mánudagur, 18. nóvember 2013

Heilbrigðismálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Ályktun um heilbrigðismál á landsfundi Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013

Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er krúnudjásn hvers siðmenntaðs þjóðfélags sem vill kenna sig við velferð.

Íslensk heilbrigðisþjónusta er nú að molna niður og borgaralegir stjórnmálaflokkar virðast ekki eiga aðrar lausnir fyrir hana heldur en að kenna hver öðrum um, þó þeir eigi allir sinn skerf af sökinni í gegn um margar undangengnar ríkisstjórnir í röð. Þótt kerfið þoli kannski aukið álag í einhverjar vikur eða mánuði, gerir það það ekki í mörg ár. Þegar svo er komið að álagið á kerfinu og þeim sem starfa við það er þegar búið að valda dauða fólks sem hefði mátt bjarga, þá er orðið of seint að afstýra slysi. Slysið er byrjað og það þarf að stöðva það áður en meira illt hlýst af.

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn í Friðarhúsi 8.-9. nóvember 2013, ályktar að það eigi tafarlaust að veita heilbrigðiskerfinu það fjármagn sem þarf til þess að endurreisa þjónustu sjúkrahúsa á landsbyggðinni, til að endurreisa þjónustu Landspítalans og til að endurreisa heilsugæsluna. Þar með talið er mikið fé sem vantar til tækjakaupa og til að hækka laun heilbrigðisstétta og ráða fleira fólk til að létta álagi af þeim sem fyrir eru.

Lykillinn að endurreisn heilbrigðiskerfisins er félagsvæðing. Annars vegar í heilbrigðiskerfinu sjálfu, hins vegar í hagkerfinu almennt. Í heilbrigðiskerfinu sjálfu þýðir félagsvæðing að öll heilbrigðisstarfsemi sé félagslega rekin, af hinu opinbera eða öðrum félagslegum öflum, svo fjármunir og mannafli nýtist betur, þannig að „hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu“, eins og segir í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar. Það þarf að ormahreinsa kerfið til að losa það við afætur sem fleyta rjómann: Hið opinbera þarf sjálft að veita kerfinu fjármálaþjónustu til að spara því vaxtakostnað. Kerfið þarf sjálft að eiga húsnæðið sem það starfar í, frekar en að leigja af einkafyrirtækjum. Félagslega reknar heilbrigðisstofnanir ættu sjálfar að taka sig saman um að flytja inn eða framleiða lyf og önnur hjúkrunargögn og miðla þeim. Aðkeyptri þjónustu ætti að halda í lágmarki og ekki úthýsa öðru en gróðasólgnum krumlum auðvaldsins.

Það borgaralega og andfélagslega viðhorf hefur um árabil ríkt á Íslandi að líta á almannaþjónustu, á borð við heilbrigðiskerfið, sem byrði á þjóðfélaginu, en ekki sem lífskjarabætandi og útgjaldasparandi mannréttindi. Það er byrði að lifa við slæma heilsu og fá ekki þau bjargráð sem þarf til að batna eða lifa með reisn. Það er byrði fyrir þjóðfélagið ef fjölda fólks er haldið í slæmri heilsu eða bágum kjörum vegna þess að ríkið vilji „spara“ eða þykist ekki „hafa efni á“ að reka almennilegt heilbrigðiskerfi.

Það eru gömul sannindi að betra er heilt en vel gróið. Þess vegna ber að leggja mikla áherslu á að byggja upp heilsugæsluna, þar sem fyrst er tekið á móti fólki sem þarf hjálp lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks, og bæta þarf lýðheilsu, forvarnir og aðrar fyrirbyggjandi ráðstafanir sem forða fólki frá veikindum. Þjónusta tannlækna og sálfræðinga ætti að vera félagsleg og gjaldfrjáls, eins og önnur heilbrigðisþjónusta.