægilegri ávöxtun til að standa undir lífeyri er nærtækt ráð að lækka laun. Þannig sitja „verkalýðsforingjarnir“ báðu megin við borðið og meta yfirleitt hagsmuni lífeyrissjóðanna meira en kjarabætur.

Nú þegar nálgast að lífeyrissjóðirnir hafi starfað sem nemur einni starfsævi og eigi því að hafa náð fullum styrk koma veikleikar þeirra í ljós með skerðingu lífeyris sem aðeins mun aukast, sérstaklega hjá láglaunafólki. Lífeyrissjóðirnir hafa hins vegar alltaf aukið ójöfnuð, bæði með því að framlengja launaójöfnuð fram á grafarbakkann með ójöfnum greiðslum úr sjóðunum, og einnig með því að þeir sem fá háar greiðslur úr lífeyrissjóðum losna undan margvíslegum skerðingum sem greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru ofurseldar.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að komið verði á samræmdu félagslegu lífeyriskerfi sem tryggi öllum sömu upphæð til framfærslu sem þess þurfa með, hvort sem ástæðan er öldrun, örorka, veikindi, atvinnuleysi eða annað. Reynt verði að skapa öllum skilyrði til að virkja starfsfærni sína í þágu samfélagsins. Starfslok verði sveigjanleg og að nokkru háð vilja hvers og eins. Þessi stefna er nauðsynleg til að skapa jöfnuð og samstöðu í samfélaginu og vinda ofan af eyðileggjandi spákaupmennsku.

fimmtudagur, 14. nóvember 2013

Húsnæðismálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Ályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013 um húsnæðismál

Stæsti kostnaðarliður íslenskra alþýðuheimila er húsnæðiskostnaður. Þar hefur kreppan líka komið einna harðast niður á flestum. Stærsti hluti húsnæðiskostnaðar eru vextir. Það á jafnt við hvort sem folk býr í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði.

Undanfarna áratugi hefur hátt í 90% þjóðarinnar búið í eigin húsnæði, sem yfirleitt hefur verið ódýrara þrátt fyrir háan vaxtakostnað, en einnig vegna þess hve leigumarkaðurinn er ótryggur. Í upphafi kreppunnar tapaði stór hópur almennings aleigunni við hækkun á lánum og lækkun á húsnæðisverði. Þeir ríku og tekjuháu fengu háar upphæðir afskrifaðar af lánum, en þúsundir þeirra sem verst standa hafa verið hraktir út á leigumarkaðinn sem stígur lóðbeint upp í verði en fjárfestar safna fasteignum. Þannig eru sveiflur á fasteignamarkaði alltaf notaðar til að auka arðránið á alþýðunni.

Húsnæði er grunnþörf sem samfélagið verður að tryggja aðgang allra að án þess að það íþyngi fólki fjárhagslega. Eina leiðin til þess er að allir eigi rétt á félagslegri fjármögnun íbúðarhúsnæðis að vissu marki, fjármögnun sem væri fengin með samfélagslegu eigin fé. Það myndi spara mikið fé og gæti verið skref í átt að félagsvæðingu fjármálakerfisins.

Umhverfismálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Ályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013 um umhverfismál

Umhverfismálin eru brýnustu úrlausnarefni samtímans. Vistkerfum jarðarinnar er ógnað í sífellt vaxandi mæli úr öllum áttum þannig að lífsskilyrði á jörðinni eru í mikilli hættu.

Vandamálin birtast m.a. í rányrkju á auðlindum, auknu magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og súrnun sjávar, þynningu ósonlagsins og mikilli uppsöfnun þrávirkra úrgangsefna sem komið er fyrir í mörgum af fátækustu löndum heims. Helstu orsakir umhverfisvandans stafa af sókn auðstéttarinnar eftir hámarksgróða. Með því að auka framleiðslu stöðugt er gengið hratt á auðlindir jarðarinnar á kostnað komandi kynslóða. Víða er stór hluti framleiðslu og flutninga knúinn áfram með jarðefnaeldsneyti, sem hefur undanfarnar tvær aldir safnað svo miklu af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið að hlýnun jarðar er komin að bráðum hættumörkum.

Með alþjóðavæðingu auðmagnsins er framleiðsla flutt heimshorna á milli eftir því hvar vinnuaflið er ódýrast og umhverfisvernd er minnst. Þetta kostar mikla flutninga með hráefni og síðar með vörur á markað. Einnig hefur þetta í för með sér að samfélag sem verður háð viðkomandi starfsemi hefur tilhneigingu til að slaka á kröfum í umhverfismálum til að missa ekki frá sér störf. Eins er umhverfisverndarsinnum oft stillt upp frammi fyrir spurningunni hvort þeir vilji stuðla að atvinnuleysi og á hverjum það bitni.

Ráðandi stéttir reyna að stilla upp umhverfismálunum þannig að lausn þeirra sé einstaklingsbundin og ráðist af hugkvæmni og samvisku hvers og eins við sorpflokkun o.fl. Einnig reyna þær að auka forréttindi sín með því að binda rétt til mengunar við kvóta sem gengur kaupum og sölum. Þannig reynir auðstéttin að kaupa sig frá vandanum sem þó heldur áfram að aukast.

Öll helstu umhverfisvandamál og ógnanir við vistkerfi heimsins eiga sér frumorsök í eðli og hagsmunum auðstéttarinnar og kröfu hennar um sífelldan hagvöxt og hámarksgróða. Aukin velta í hagkerfinu knýr fram aukna ásókn í auðlindir og orkunotkun til að byggja undir hagvöxtinn. Þetta er tilfellið þó svo að offramleiðsla hafi verið á heimsvísu undanfarna áratugi. Lausnir umhverfisvandamálanna verða að byggjast á samfélagslegum lausnum og ákvörðunum, bæði pólitískum og tæknilegum, sem ekki stjórnast af gróðamöguleikum auðmanna.

Til að stemma stigu við aðsteðjandi umhverfisvanda er nauðsynlegt að losa samfélagið undan oki hins gróðadrifna fjármálakerfis. Þegar fjármálakerfið verður rekið á félagslegum grunni án þess að soga til sín öll verðmæti úr hagkerfinu verður svigrúm til að auka fjölbreytni í atvinnu og verðmætasköpun, sem þá þarf ekki að standa undir himinháum fjármagnskostnaði. Þannig minnkar þörfin fyrir orkufreka flutninga með vörur heimshorna á milli.

Framleiðsla miðast meira við þarfir fólksins en ekki þarfir auðmagnsins fyrir sífellt auknar fjárfestingar til að ávaxta aukinn gróða.

Þetta er lykillin að því að vinda ofan af umhverfisógninni og koma á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Vaxandi hreyfing í samfélaginu tekur umhverfismálin alvarlega og vinnur ötult starf til lausnar á þeim. Til að auka árangur þess og til að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi innan umhverfishreyfingarinnar á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.

miðvikudagur, 13. nóvember 2013

Almenn stjórnmálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Stjórnmálaályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013

Á meðan öll ráðandi öfl í samfélaginu láta í veðri vaka að kreppan sé liðin hjá heldur hún áfram að veikja hag þeirra fátæku. Kreppan er ekki liðin hjá og að öllum líkindum á hún eftir að dýpka talsvert.

Þessi kreppa er ekki bara efnahagskreppa, heldur er auðvaldskerfið í alhliða kreppu, sem er bæði efnahagsleg, pólitísk og siðferðisleg og leiðir af sér mestu vistkreppu sem mannkynið hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir.

Orsök þessa alls er arðránið sem efnahagskerfi kapítalismans byggist á. Vaxandi kapítal þarf á vaxandi fjárfestingartækifærum að halda og til að svo megi verða er slakað á kröfum í umhverfismálum, skorin niður velferðin og kjör almennings. Þetta höfum við séð undanfarin ár og það heldur áfram á meðan orsakir kreppunnar eru enn alls ráðandi. Samfylkingin og Vinstrigræn fengu sögulegt tækifæri á síðasta kjörtímabili, en notuðu það fyrst og fremst til að sanna auðvaldinu tryggð sína í verki með stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar, metniðurskurði í velferðarmálum og á margan annan hátt að velta afleiðingum kreppunnar yfir á alþýðuna.

Stærsta kosningaloforð núverandi ríkisstjórnar er dæmt til að verða svikið þar sem ekki stendur til að gera þær breytingar á fjármálakerfinu sem létt geta vaxtaokrinu af almenningi. Það mun valda miklum vonbrigðum eins og krataflokkarnir hafa þegar gert vegna síðustu ríkisstjórnar sem engu breytti. Framundan má því búast við pólitískri ólgu og upplausn, sem vakið getur upp hættu á fasisma og hvers konar ógn.

Eina leið samfélagsins út úr þeim kreppufarvegi sem það er í felst í stefnu Alþýðufylkingarinnar um aukið vægi hins félagslega í samfélaginu á kostnað markaðsstýringar og að efla hagsmunabaráttu alþýðunnar. Fyrir þeirri stefnu verður að nást breið samstaða meðal vinstra fólks og alls almennings. Til að ná málefnalegri samstöðu er heiðarleg umræða nauðsynleg, hvort sem hún nær til einstakra afmarkaðra mála eða almennrar stefnu. Það er á ábyrgð allra vinstri manna að leitast við að byggja upp slíka samstöðu. Alþýðufylkingin mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð.

Af landsfundi Alþýðufylkingarinnar

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar var haldinn í Reykjavík 8.-9. nóvember. Þar voru samþykktar nokkrar lagabreytingar, sem og nokkrar ályktanir sem verða birtar hér á síðunni á næstu dögum. Í framkvæmdastjórn voru kjörin:
Þorvaldur Þorvaldsson formaður
Sólveig Hauksdóttir varaformaður
Skúli Jón Kristinsson Unnarson ritari
Einar Andrésson gjaldkeri
Óskar Höskuldsson meðstjórnandi
Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir meðstjórnandi
Vésteinn Valgarðsson meðstjórnandi

Auk þeirra voru kjörnir í miðstjórn:
Björgvin Leifsson, Húsavík
Kristian Guttesen, Egilsstöðum
Ólafur Þ Jónsson, Akureyri
Jóhannes Ragnarsson, Ólafsvík