föstudagur, 15. nóvember 2013

Lífeyrismálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Ályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013 um lífeyrismál

Lífeyriskerfið á Íslandi er tímasprengja. Frá árinu 1970 hefur því verið haldið fram að sjóðssöfnun og ávöxtun lífeyrissjóðanna sé haldreipi samfélagsins og trygging fyrir því að hægt verði að greiða lífeyri til aldraðra og öryrkja.

Kreppan hefur þó sýnt forsmekkinn af veruleikanum. Þó að iðgjöld hafi verið hækkuð er nú hvatt til frekari hækkana, jafnvel í allt að 20% af launum til að standa undir lífeyrisskuldbindingum. Það mun þó heldur ekki duga því að drjúgur hluti fjárins mun óhjákvæmilega halda áfram að glatast með töpuðum fjárfestingum í kreppunni, enda eru þeir notaðir sem ruslafata fyrir ónýt verðbréf þegar þörf krefur. Öruggustu fjárfestingar lífeyrissjóðanna felast í því að féfletta sjóðfélagana sjálfa gegnum okur á húsnæðislánum og spyrja má hvort það sé ekki dýrkeyptur lífeyrir. En gróðinn af vaxtaokrinu á sjóðfélögunum fer að miklu leyti í súginn í spákaupmennsku á fjármálamörkuðum, enda eru fjárfestingatækifæri í verðmætaskapandi starfsemi aðeins brot af því sem lífeyrissjóðirnir þurfa. Til að fjárfestingar sjóðanna í atvinnufyrirtækjum skili nægilegri ávöxtun til að standa undir lífeyri er nærtækt ráð að lækka laun. Þannig sitja „verkalýðsforingjarnir“ báðu megin við borðið og meta yfirleitt hagsmuni lífeyrissjóðanna meira en kjarabætur.

Nú þegar nálgast að lífeyrissjóðirnir hafi starfað sem nemur einni starfsævi og eigi því að hafa náð fullum styrk koma veikleikar þeirra í ljós með skerðingu lífeyris sem aðeins mun aukast, sérstaklega hjá láglaunafólki. Lífeyrissjóðirnir hafa hins vegar alltaf aukið ójöfnuð, bæði með því að framlengja launaójöfnuð fram á grafarbakkann með ójöfnum greiðslum úr sjóðunum, og einnig með því að þeir sem fá háar greiðslur úr lífeyrissjóðum losna undan margvíslegum skerðingum sem greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru ofurseldar.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að komið verði á samræmdu félagslegu lífeyriskerfi sem tryggi öllum sömu upphæð til framfærslu sem þess þurfa með, hvort sem ástæðan er öldrun, örorka, veikindi, atvinnuleysi eða annað. Reynt verði að skapa öllum skilyrði til að virkja starfsfærni sína í þágu samfélagsins. Starfslok verði sveigjanleg og að nokkru háð vilja hvers og eins. Þessi stefna er nauðsynleg til að skapa jöfnuð og samstöðu í samfélaginu og vinda ofan af eyðileggjandi spákaupmennsku.