fimmtudagur, 14. nóvember 2013

Húsnæðismálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Ályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013 um húsnæðismál

Stæsti kostnaðarliður íslenskra alþýðuheimila er húsnæðiskostnaður. Þar hefur kreppan líka komið einna harðast niður á flestum. Stærsti hluti húsnæðiskostnaðar eru vextir. Það á jafnt við hvort sem folk býr í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði.

Undanfarna áratugi hefur hátt í 90% þjóðarinnar búið í eigin húsnæði, sem yfirleitt hefur verið ódýrara þrátt fyrir háan vaxtakostnað, en einnig vegna þess hve leigumarkaðurinn er ótryggur. Í upphafi kreppunnar tapaði stór hópur almennings aleigunni við hækkun á lánum og lækkun á húsnæðisverði. Þeir ríku og tekjuháu fengu háar upphæðir afskrifaðar af lánum, en þúsundir þeirra sem verst standa hafa verið hraktir út á leigumarkaðinn sem stígur lóðbeint upp í verði en fjárfestar safna fasteignum. Þannig eru sveiflur á fasteignamarkaði alltaf notaðar til að auka arðránið á alþýðunni.

Húsnæði er grunnþörf sem samfélagið verður að tryggja aðgang allra að án þess að það íþyngi fólki fjárhagslega. Eina leiðin til þess er að allir eigi rétt á félagslegri fjármögnun íbúðarhúsnæðis að vissu marki, fjármögnun sem væri fengin með samfélagslegu eigin fé. Það myndi spara mikið fé og gæti verið skref í átt að félagsvæðingu fjármálakerfisins.