föstudagur, 3. maí 2013

1. maí-ávarp Alþýðufylkingarinnar 2013Á 1. maí 2013 hvetur Alþýðufylkingin til breiðrar samstöðu um gerbreytta stefnu í íslenskum stjórnmálum þar sem  vægi hins félagslega verður aukið á kostnað markaðsvæðingar. Á meðan fjármálakerfi auðvaldsins sogar til sín öll verðmæti úr raunhagkerfinu er verkalýðsforystan upptekin af því að ávaxta lífeyrissjóðina með því að féfletta okkur sjóðfélagana. Það dugar þó ekki til að koma í veg fyrir að lífeyrir sé skertur og nánast skorinn niður við trog.

Það er allt á einn veg. Auðmenn raka saman gróða bæði í kreppu og góðæri en öllum byrðum er velt yfir á alþýðuna með kjaraskerðingum, lífeyrisskerðingum og skuldasúpu. Við verðum að snúa vörn í sókn og neita að taka á okkur byrðar kreppunnar. Við verðum að krefjast kjarabóta þó að bæði atvinnurekendur og verkalýðsforingjar haldi því fram að til þess þurfi auðmenn fyrst að græða meira. Það mun aldrei breytast. Með meiri jöfnuði og félagslegum lausnum geta allir lifað góðu lífi á Íslandi. Til að ná því fram er mikilvægt að félagsvæða fjármálakerfið og innviði samfélagsins.

Við hvetjum íslenska alþýðu til að ganga til liðs við Alþýðufylkinguna og taka þátt í baráttu fyrir nýju samfélagi þar sem jafnrétti, jöfnuður og umhverfisvernd verður í öndvegi. Við berjumst skilyrðislaust fyrir fullveldi þjóðarinnar og að hún beiti því til að skapa réttlátt samfélag. Ísland á einnig að beita sér í þágu friðar og réttlætis á alþjóðavettvangi.