þriðjudagur, 30. apríl 2013

Rauður 1. maí

Alþýðufylkingin verður með stóran borða, rauða fána og fleira á fyrsta maí. Áhugasamir þátttakendur gefi sig fram við okkur á Hlemmi, í göngunni eða á Ingólfstorgi -- þið finnið okkur í námunda við gríðarstóran borða sem stendur "Alþýðufylkingin" á.

Klukkan 20 um kvöldið heldur Alþýðufylkingin svo Rauðan fyrsta maí. Hann verður í kosningamiðstöðinni okkar að Hverfisgötu 82. Þar verða góð stemmning og góður félagsskapur.

fimmtudagur, 25. apríl 2013

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, sat fyrir svörum í Kosningasjónvarpinu á mánudaginn. Viðtalið er á heimasíðu Ríkisútvarpsins.

Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar

Þegar Björgvin Rúnar Leifsson, félagi og frambjóðandi Alþýðufylkingarinnar, var í framboði til stjórnlagaþings, skrifaði hann grein um álitamál tengd eignarrétti. Greinina má lesa á heimasíðu Björgvins: Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

miðvikudagur, 24. apríl 2013

Kosningavaka Alþýðufylkingarinnar

Á laugardaginn verður kosningavaka Alþýðufylkingarinnar haldin í kosningamiðstöðinni góðu, að Hverfisgötu 82. Hún byrjar kl. 20:00 og stendur frameftir öllu. Nákvæm dagskrá er í vinnslu. Veitingar. Verið velkomin.

Ljóðakvöld 6 í kvöld: Hagyrðingakvöld

Í kvöld kl. 20:00 heldur Alþýðufylkingin sitt sjötta ljóðakvöld, og í þetta sinn verður það hagyrðingakvöld. Það fer fram í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82. Fram koma:
Bjarki Karlsson
Eyvindur P. Eiríksson
Jón Ingvar Jónsson
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
Steindór Andersen
Vésteinn Valgarðsson
Þorvaldur Þorvaldsson
Allir velkomnir -- heitt á könnunni -- kleinur -- frjáls framlög kærkomin!

Svör við spurningum Læknafélags Íslands

Læknafélag Íslands sendi spurningar á öll framboð fyrir nokkru síðan. Við birtum hér svör Alþýðufylkingarinnar við þeim.
 
Sp 1: Hefur verið gengið of langt í niðurskurði til heilbrigðismála á undanförnum árum?
 
Sv: Alltof langt hefur verið gengið í niðurskurði til heilbrigðismála undanfarin mörg ár.
 
Sp 2: Starfsmannaflótti og lengri biðlistar eftir aðgerðum og rannsóknum eru vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Hvernig hyggst þinn flokkur bregðast við þessum vandamálum?
 
Sv 2: Annars vegar hyggjumst við stórauka framlög til heilbrigðismála og forgangsraða uppbyggingu í samráði við fagfólk. Fjármögnun þess mun byggjast á því að auka vægi hins félagslega í hagkerfinu og innviðum samfélgsins. Með því aðfjármálakerfið verði gert félagslegt og látið hætta að soga til sín allt sem tönn á festir skapast mikið svigrúm til uppbyggingar í velferð og auknum lífsgæðum almennings. Ennfremur hyggjumst við bæta nýtingu á fé til heilbrigðismála með því að draga úr einkarekstri í samráði við þær fagstéttir sem málið varðar og skapa aðstöðu til allrar heilbrigðisþjónustu á opinberum vegum. Þetta á einnig við um tannlækningar sem við teljum að eigi að lúta sömu lögmálum og önnur heilbrigðisþjónusta. Einnig teljum við að hagkvæmt geti verið að framleiða ýmsar lækningavörur hér á landi sem nú eru fluttar inn og þannig mætti spara gjaldeyri.
 
Sp 3: Var það farsæl breyting að slá heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu saman í eitt velferðarráðuneyti? Er velferðarráðuneytið ef til vill of stórt miðað við íslenskar aðstæður?
 
Sv 3: Við höfum ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt hafi verið að sameina heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin. Líklega ræðst það að mestu leyti af því hvernig skipulag og stjórnun er á hvorum málaflokki. 
 
Sp 4:Hefur verið gengið of langt í sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni?
 
Sv 4: Já við teljum að of langt hafi verið gengið í sameiningu sjúkrastofnana á landsbyggðinni. Við teljum að veita eigi sem mesta þjónustu innan seilingar frá fólkinu þar sem það býr en sérhæfð þjónusta verði á færri stöðum.
 
Sp 5: Hvernig á að efla heilsugæsluna og gera hana að aðlaðandi vinnustað fyrir lækna og annað starfsfólk?
 
Sv 5: Heilsugæslan gegnir mjög mikilvægu og víðtæku hlutverki í heilbrigðisþjónusunni. Okkur er ljóst að hún hefur átt mjög undir högg að sækja og biðtími eftir tíma hjá heimilislækni almennt mjög langur. Við vitum ekki hvort ástæðurnar fyrir því eru fleiri en fjársvelti en mjög brýnt er að snúa þessari þróun við með þeim ráðum sem til þarf. 
 
Sp 6: Hver er afstaða þíns flokks til nýbyggingar Landspítalans við Hringbraut? Væri æskilegt að reka tvö sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu?
 
Sv 6: Við höfum miklarefasemdir um fyrirhugaða nýbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Æskilegra væri að dreifa meiru af þjónustunni eftir því sem hægt er , bæði um landsbyggðina og nágrannasveitarfélög.
 
Sp 7: Hver er afstaða þíns flokks til einkarekstrar (ekki einkavæðingar) í heilbrigðiskerfinu? Hve stóran hluta heilbrigðiskerfisins er æskilegt að reka með samningum við Sjúkratryggingar Ísladns?
 
Sv 7: Við viljum draga úr einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og stefna að því að öll heilbrigðisþjónusta verði veitt beint af opinberum stofnunum. Við viljum að sama skapi vinda ofan af viðskiptavæðingu í heilbrigðiskerfinu þannig að Sjúkratryggingar Íslands verði óþarfar.

þriðjudagur, 23. apríl 2013

Þorvaldur á Beinni línu á DV.is

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, var á Beinni línu á DV.is í dag og hægt er að lesa spurningarnar og svörin hér.

Hagyrðingakvöld á morgun

Annað kvöld -- miðvikukvöldið 24. apríl -- heldur Alþýðufylkingin sitt sjötta ljóðakvöld, og í þetta sinn verður það hagyrðingakvöld. Það fer fram í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82, byrjar klukkan 20:00 og fram koma:
Bjarki Karlsson
Eyvindur P. Eiríksson
Jón Ingvar Jónsson
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
Steindór Andersen
Vésteinn Valgarðsson
Þorvaldur Þorvaldsson
Allir velkomnir -- heitt á könnunni -- kleinur -- frjáls framlög kærkomin!

Umhverfismál í kvöld

Í kvöld, þriðjukvöldið 23. apríl, heldur Alþýðufylkingin fund um umhverfismálin.

Á framhaldsstofnfundi flokksins var samþykkt ályktun um umhverfis- og auðlindamál, og í stefnuskránni er einnig sérstakur kafli um umhverfið og auðlindirnar.

Svar við spurningum Sálfræðingafélags Íslands

Sálfræðingafélag Íslands sendi Alþýðufylkingunni fyrirspurn um stefnu í geðheilbrigðismálum. Hér eru spurningarnar og svör okkar við þeim:


Spurning 1
Hver er framtíðarsýn flokksins í geðheilbrigðismálum og hvaða atriði mun hann setja í forgang? Hér er mikilvægt að hafa alla aldurshópa í huga og bæði forvarnir og meðferð.

Svar:
Geðheilbrigðismál hafa farið halloka eins og flest annað í velferðarkerfinu undanfarin ár, og þá meina ég ekki bara kjörtímabilið sem er að klárast. Það er brýnt að hækka framlög hins opinbera til þeirra undir eins, enda er það viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á mikið undir því. Það á ekki að líta á geðheilbrigðismál sem bagga, einhvern lúxus sem við við höfum efni á þegar vel árar, vegna þess að þau eru meðal þess sem samfélagið okkar byggir á – þau eru einn mælikvarðinn á siðmenninguna í landinu. Það er margt sem þarf að bæta – nefna má vernd barna fyrir vanrækslu, forvarnir við vímuefnaneyslu ungmenna (og annarra) og að eldra fólk sé ekki afskipt. Það þarf að búa til úrræði fyrir afbrotamenn sem eru geðsjúkir en sakhæfir, það þarf að stórbæta aðbúnað fyrir fíkla og útigangsmenn, þar á meðal meðferð og endurhæfingu – og taka þá úr höndum fúskara og útvega þeim faglega hjálp í staðinn. Þó margt sé að, eru líka efnilegir vaxtarbroddar sem þarf að hlúa að, svo sem innleiðing batastefnu á geðsviði Landspítala, ný og betri réttargeðdeild og áform um geðgjörgæsludeild og öldrunargeðdeild, sem vonandi munu lukkast vel og þurfa þann stuðning sem þær þurfa frá hinu opinbera. Undirmönnun á geðdeildum er landlæg og hefur staðið árum saman og hana er aðeins hægt að leysa með auknum peningum – sama má segja um ástand geðdeildarbygginga, sem er ekki hægt að kalla mannbætandi né batahvetjandi. Þá er þörf á breyttu hugarfari; að geðdeildir taki ekki bara við sjúklingum, heldur að fagfólk, t.d. samfélagsgeðteymi, leiti uppi og sæki fólk sem þarf á hjálp að halda, og komi þeim í viðeigandi úrræði, líkt og mun vera gert í Danmörku. Því fyrr í sjúkdómsferlinu, sem hjálp er veitt, þess betri ættu batahorfurnar að vera. Það ætti að vera betra fyrir þá sjúklinga sem þá njóta þess, og þannig mundi kerfið betur þjóna tilgangi sínum.
Þó geðsjúkdómar eigi sjálfsagt eftir að fylgja mannkyninu um alla framtíð, og þó ekki sé hægt að útrýma þeim eins og bólusótt, er mikilvægt að greina samfélagslega þætti sem geta ýtt undir þá, og reyna að bæta þar úr. Augljóslega eru fátækt og neysla nautnalyfja slíkir þættir, en ekki má gleyma þeirri kúgun sem er innbyggð í öll samfélög stéttaskiptingar og annars ójafnréttis þar sem sumir eru húsbændur en aðrir hjú – og svo firringu, sem er ein hliðarafurð kapítalískra framleiðsluhátta. Það verður kannski ekki bundinn endir á kúgun og firringu á vorum dögum, en það þarf bæði að byrja að vinna kerfisbundið gegn hvoru tveggja (með því að minnka vægi fjármagnsins og auka vægi hins félagslega í samfélaginu) – og einnig að læra að lifa betur með þjóðfélagsmeinunum, á meðan við sitjum uppi með þau á annað borð. Það er framtíðarsýnin – að við, sem samfélag, þreyjum á meðan við undirbyggjum farsæld, réttlæti og allsnægtir fyrir komandi kynslóðir.


Spurning 2
Í lögum um réttindi sjúklinga segir að sjúklingar eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita, í samræmi við bestu þekkingu.
Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á gagnreynd sálfræðimeðferð að vera fyrsta meðferð við tilfinningavanda og fleiru. Almenningur hefur einungis mjög takmarkað aðgengi að slíkri meðferð, þar sem hún er a) í mjög litlum mæli í boði innan heilsugæslunnar og b) ekki niðurgreidd af Sjúkratryggingum. Hvernig hyggst flokkurinn beita sér í því að laga það ósamræmi sem þarna blasir við?


Svar:
Sálfræðimeðferð er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu landsins og sem slíkur á hún að sjálfsögðu að vera niðurgreidd af ríkinu og aðgengileg öllum sem hana þurfa. Ef við fáum tækifæri til munum við setja lög þar um.

mánudagur, 22. apríl 2013

Alþingisprófið á DV.is

Á DV.is er að finna Alþingisprófið. Lesið svör frambjóðenda Alþýðufylkingarinnar þar, og mátið við ykkar eigin viðhorf.

Svör til Femínistafélagsins

Lesið færsluna Framboð og femínismi á heimasíðu Femínistafélags Íslands, þar eru svör framboðanna (m.a. Alþýðufylkingarinnar) við spurningum Femínistafélagsins. Til einföldunar birtum við okkar svör sérstaklega hérna:

Sp 1: Er framboðið femínískt?
Sv: Við viljum að jöfnuður og jafnrétti verði meginregla í öllu samfélaginu og við erum því eindregið á móti hvers konar mismunun, meðal annars á grundvelli kynferðis. Stéttabaráttan verður ekki háð án jafnréttisbaráttu.
Sp 2: Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að jafna hlut karla og kvenna í stjórnmálum?
Sv: Stjórnmálin eru afurð þjóðfélagsins og það þarf fyrst og fremst að jafna hlut karla og kvenna í þjóðfélaginu öllu. Það munar meira um þá jöfnun, og áhrif hennar á stjórnmálin, heldur en að setja reglur um stjórnmálin sjálf. Í stjórnmálunum sjálfum munar mest um að koma að ærlegu fólki sem berst gegn ójafnrétti og öðru félagslegu ranglæti.
Sp 3. Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að útrýma kynbundnum launamuni hérlendis?
Sv: Með því að gera launakerfið gegnsærra og rekstur einstakra fyrirtækja, sem og fjármálakerfisins, lýðræðislegri, og með því að endurreisa ýmsa innviði samfélagsins sem hafa hátt hlutfall kvenna í vinnu, svo sem heilbrigðiskerfið. Auk þess viljum við jafna vægi starfa í þjóðfélaginu, sem mundi gagnast lágt launuðu fólki af báðum kynjum.
Sp 4: Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að uppræta kynbundið ofbeldi, svo sem nauðganir, ofbeldi í nánum samböndum, vændi, mansal o.fl., og færa þolendum þess réttlæti í dómskerfinu?
Sv: Til að byrja með, viljum við ekki að neinn sé í aðstöðu til að geta ekki hafnað ósæmilegum tilboðum og það gerum við með því að styrkja félagslega stöðu þeirra sem í dag eru neðst í þjóðfélagsstiganum. Í öðru lagi á að senda þau skilaboð að kynferðislegt ofbeldi sé óásættanlegt, og það gerum við ekki bara með lögum og reglum heldur líka með því að skapa menningu þar sem gildi virðingar, réttlætis og jöfnuðar eru í hávegum, í stað þeirrar þjóðfélagslegu kúgunarmenningar sem ríkir. Í þriðja lagi þarf kerfið að skýla þolendum, m.a. með því að þolendur þurfi ekki að flýja að heiman (heldur séu ofbeldismenn fjarlægðir) eða, ef hjá því verður ekki komist, að í nægileg úrræði sé að venda. Þá viljum við gera réttarkerfið gjaldfrjálst, þannig að málsatvikin ráði ferðinni en ekki fjárhagsstaða málsaðila. Við mundum leita ráða sérfræðinga til að útfæra þessar aðferðir nánar og til að finna fleiri aðferðir.
Sp 5: Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að stemma stigu við aðgengi að klámi?
Sv: Aðallega forvörnum í formi eðlilegrar og hreinskilinnar kynfræðslu í skólum fyrir börn og unglinga, og með því að stuðla að því að skólakerfið (og þjóðfélagið) innræti börnum virðingu fyrir fólki.

Eigulegar kaffikrúsir til sölu

Í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar, að Hverfisgötu 82, er hægt að kaupa mjög smart kaffibolla, merkta flokknum. Það er opið frá 12-18 alla daga þessa vikuna, þannig að það er um að gera að kíkja við, kaupa sér bolla og fá sér kaffi í hann. Einnig eru á boðstólum plaköt, bækur og fleira forvitnilegt.

Knúz.is spyr -- Alþýðufylkingin svarar

Vefritið Knúz.is sendi okkur lista af spurningum á dögunum. Svör okkar við þeim eru komin á heimasíðuna þeirra: Lesið þau.

Dagskrá vikunnar

Í þessari viku verður lengri opnunartími í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar, Hverfisgötu 82, en verið hefur -- það verður opið frá 12 til 18 alla daga. Auk þess:
Þriðjukvöldið 23. apríl verður fundur um umhverfismál kl. 20:00.
Miðvikukvöldið 24. apríl hagyrðingakvöld (ljóðakvöld nr. 6) og koma fram Bjarki Karlsson, Eyvindur P. Eiríksson, Jón Ingvar Jónsson, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Steindór Andersen, Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson.
Að kvöldi kjördags, laugardagskvöld 27. apríl, verður kosningavaka, sem hefst kl. 20:00 og lýkur seint.

sunnudagur, 21. apríl 2013

Miðvikuljóðakvöld #6: Nú mæta hagyrðingarnir

Á miðvikukvöldið heldur Alþýðufylkingin sitt sjötta ljóðakvöld, og í þetta sinn verður það hagyrðingakvöld. Það fer fram í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82, byrjar klukkan 20:00 og fram koma:
Bjarki Karlsson
Jón Ingvar Jónsson
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
Steindór Andersen
Vésteinn Valgarðsson
Þorvaldur Þorvaldsson
Allir velkomnir -- heitt á könnunni -- kleinur -- frjáls framlög kærkomin!

Þorvaldur á Sprengisandi

Í morgun var Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, í viðtali á Sprengisandi Sigurjóns Egilssonar á Bylgjunni. Hlustið á viðtalið hér.

Alþýðufylkingin á Kjósturétt.is

Vefurinn Kjósturétt.is tekur saman stefnu framboðanna í ýmsum meginmálaflokkum. Þar má meðal annars sjá hverju Alþýðufylkingin svarar.

fimmtudagur, 18. apríl 2013

Opið hús á laugardaginn

Alþýðufylkingin verður með opið hús frá klukkan 13 í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82 laugardaginn 20. apríl. Frambjóðendur verða til viðtals. Leikhorn fyrir börnin. Föndur og stuð og óvæntar uppákomur. Pubquiz um kvöldið. Kaffi og meðlæti og allir velkomnir.

Velferðar- og menntamál á RÚV

Vésteinn Valgarðsson, varaformaður Alþýðufylkingarinnar og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi syðra, talaði fyrir stefnu Alþýðufylkingarinnar í velferðar- og menntamálum í kosningasjónvarpinu á dögunum. Þáttinn má sjá á heimasíðu Sjónvarpsins.

Kjördæmaþáttur RvkN á RÚV

Á dögunum kom Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra fram í kjördæmaþætti Ríkisútvarpsins. Þáttinn má sjá á heimasíðu RÚV.

Kjör almennings á RÚV

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar og oddviti hennar í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra, koma fram í þætti um kjör almennings í kosningasjónvarpi RÚV á dögunum. Þáttinn má sjá á heimasíðu RÚV.

miðvikudagur, 17. apríl 2013

Ljóðakvöld #5 í kvöld

Í kvöld heldur Alþýðufylkingin sitt fimmta ljóðakvöld í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82, og hefst það klukkan 20:00. Fram koma:

Birgir Svan Símonarson
Eyvindur P. Eiríksson
G. Rósa Eyvindardóttir
Heiða trúbadúr
Sigurbjörg Sæmundardóttir

Allir velkomnir, heitt á könnunni, kalt í ísskápnum og frjáls framlög vel þegin!

Svör við spurningum Grapevine

Reykjavík Grapevine sendi öllum framboðum lista af spurningum á dögunum og birti úrval af svörunum í nýjasta tölublaði sínu. Á heimasíðu þeirra má lesa öll svörin, og þar á meðal eru svör Alþýðufylkingarinnar, sem lesa má hér.

Evran er mjög árangursrík -- gegn vinnandi fólki

Bandaríski rannsóknarblaðamaðurinn Greg Palast hefur óvenjuskýra á hvernig evran virkar -- og hvers vegna ærlegt fólk ætti að berjast gegn upptöku hennar:

Evran er mjög árangursrík – án gríns

eftir Greg Palast
Það er hættulega barnaleg hugmynd að evran hafi „brugðist“. Evran er að gera nákvæmlega það sem faðir hennar – og hið ríka 1% sem tók hana upp – spáði og ætlaði henni.

Þessi faðir er Robert Mundell, höfundur „framboðs-hagfræðinnar“ (e. supply-side economics), áður hagfræðingur við Chicago-háskóla, nú prófessor við Columbia-háskóla, sem ég kynntist í gegn um tengsl hans við minn eigin Chicago-prófessor, Milton Friedman, áður en rannsóknir Mundells á gjaldmiðlum og gengi gátu af sér uppdráttinn að myntbandalagi Evrópu og sameiginlegum evrópskum gjaldmiðli.

Í þá daga var Mundell upptekinn af baðherbergisinnréttingunum sínum. Prófessor Mundell, sem á bæði Nóbelsverðlaunapening og fornt setur í Toscana-héraði á Ítalíu, sagði mér, og var mikið niðri fyrir:
„Þeir leyfa mér ekki einu sinni að fá klósett! Þeir eru með reglur sem segja mér að ég megi ekki hafa klósett í þessu herbergi! Geturðu ímyndað þér!?“

Satt að segja á ég erfitt með það. En ég á ekki ítalskt setur, svo ég þekki ekki gremjuna sem fylgir reglugerðum um salernisfyrirkomulag.

En hinn kanadísk-bandaríski Mundell er maður sem leysir málin, og hann ætlaði sér að gera eitthvað í þessu: finna vopn sem gæti rutt burt reglum stjórnvalda og verkalýðsfélaga. (Hann virkilega hataði félagsbundnu pípulagningamennina sem rukkuðu hann um heilt seðlabúnt fyrir að færa hásætið hans til.)

„Það er mjög erfitt að reka verkamenn í Evrópu,“ kvartaði hann. Og svar hans: evran.
Evran mundi í rauninni vinna vinnuna þegar kreppan skylli á, útskýrði Mundell. Með því að svipta ríkisstjórnirnar valdinu yfir gjaldmiðlinum, væri hægt að koma í veg fyrir að litlir, ljótir embættismenn notuðu keynsískar aðferðir í peningastefnu og ríkisfjármálum til að draga þjóðirnar upp úr svaðinu.

„Peningastefnan verður þá komin utan seilingar fyrir stjórnmálamenn,“ sagði hann. „[Og] án peningastefnu, er eina aðferð þjóða til að halda í störfin að keppast um að afnema reglugerðir á fyrirtæki.“

Hann nefndi lög um vinnumarkaðinn, reglugerðir um umhverfismál og, auðvitað, skatta. Öllu þessu mundi evran sturta niður. Lýðræði fengi ekki að skipta sér af markaðnum – og heldur ekki af pípulögnunum.

Eins og annar Nóbelsverðlaunahafi, Paul Krugman, hefur bent á, þá braut stofnun evrusvæðisins hagfræðireglu sem er þekkt sem „hagkvæmasta myntsvæði“. Það var reyndar regla sem Bob Mundell setti sjálfur fram.

Það angrar Mundell ekki. Fyrir honum snerist evran ekki um að breyta Evrópu í þróttmikla, samheldna efnahagslega heild. Hún snerist um Reagan og Thatcher.

„Ronald Reagan hefði ekki verið kjörinn forseti án áhrifa Mundells,“ skrifaði Jude Wanniski einu sinni í Wall Street Journal. Framboðs-hagfræðin, sem Mundell boðaði, varð að kennilegu skapalóni fyrir „reaganomics“ – eða, eins og George Bush eldri kallaði það, „vúdú-hagfræði“: trúin á þær töfralækningar frjáls markaðar, sem einnig veitti frú Thatcher innblástur.

Mundell útskýrði fyrir mér að í raun væri evran af sama toga spunnin og reaganomics: „Agi í peningamálum agar stjórnmálamenn líka í ríkisfjármálum.“

Og þegar koma kreppur, geta efnahagslega afvopnaðar þjóðir fátt gert annað en að sópa burt regluverki stjórnvalda og einkavæða ríkisfyrirtæki í stórum stíl, lækka skatta og horfa á evtir evrópska velferðarríkinu ofan í niðurfallið.

Þannig að við sjáum að forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti (sem enginn kaus), krefst „umbóta“ í vinnulöggjöf, sem mundi auðvelda vinnuveitendum eins og Mundell að reka þessa toskönsku pípulagningamenn. Og forkólfur Seðlabanka Evrópu, Mario Draghi (sem enginn kaus), kallar á „skipulagsbreytingar“ – sem er veigrunarorð fyrir það að kremja verkafólk. Þeir vitna í þá þokukenndu kenningu um að ef laun lækka í hverju einasta landi, þá verði öll löndin samkeppnishæfari.

Monti og Draghi geta ekki útskýrt hvernig nokkurt land bætir samkeppnisstöðu sína með því að þau lækki öll launin. En þeir þurfa ekki að útskýra stefnuna sína; þeir láta markaðina bara vinna á skuldabréfum landanna. Þannig að myntbandalag er stéttastríð, háð með öðrum aðferðum.

Frá kreppunni í Evrópu og eldunum í Grikklandi stafar heitum bjarma þess, sem hugmyndafræðilegur konungur framboðs-hagfræðinganna, Joseph Schumpeter, kallaði „skapandi eyðileggingu“. Lærisveinn Schumpeters og trúvarnarmaður hins frjálsa markaður, Thomas Friedman, flaug til Aþenu og heimsótti „helgan dóm“, brunna bankabyggingu, þar sem þrjár manneskjur biðu bana þegar anarkistar úr röðum mótmælenda köstuðu eldsprengju. Þar notaði hann tækifæri til að messa um hnattvæðingu og „ábyrgðarleysi“ Grikkja.

Eldtungurnar, fjöldaatvinnuleysið, brunaútsalan á opinberum eignum, mundu marka „endurfæðingu“ Grikklands og, á endanum, alls evrusvæðisins. Þannig að Mundell og aðrir sem eiga sín eigin setur geti sett klósettin sín hvar í fjandanum sem þeim sýnist.

Evran, barnið hans Mundells, hefur alls ekki brugðist, heldur hefur náð árangri langt umfram villtustu drauma föður síns.
– — – –
Þessi grein birtist fyrst í bandarísku útgáfu Guardian þann 26. júní 2012. Þessi íslenska þýðing Vésteins Valgarðssonar birtist fyrst á vefritinu Egginni þann 12. október sama ár.

þriðjudagur, 16. apríl 2013

Náttúruverndarsamtök spyrja framboð

Á YouTube-rásinni xUmhverfisvernd eru birt svör frambjóðenda við ýmsum spurningum náttúruverndarsamtaka. Þar talar Vésteinn Valgarðsson fyrir hönd Alþýðufylkingarinnar.

Fundur um lífeyrismál í kvöld

Í kvöld (þriðjukvöld 16. apríl) kl. 20:00, heldur Alþýðufylkingin fund um málefni lífeyrisþega í kosningamiðstöð sinni að Hverfisgötu 82. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur framsögu og verða umræður á eftir.
Allir velkomnir.

Svör við spurningum NPA-miðstöðvarinnar

NPA-miðstöðin sendi Alþýðufylkingunni nokkrar spurningar, sem við höfum svarað og hafa birst á heimasíðu samtakanna: Lesið þau.

Félagsvæðing fjármálastarfseminnar

Framsaga Þorvalds Þorvaldssonar


Ég ætla að nota tíma minn hér í upphafi til að rökstyðja nauðsyn þess að fjármálakerfið allt verði ekki aðeins þjóðnýtt heldur félagsvætt, þannig að eðli þess og tilgangur verði stokkað upp. Eigin hagnaður verði ekki markmið fjármálafyrirtækja, heldur verði þau hluti af félagslegri þjónustu við almenning og fyrirtæki þar sem allir sitja við sama borð á málefnalegum forsendum. Meginreglan verði sú að enginn geti grætt á því bara að eiga peninga án þess að nein verðmætasköpun eigi sér stað.
Við stöndum frammi fyrir aðstæðum þar sem allt efnahagskerfið og þar með allt samfélagið er ofurselt fámennum fjármálaklíkum og braski þeirra sem skapa engin verðmæti en soga til sín öll verðmæti, ekki bara jafnóðum og þau eru sköpuð, heldur langt inn í framtíðina með yfirráðum yfir auðlindum, með skuldsetningu almennings og ríkisins, og margvíslegum öðrum fjármálagjörningum. Undanfarin misseri hefur umræðan um þjóðfélagsmál verið gróflega afvegaleidd með því að kreppan hefur verið gerð að einhvers konar siðferðislegu áfalli og reynt að finna sökudólga og sérstaklega reynt að troða samviskubiti upp á þjóðina vegna þess að hún hafi tapað sér í neyslu í stað þess að spara. Minna er fjallað um að lítill minnihluti standi fyrir stórum hluta neyslunnar og sölsi undir sig meirihluta af eignum samfélagsins. Aukin markaðsvæðing á flestum sviðum samfélagsins hefur stóraukið ójöfnuð en það hefur jafnan verið túlkað sem ill nauðsyn til að tryggja aukna verðmætasköpun sem allir hagnist eitthvað á. Opinber umfjöllun um fjármálakerfið á Íslandi hefur að miklu leyti byggst á þeirri hugmynd að verðmæti skapist úr engu í viðskiptum. Að gróðinn sé mælikvarði á verðmætasköpun. Reyndin er hins vegar sú að gróðinn er á kostnað samfélagsins. Það á sérstaklega við um gróðann í fjármálageiranum sem á ekki afturkvæmt inn í neins konar verðmætasköpun en er þvert á móti notaður til að skuldsetja verðmætaskapandi starfsemi og soga til sín hagnaðinn af henni.
Hinn kapítalíski markaður mótar allt samfélagið og hann sveiflast eftir sínum eigin lögmálum. Kapítalistinn selur sínar afurðir með hagnaði sem hann notar til að fjárfesta til að auka framleiðsluna og gróðann til að fjárfesta enn frekar, þangað til afurðirnar hætta að seljast. Annars vegar vegna þess að þörfin fyrir þær er mettuð og þó oftast enn frekar vegna skorts á kaupgetu fólksins. Enda, þegar horft er á þversnið samfélagsins, er gróðinn um það bil mismunurinn á þeim verðmætum sem vinnandi fólk skapar og því sem það fær greitt fyrir. Þannig verður kaupgeta almennings minni en sem nemur framleiðslunni og offramleiðsla hleðst upp. Og jafnframt kallar aukinn gróði á aukna fjárfestingu og veltu sem er langt umfram aukningu fólksfjölda. Þannig urðu offramleiðslukreppur framan af skeiði kapítalismans oft bundnar við svæði eða atvinnugrein, og leystust gjarnan með auknum landvinningum og nýjum mörkuðum. Þar kom uppskipting nýlendna milli nokkurra iðnríkja mjög við sögu.
Seint á 19. öld kom heimsvaldastefnan til sögunnar. Þó að orðið imperíalismi hafi verið þýtt á íslensku sem heimsvaldastefna er fyrirbærið ekki eingöngu stefna heldur sögulegt skeið, síðasta skeið kapítalismans. Það einkennist m.a. af samþjöppun auðmagns og einokun. Samruna framleiðslu-, verslunar- og bankaauðmagns. Uppskiptingu heimsins milli nýlenduvelda er að mestu leyti lokið og breytt valdahlutföll kalla því á endurskiptingu og stríð. Í ljósi þessa breyttust kreppur kapítalismans. Þær urðu alþjóðlegar, dýpri og langvinnari. Átökin um afleiðingar kreppunnar hafa að sama skapi orðiði umfangsmeiri og stórtækari og kostað heimsstyrjaldir og fjölda staðbundinna syrjalda. Næstu heimskreppu á undan þeirri sem núna herjar, lauk með heimsstyrjöld árið 1945. Þá tók við 30 ára tímabil sem nefnt hefur verið gullöld kapítalismans. Það er lengsta samfellda velgengnitímabil í sögu kapítalismans. Fyrir því eru tvær forsendur helstar. Í lok stríðsins var Evrópa og fleiri heimshlutar í rúst. Gríðarleg þörf var fyrir uppbyggingu á mannvirkjum, framleiðslutækjum, innviðum samfélaganna og á sama tíma kom til sögunnar ýmis ný neysluvara og þjónusta. Í öðru lagi hafði auðvaldskerfið gengið fram af almenningi víða um heim með hörmungum stríðsins og mörg lönd voru á barmi byltingar. Til að koma í veg fyrir byltingu fólksins var víðast hvar slakað nokkuð til gagnvart kröfum þess. Þannig kom til aukin velferð á sviði heilbrigðisþjónustu, menntunar og á fleiri sviðum. Til að standa undir henni var komið á fót ríkisrekstri í nokkrum framleiðslugreinum. Allt varð þetta til að lengja tíma stöðugleikans. En allt tekur enda. Það óhjákvæmilega gerðist, gróðahlutfallið fór að falla og hagvöxtur dróst saman. Verulega fór að sneyðast um arðvænlega fjárfestingakosti. En fjármagnið hlóðst upp og öskraði á fjárfestingar. Nú voru góð ráð dýr. Fé án hirðis þótti ekki góður kostur og því var reynt að fjárfesta í ýmsu öðru en framleiðslu á vörum og þjónustu. Einhverju sem lét efnahagsreikninga vaxa. Hinar nýju fjárfestingar fólust að miklu leyti í auðlindum og einkavæðingu þeirra. Einkavæðingu á opinberum framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum. Einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, menntun og umönnun. Skuldsetningu almennings. Lífeyri og loks væntingum um verðhækkanir á ýmsum bréfavafningum. Þessi þróun byrjaði í Bandaríkjunum og víða í Evrópu á áttunda áratugnum, en á Íslandi fór hún lítið af stað fyrr en á níunda áratugnum og fór svo á flug á þeim tíunda. Þessar breytingar, sem oft eru nefndar fjármálavæðing, hafa falið í sér geysilegan vöxt fjármálakerfisins. Þær orsökuðust ekki af valdatöku Reagans eða Thatcher. Ekki einu sinni Davíðs Oddssonar. Orsakasamhengið er frekar á hinn veginn. Fjármálavæðingin orsakast af hratt vaxandi fjármagni sem ekki fær pláss í verðmætaskapandi framleiðslu eða þjónustu. Spákaupmennska verður umfangsmikil og fjármálakerfið vex raunhagkerfinu yfir höfuð. Í Bandaríkjunum komu 17% gróðans úr fjármálakerfinu árið 1980. Árið 2005 hafði þetta hlutfall vaxið upp í 38%.
Fjármálakerfið er nú orðið ein stór ryksuga sem sogar til sín öll verðmæti í hagkerfinu gegnum vaxtaokur og eigin fjárfestingar. Til að þetta kerfi geti haldist uppi er reynt að skapa því efnislegan bakhjarl, t.d. með aukinni orkuvinnslu sem lítið fæst fyrir og aukinni framleiðslu á áli, þó það sé þegar offramleitt. Á rúmum áratug hefur raforkuframleiðsla hér á landi tvöfaldast og áform eru uppi um að tvöfalda hana aftur fyrir 2024. Þá verður framleiðslan komin upp í um 35 terawattstundir á ári eða um 4500 megawött í afli. Þetta er um það bil öll sú orka sem talin er virkjanleg með góðu móti á landinu. Þannig er náttúru og auðlindum þjóðarinnar sóað til að halda uppi spilavíti fjármálaauðvaldsins, óþolandi ójöfnuði og ósjálfbæru hagkerfi. Þetta er ekki mjög flókið reiknisdæmi. Til að standa undir 5% vöxtum þarf að minnsta kosti 5% framleiðsluaukningu. Það þýðir tvöföldun á um 14 árum. En fólksfjöldinn tvöfladast kannski á 70 til 100 árum. Jafnvel meira núorðið. Hvernig á þá að ráðstafa þessari aukningu? Þarf endalaust að auka neysluna?
En hvað er þá til ráða? Er hægt að hafa taumahald á fjármálakerfi sem drifið er áfram af gróðasókn eigendanna? Því er stundum kastað fram, að mikilvægt sé að bæta regluverkið. En hvernig á regluverk fjármálakerfisins að vera? Sýnir ekki reynslan að regluverkið stjórnast mest af þörfum auðstéttarinnar á hverjum tíma, nema gripið sé inn í með afgerandi hætti? Auðstéttin getur ráðið miklu um flæði fjármagns um hagkerfið og haft með því áhrif á lífskjör fólksins. Þannig getur auðstéttin náð fram vilja sínum meðan hún hefur rétt til að reka fjármálastarfsemi í hagnaðarskyni. Liggur þá ekki nokkuð beint við að einfalda regluverkið þannig að starfsleyfi fjármálafyrirtækja verði afturkölluð og þegar verði hafist handa um að endurskipuleggja þau undir opinberri forsjá, með ný markmið svo sem fyrr er getið? Hvaða markmið geta það svosem verið? Fyrst má nefna að með því að afleggja vexti, eða því sem næst, fær almenningur strax hag af breytingunni með ódýrara húsnæði og lægra vöruverði ef því er fylgt eftir að það skili sér þangað. Þar með getur fólk hætt að vinna eins mikið og getur notað meiri tíma í að sinna uppbyggilegum hugðarefnum. Minni þrýstingur verður á að auka framleiðsluna stöðugt og þar með ágang á náttúruna. Við verðum að skoða atvinnuleysisvandann í nýju ljósi. Líta á hann fyrst og fremst sem framfærsluvanda. Samfélagið verður að hætta að ofsækja atvinnulausa og beygja þá í duftið. Með örugga framfærslu finna flestir sér skapandi verkefni. Það er út í hött að í ofgnóttarsamfélagi nútímans sé litið á það sem nauðsyn að allir vinni jafn mikið og fyrir meira en 100 árum til að brauðfæða samfélagið.
Ég hygg að við séum að nálgast viss skil í mannkynssögunni. Vistkerfið þolir ekki aukna áníðslu og er þegar á undanhaldi víða. Ný stórstyrjöld kann að vera á næsta leiti. Það er ekkert sem bendir til þess að auðvaldið finni aðra leið út úr þessari kreppu en þeirri síðustu. Þá kemur til kasta fólksins að finna sína leið. Leið félagsvæðingar. Það er ekki nóg að stöðva frekari einkavæðingu og láta þar við sitja. Það verður að snúa henni við og vinda ofan af fyrri gjörningum. Það er ekki nóg að hafa góða framtíðarsýn í afmörkuðu hólfi, en leita svo í allt annað hólf eftir baráttumálum og lausnum á verkefnum dagsins. Þetta verður að vera samtvinnað. Stjórnmálaafl sem tekur sjálft sig alvarlega verður að gera það upp við sig hvort það ætlar að þjóna fjármálaauðvaldinu eða berjast gegn því, og þá fyrir nýrri samfélagsgerð. Þjóðnýting fjármálakerfisins er lykilskref í baráttunni gegn auðvaldinu í dag og ef vel tekst til getur sú barátta sparað samfélaginu mikinn sárauka á næstu áratugum. Ágætu félagar. Ég hef vísvitandi sniðgengið umfjöllun um lífeyriskerfið í þessu erindi. Þó að sú markaðsvæðing lífeyrisréttindanna sem felst í núverandi sjóðssöfnunarkerfi kalli á drjúgan hluta þeirrar offjárfestingar sem sligar samfélagið, þá held ég að þetta sé efni í annan fund þar sem fleiri hliðar málsins koma við sögu. Því ætla ég ekki að fjalla meir um það hér í inngangi en gæti komið inn á það í umræðum.
Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður er formaður Alþýðufylkingarinnar og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra.
Þessi framsaga var upphaflega flutt á málfundi VG um fjármálastarfsemi snemma vors 2012 og hefur áður birst á vefritinu Eggin.is þann 12. mars 2012 og hjá Alþýðufylkingunni þann 11. febrúar 2013.

mánudagur, 15. apríl 2013

Annað kvöld: málefni lífeyrisþega

Annað kvöld, þriðjukvöldið 16. apríl kl. 20:00, verður fundur um málefni lífeyrisþega í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar að Hverfisgötu 82 í Reykjavík. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur framsögu og verða umræður á eftir.
Allir velkomnir.

Varnarlínur vegna ESB-viðræðna

Á 43. þingi BSRB, sem haldið var síðasta haust, lagði ég því fram ályktunartillögu um „varnarlínur“ fyrir BSRB vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB. Fyrirmyndin kemur frá Bændasamtökum Íslands. Það hefur verið útbreidd skoðun að BSRB og aðildarfélög þess eigi ekki að taka afstöðu til aðildar Íslands að ESB. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, mælti sjálf gegn tillögunni, sem hún kallaði „dulbúna ESB-ályktun“, og hvatti til áframhaldandi hlutleysis BSRB gagnvart ESB-aðild. Tillögunni var vísað frá, nánast einróma. Afstaðan í tillögu minni átti reyndar alls ekki að vera dulin. Hún samanstendur af atriðum sem ESB-aðild mundi ógna og við eigum að standa vörð um, bæði sem málsvarar vinnandi fólks og sem Íslendingar. Við eigum auðvitað að beita okkur gegn aðild ef hún stríðir gegn hagsmunum okkar, og ég tel að stéttarsamtök alþýðunnar eigi tvímælalaust að taka afstöðu, sérílagi þar sem málið varðar stöðu stéttarsamtakanna sjálfra.

Dæmi: Íslenskum stéttarfélögum þarf að vera tryggður samningsréttur fyrir íslenskan vinnumarkað, til að sporna gegn félagslegum undirboðum. Það er sjálfur grundvöllurinn sem félögin eru byggð á. Ef við verjum ekki samningsréttinn okkar verða íslenskir kjarasamningar marklitlir, stórfyrirtæki flytja inn undirborgaða menn frá verkamannaleigum í fátækum löndum og laun í landinu lækka. Það er gott fyrir auðvaldið en vont fyrir okkur hin.

Í annan stað þarf íslenska ríkið að ráða sjálft hvaða rekstur það stundar og hvernig. Aftur stendur það beint upp á okkur, sem málsvara opinberra starfsmanna, að hindra að vinnustaðirnir okkar séu einkavæddir eða lagðir niður með tilskipunum frá ESB.

Þessir tveir fyrstu punktar snúast um sjálfan tilgang stéttarfélaga opinberra starfsmanna.

Við þurfum sjálf að geta sett reglur um umsvif innlendra og erlendra fjármálaafla, m.a. hvort og með hvaða skilyrðum erlent fjármagn fær að sjúga arð út úr hagkerfinu. Það væri súrt í brotið ef við vildum bæta fjármálakerfið hér með félagslegum lausnum og það strandaði á reglum frá ESB.

Við eigum að hafa peningastefnu sem hentar okkur, og þar virðist evran ekki fýsilegur kostur vegna þess að Ísland hefur ekki sömu hagsveiflu og ESB, eins og Seðlabankinn hefur bent á og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman líka. Ríki þurfa tæki til að bregðast við hagsveiflum og þegar gengisfelling er útilokuð, eru engin hagvaxtarlyf eftir nema að lækka skatta á fyrirtæki og fækka reglum um þau, m.ö.o. að skerða kaup og réttindi vinnandi fólks. Beiskur bikar gengisfallsins bjargaði því sem bjargað varð í Hruninu. Hinn kosturinn hefði verið gríðarlegt atvinnuleysi, sem er varla hægt að hugsa til enda. Að auki er eigin lánveitandi til þrautavara öryggistæki sem bætir lánshæfismat ríkja, og lækkar þar með vexti af erlendum bankalánum.

Ísland þarf sjálft að ráða sínum ríkisfjármálum. Frændur okkar Írar, Spánverjar og Grikkir eru nú með sín ríkisfjármál í þumalskrúfum ESB. Ef ríki er pínt til að minnka útgjöldin í kreppu, harðnar kreppan því minni peningar fara út í hagkerfið.

Við þurfum sjálf að ráða okkar eigin skatta- og tollamálum. Við þurfum að ráða því hvort við höfum skattþrep eða ekki, hvernig virðisaukaskattur er reiknaður, hvort við viljum vernda einhverjar atvinnugreinar með tollum o.s.frv. Til þess að við getum mótað samfélagið eins og við viljum hafa það, þurfum við að hafa þessi verkfæri í okkar höndum.

Þessi listi er auðvitað hvergi nærri tæmandi.

„Pakkinn“ sem okkur býðst er einfaldlega allur pakkinn. Aðalatriðin liggja þegar fyrir og það eru ekki veittar stórar, varanlegar undanþágur. Það er því ekkert að „kíkja í“ – og raunveruleg áhrif sjáum við auk þess ekki nema eftir margra ára aðild, eins og Írar og Grikkir hafa gert. Þá er erfiðara úr að fara en í að komast.

Um leið og „varnarlínur“ skilgreina lágmarkskröfur fyrir viðræðurnar, skýra þær og undirstrika heilan lista af ástæðum til þess að forðast aðild og hætta aðlögun – auk þess jafnvel að yfirgefa EES-samninginn líka, til að geta endurheimt sumt sem við höfum þegar tapað. Enginn er betur til þess fallinn en við, að taka ákvarðanir um okkar hag. Afstöðuleysi er óábyrgt, því málið kemur okkur við og þess vegna eigum við að taka afstöðu: ESB, nei takk.

Vésteinn Valgarðsson

Þessi grein birtist upphaflega í janúartölublaði Blaðs stéttarfélaganna og hefur einnig birst á vefritinu Egginni. Þessi útgáfa er örlítið breytt.

sunnudagur, 14. apríl 2013

Okkur vantar undirskriftir -- í dag

Alþýðufylkingin fékk þær fréttir í gær að nokkur fjöldi undirskrifta meðmælenda með framboðinu hefði verið ógildur, og því vantar okkur nokkurn fjölda nýrra undirskrifta, en að vísu bara í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ef einhverjir velunnarar eru á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður (sunnar Hringbrautar, Miklubrautar og Vesturlandsvegar) og ekki búnir að skrifa undir meðmæli með neinu framboði, þá biðjum við þá að koma við í kosningamiðstöðinni í dag -- Hverfisgötu 82 -- og skrifa undir meðmæli með framboðinu. Það verður heitt á könnunni. Sjáumst!

föstudagur, 12. apríl 2013

Listar Alþýðufylkingarinnar fyrir Alþingiskosningar 27. apríl 2013

R – listi Alþýðufylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður

1. Þorvaldur Þorvaldsson 55 ára Trésmiður Reykjavík
2. Sólveig Hauksdóttir 69 ára Hjúkrunarfræðingur Reykjavík
3. Sigríður Kristín Kristjánsdóttir 19 ára Nemi Reykjavík
4. Óskar Höskuldsson 19 ára Nemi Reykjavík
5. Guðmundur Ingi Kristinsson 57 ára Formaður Bótar Hafnarfirði
6. Ásgeir Rúnar Helgason 55 ára Dósent í sálfræði Svíþjóð
7. Tryggvi Helmutsson 19 ára Nemi Reykjavík
8. Elín Helgadóttir 51 árs Sjúkraliði Mosfellsbæ
9. Kristófer Kvaran 26 ára Leikskólastarfsmaður Reykjavík
10. Stefán Ingvar Vigfússon 19 ára Nemi Reykjavík
11. Sóley Þorvaldsdóttir 26 ára Sushikokkur Reykjavík
12. Kristján Helgi Hjartarson 22 ára Nemi Hornafirði
13. Guðbjörg Ása Jónsdóttir Huldudóttir 31 árs Leikkona/kennari Reykjavík
14. Gunnjón Gestsson 22 ára Skáld Hafnarfirði
15. Þórarinn Hjartarson 62 ára Stálsmiður Akureyri
16. Sara Bjargardóttir 33 ára Nemi Mosfellsbæ
17. Gyða Jónsdóttir 53 ára Hjúkrunarfræðingur Reykjavík
18. Árni Bragason 61 árs Verkamaður Akranesi
19. Sif Yraola 25 ára Nemi Reykjavík
20. Árni Daníel Júlíusson 53 ára Sagnfræðingur Reykjavík
21. Andri Rafn Þorgrímsson 29 ára Nemi Reykjavík
22. Jón Fanndal Þórðarson 80 ára Garðyrkjufræðingur Reykjavík

R – listi Alþýðufylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður

1. Vésteinn Valgarðsson 32 ára Stuðningsfulltrúi Reykjavík
2. Helga Arnardóttir 32 ára Stuðningsfulltrúi Reykjavík
3. Kristján Jónasson 54 ára Stærðfræðingur Reykjavík
4. Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir 28 ára Leikkona Reykjavík
5. Einar Andrésson 23 ára Nemi Hornafirði
6. Vigdís Freyja Helmutsdóttir 18 ára Nemi Reykjavík
7. Björgvin Rúnar Leifsson 57 ára Kennari Húsavík
8. Reynir Snær Valdimarsson 20 ára Nemi Reykjavík
9. Björg Kjartansdóttir 62 ára Sjúkraliði Reykjavík
10. Bjartmar St. Steinarsson 29 ára Stuðningsfulltrúi Reykjavík
11. Tómas Halldórsson 22 ára Leiðbeinandi Reykjavík
12. Þórarinn S. Andrésson 44 ára Safnvörður Seyðisfirði
13. Jóhannes Ragnarsson 58 ára Hafrannsóknarmaður Ólafsvík
14. Unnur María Bergsveinsdóttir 35 ára Sagnfræðingur Reykjavík
15. Ólafur Tumi Sigurðarson 21 árs Nemi Reykjavík
16. Kári Þorgrímsson 53 ára Bóndi Mývatnssveit
17. Anna Hrefnudóttir 56 ára Myndlistarkona Stöðvarfirði
18. Ari Tryggvason 58 ára Stuðningsfulltrúi Álftanesi
19. Jón Karl Stefánsson 35 ára Veitingamaður Noregi
20. Viktor Penalver 21 árs Atvinnulaus Hafnarfirði
21. Ólína Jónsdóttir 82 ára Kennari Akranesi
22. Örn Ólafsson 72 ára Bókmenntafræðingur Danmörku

fimmtudagur, 11. apríl 2013

Félagsvæðing leysir verðtrygginguna

Verðtrygging væri ekki vandamál ef það væru ekki vextir og verðbólga. Vaxta- eða gróðakrafa kapítalísks fjármálakerfis er aðalástæðan fyrir verðbólgunni. Alþýðufylkingin vill félagsvæða fjármálakerfið, reka það sem opinbera þjónustu við fólk og fyrirtæki, sem er ekki rekin í gróðaskyni heldur beinlínis með það markmið að veita hagstæða fjármálaþjónustu. Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, hélt erindi sem tekur vel á þessu: Félagsvæðing fjármálastarfseminnar. Um félagsvæðingu almennt segir í stefnuskránni okkar:
Alþýðufylkingin berst fyrir jöfnuði. Til þess er nauðsynleg umfangsmikil félagsvæðing í hagkerfinu. Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður: Hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu.
Auk þess:
Lykilatriði er að öll fjármálastarfsemi verði félagslega rekin svo hún hætti að soga til sín stóran hluta verðmæta úr hagkerfinu til ágóða fyrir fámennan minnihluta. Þannig skapast mikið svigrúm til að reisa myndarlega velferðarkerfið við og styrkja alla innviði samfélagsins. Einnig skapast með því færi á að verðmætin skili sér til þeirra sem skapa þau með vinnu sinni, og þannig til samfélagsins. Með því að létta vaxtaklafa af vöruverði og húsnæðisskuldum almennings má bæta lífskjörin og stytta vinnutíma.
Lesið nánar um þetta og fleira í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar.

Auðvaldið hefur aldrei og mun aldrei stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum. Óstöðugleiki er innbyggður í það. Það er hannað til þess að safna saman auði, og þegar gróðinn minnkar verður kreppa. Ef fólk vill út úr kreppunni, og út úr óstöðugleikanum, þarf að minnka vægi auðvaldsins. Þá er hægt af alvöru að minnka vægi verðtryggingarinnar, og svo afnema hana þegar vægi hennar hefur minnkað. Ég er hlynntur aðhaldi — í efnahagsmálum almennt, í þeim skilningi að ég vil spara samfélaginu hinn ofboðslega kostnað af gróðadrifnu fjármálakerfi. Það hlýtur, fjandakornið, að vera hægt að eignast heimili án þess að þurfa að borga þrefalt verð. Krónuna ber að sama brunni; vandi íslensku krónunnar er að fjármálakerfið stelur annarri hverri krónu af okkur.
Það er augljóst að hér í landinu þarf að vera skýr stefna í efnahagsmálum. Samfylkingin hefur það forskot á aðra flokka, að hafa nokkuð skýra stefnu, sem snýst að miklu leyti um aðild að Evrópusambandinu, með öllu sem því tilheyrir. Ég er ósammála þeirri stefnu, en ég veit ekki til að neinn annar af gömlu flokkunum hafi skýra, alvöru efnahagsstefnu. En einn af nýju flokkunum hefur hana: Alþýðufylkingin. Lesið stefnuskrána okkar (óttist ekki, hún er stutt), þar kemur fram skýr og skorinorð stefna: Félagsvæðing, í einu orði sagt. Hún felur í sér að við þurfum að verja fullveldið af mikilli festu, efla innviði samfélagsins og lýðræðið (meðal annars efnahagslegt lýðræði) og setja fjármálaöflum miklar skorður.

 Vésteinn Valgarðsson

(Þetta er stytt útgáfa af greininni Lausn fundin á verðtryggingunni: Félagsvæðing, sem birtist á vefritinu Egginni 26. febrúar síðastliðinni.)

miðvikudagur, 10. apríl 2013

Ljóðakvöld í kvöld


í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar, Hverfisgötu 82 (þar sem Lucky Records voru) -- miðvikudaginn 10. apríl kl. 20

Fram koma: 
Birgir Svan Símonarson
Bergþóra Einarsdóttir
Björk Þorgrímsdóttir
Kristian Guttesen
Þórdís Björnsdóttir


Allir velkomnir, heitt á könnunni, opinn söfnunarbaukur og góður félagsskapur!

þriðjudagur, 9. apríl 2013

Fundur í kvöld -- góður mórall

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður, heldur framsögu um félagsvæðingu í kvöld, þriðjukvöldið 9. apríl kl. 20:00, í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar að Hverfisgötu 82: Hvað er félagsvæðing? Út á hvað gengur hún? Af hverju er hún lykillinn að farsælli efnahagsstefnu fyrir Ísland? Hver græðir á henni og hver tapar á henni? Þessum spurningum og fleirum verður svarað í framsögunni. Einnig má benda fólki á að lesa Félagsvæðingu fjármálastarfseminnar
-- -- -- --
Nú er Alþýðufylkingin á lokametrunum að ganga frá framboði í báðum Reykjavíkurkjördæmunum, og það er ekkert plat að við erum bjartsýn og brött. Eins Þorvaldur sagði í Sjónvarpinu í fyrradag, þá erum við komin til að vera, hvað svo sem kemur út úr þessum kosningum. Okkur miðar nú þegar vel við að byggja upp hreyfingu sem hefur metnaðarfyllra markmið en að verða enn einn krataflokkurinn. Þegar framboðið er komið í höfn getum við auk þess snúið okkur í meiri mæli að því að kynna okkur og stefnuskrána okkar, sem við höfum tröllatrú á. Þannig að mórallinn er góður og við teljum okkur eiga möguleika á að bæta verulega miklu fylgi við okkur.

mánudagur, 8. apríl 2013

Dagskrá vikunnar í kosningamiðstöðinni

Það er margt á döfinni í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar þessa dagana:

Mánudagur 8. apríl: Opið hús frá kl. 15-18.

Þriðjudagur 9. apríl: Opið hús frá kl. 15-18. Félagsfundur kl. 20. Framsaga Þorvalds Þorvaldssonar: "Hvað er þessi félagsvæðing sem allir eru að tala um?" og umræður um baráttuna -- nýir félagar velkomnir.

Miðvikudagur 10. apríl: Opið hús frá kl. 15-18. Ljóða- og vísnakvöld kl. 20. Fram koma: Birgir Svan Símonarson, Bergþóra Einarsdóttir, Björk Þorgrímsdóttir, Kristian Guttesen og Þórdís Björnsdóttir.

Fimmtudagur 11. apríl: Opið hús frá kl. 15-18.

Föstudagur 12. apríl: Opið hús frá kl. 15-18.

Laugardagur 13. apríl: Skemmtikvöld. Dagskrá auglýst síðar.

Ljóða- og vísnakvöld #4 á miðvikukvöld


í kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar, Hverfisgötu 82 (þar sem Lucky Records voru) -- miðvikudaginn 10. apríl kl. 20

Fram koma: 
Birgir Svan Símonarson
Bergþóra Einarsdóttir
Björk Þorgrímsdóttir
Kristian Guttesen
Þórdís Björnsdóttir


Allir velkomnir, heitt á könnunni, opinn söfnunarbaukur og góður félagsskapur!

fimmtudagur, 4. apríl 2013

Ljóðakvöld #4

Fjórða ljóðakvöld Alþýðufylkingarinnar verður haldið miðvikukvöldið 10. apríl í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82. Það byrjar klukkan 20 og fram koma:

Birgir Svan Símonarson
Bergþóra Einarsdóttir
Björk Þorgrímsdóttir
Kristian Guttesen
Þórdís Björnsdóttir

Kosningamiðstöð Alþýðufylkingarinnar er opin alla virka daga milli kl. 15 og 18, þar er heitt á könnunni og glatt á hjalla.

miðvikudagur, 3. apríl 2013

Ljóðakvöld í kvöld


Alþýðufylkingin heldur sitt þriðja ljóðakvöld í kvöld, miðvikudagskvöldið 3. apríl, í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82 (þar sem Lucky Records voru áður til húsa). Fram koma:

Anna S. Björnsdóttir
Bára Huld Sigfúsdóttir
Valdimar Tómasson
Þór Stefánsson
Þórey Mjallhvít Heiðardóttir Ómarsdóttir

Kosningamiðstöðin er opin virka daga milli kl. 15 og 18, þar er heitt á könnunni og hægt að skrifa sig sem meðmælanda með framboðinu og leggja fram frjáls framlög í baráttusjóðinn. Sjáumst!

þriðjudagur, 2. apríl 2013

Í kvöld: Ólafur Dýrmundsson um landbúnaðarmál

Við minnum á að í kvöld, þriðjudagskvöld, kemur Ólafur Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap og landnýtingu, á fund um landbúnaðarmál með Alþýðufylkingunni. Fundurinn verður í kosningamiðstöðinni, Hverfisgötu 82, og byrjar kl. 20. Heitt á könnu og verið velkomin.

mánudagur, 1. apríl 2013

Ljóðakvöld #3 á miðvikukvöldið


Alþýðufylkingin heldur sitt þriðja ljóðakvöld á miðvikudagskvöldið, 3. apríl, í kosningamiðstöðinni að Hverfisgötu 82 (þar sem Lucky Records voru áður til húsa). Fram koma:

Anna S. Björnsdóttir
Bára Huld Sigfúsdóttir
Valdimar Tómasson
Þór Stefánsson
Þórey Mjallhvít Heiðardóttir Ómarsdóttir

Kosningamiðstöðin er annars opin virka daga milli kl. 15 og 18, þar er heitt á könnunni og hægt að skrifa sig sem meðmælanda með framboðinu og leggja fram frjáls framlög í baráttusjóðinn. Sjáumst!

Ólafur Dýrmundsson ræðir um landbúnaðarmál

Annað kvöld, þriðjudagskvöld, kemur Ólafur Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap og landnýtingu, á fund um landbúnaðarmál með Alþýðufylkingunni. Fundurinn verður í kosningamiðstöðinni, Hverfisgötu 82, og byrjar kl. 20. Heitt á könnu og verið velkomin.