mánudagur, 3. júní 2013

Ályktun miðstjórnar Alþýðufylkingarinnar 29. maí 2013

Nýliðin kosningabarátta hefur undirstrikað mikilvægi Alþýðufylkingarinnar.  Þó að kjörfylgið hafi verið með minna móti í þetta sinn þá náði málflutningur samtakanna til mikils fjölda og vakti athygli og hrifningu langt út fyrir þann hóp sem kaus þau núna.  Sérstaða Alþýðufylkingar felst í því að sýna fram á einu færu leiðina til að skapa aukinn jöfnuð og jafnvægi í samfélaginu. Með félagsvæðingu fjármálakerfisns og annarra innviða samfélagsins skapast möguleikar á að auka lífsgæði alls almennings mikið og koma í veg fyrir síendurteknar kreppur kapítalismans. Það er eina leiðin til að gangvirki samfélagsins fari að snúast um þarfir fólksins en ekki gróðatækifæri auðmanna.

Mikilvægt er að Alþýðufylkingin styrkist bæði inn á við og út á við og haldi áfram að byggja sig upp um allt land. Nú þegar krataflokkarnir hafa glatað öllum trúverðugleika með þjónkun við auðvaldið er ný hægristjórn tekin við. Líklegt er að margt færist í kunnuglegt horf frá því fyrir kreppu með tilraunum til að auka veltuna í hagkerfinu með miklum fjárfestingaáformum, náttúruspjöllum og einkavæðingu. Þannig geta auðmennirnir um skeið skarað eld að eigin köku og tekið mikinn gróða útúr samfélaginu en látið fólkið um að borga skuldirnar eins og dæmin sanna.  Að sama skapi er líklegt að styttra líði fram að næsta hruni en flesta grunar og þá verði skuldasúpan  erfiðari í maga en nokkru sinni fyrr. 


Þá skiptir öllu máli að til sé afl sem vísar leiðina að raunverulegum breytingum sem ekki ná aðeins til yfirborðsins. Það er Alþýðufylkingin.