miðvikudagur, 13. nóvember 2013

Almenn stjórnmálaályktun Alþýðufylkingarinnar

Stjórnmálaályktun landsfundar Alþýðufylkingarinnar 8.-9. nóvember 2013

Á meðan öll ráðandi öfl í samfélaginu láta í veðri vaka að kreppan sé liðin hjá heldur hún áfram að veikja hag þeirra fátæku. Kreppan er ekki liðin hjá og að öllum líkindum á hún eftir að dýpka talsvert.

Þessi kreppa er ekki bara efnahagskreppa, heldur er auðvaldskerfið í alhliða kreppu, sem er bæði efnahagsleg, pólitísk og siðferðisleg og leiðir af sér mestu vistkreppu sem mannkynið hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir.

Orsök þessa alls er arðránið sem efnahagskerfi kapítalismans byggist á. Vaxandi kapítal þarf á vaxandi fjárfestingartækifærum að halda og til að svo megi verða er slakað á kröfum í umhverfismálum, skorin niður velferðin og kjör almennings. Þetta höfum við séð undanfarin ár og það heldur áfram á meðan orsakir kreppunnar eru enn alls ráðandi. Samfylkingin og Vinstrigræn fengu sögulegt tækifæri á síðasta kjörtímabili, en notuðu það fyrst og fremst til að sanna auðvaldinu tryggð sína í verki með stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar, metniðurskurði í velferðarmálum og á margan annan hátt að velta afleiðingum kreppunnar yfir á alþýðuna.

Stærsta kosningaloforð núverandi ríkisstjórnar er dæmt til að verða svikið þar sem ekki stendur til að gera þær breytingar á fjármálakerfinu sem létt geta vaxtaokrinu af almenningi. Það mun valda miklum vonbrigðum eins og krataflokkarnir hafa þegar gert vegna síðustu ríkisstjórnar sem engu breytti. Framundan má því búast við pólitískri ólgu og upplausn, sem vakið getur upp hættu á fasisma og hvers konar ógn.

Eina leið samfélagsins út úr þeim kreppufarvegi sem það er í felst í stefnu Alþýðufylkingarinnar um aukið vægi hins félagslega í samfélaginu á kostnað markaðsstýringar og að efla hagsmunabaráttu alþýðunnar. Fyrir þeirri stefnu verður að nást breið samstaða meðal vinstra fólks og alls almennings. Til að ná málefnalegri samstöðu er heiðarleg umræða nauðsynleg, hvort sem hún nær til einstakra afmarkaðra mála eða almennrar stefnu. Það er á ábyrgð allra vinstri manna að leitast við að byggja upp slíka samstöðu. Alþýðufylkingin mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð.