mánudagur, 15. apríl 2013

Varnarlínur vegna ESB-viðræðna

Á 43. þingi BSRB, sem haldið var síðasta haust, lagði ég því fram ályktunartillögu um „varnarlínur“ fyrir BSRB vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB. Fyrirmyndin kemur frá Bændasamtökum Íslands. Það hefur verið útbreidd skoðun að BSRB og aðildarfélög þess eigi ekki að taka afstöðu til aðildar Íslands að ESB. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, mælti sjálf gegn tillögunni, sem hún kallaði „dulbúna ESB-ályktun“, og hvatti til áframhaldandi hlutleysis BSRB gagnvart ESB-aðild. Tillögunni var vísað frá, nánast einróma. Afstaðan í tillögu minni átti reyndar alls ekki að vera dulin. Hún samanstendur af atriðum sem ESB-aðild mundi ógna og við eigum að standa vörð um, bæði sem málsvarar vinnandi fólks og sem Íslendingar. Við eigum auðvitað að beita okkur gegn aðild ef hún stríðir gegn hagsmunum okkar, og ég tel að stéttarsamtök alþýðunnar eigi tvímælalaust að taka afstöðu, sérílagi þar sem málið varðar stöðu stéttarsamtakanna sjálfra.

Dæmi: Íslenskum stéttarfélögum þarf að vera tryggður samningsréttur fyrir íslenskan vinnumarkað, til að sporna gegn félagslegum undirboðum. Það er sjálfur grundvöllurinn sem félögin eru byggð á. Ef við verjum ekki samningsréttinn okkar verða íslenskir kjarasamningar marklitlir, stórfyrirtæki flytja inn undirborgaða menn frá verkamannaleigum í fátækum löndum og laun í landinu lækka. Það er gott fyrir auðvaldið en vont fyrir okkur hin.

Í annan stað þarf íslenska ríkið að ráða sjálft hvaða rekstur það stundar og hvernig. Aftur stendur það beint upp á okkur, sem málsvara opinberra starfsmanna, að hindra að vinnustaðirnir okkar séu einkavæddir eða lagðir niður með tilskipunum frá ESB.

Þessir tveir fyrstu punktar snúast um sjálfan tilgang stéttarfélaga opinberra starfsmanna.

Við þurfum sjálf að geta sett reglur um umsvif innlendra og erlendra fjármálaafla, m.a. hvort og með hvaða skilyrðum erlent fjármagn fær að sjúga arð út úr hagkerfinu. Það væri súrt í brotið ef við vildum bæta fjármálakerfið hér með félagslegum lausnum og það strandaði á reglum frá ESB.

Við eigum að hafa peningastefnu sem hentar okkur, og þar virðist evran ekki fýsilegur kostur vegna þess að Ísland hefur ekki sömu hagsveiflu og ESB, eins og Seðlabankinn hefur bent á og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman líka. Ríki þurfa tæki til að bregðast við hagsveiflum og þegar gengisfelling er útilokuð, eru engin hagvaxtarlyf eftir nema að lækka skatta á fyrirtæki og fækka reglum um þau, m.ö.o. að skerða kaup og réttindi vinnandi fólks. Beiskur bikar gengisfallsins bjargaði því sem bjargað varð í Hruninu. Hinn kosturinn hefði verið gríðarlegt atvinnuleysi, sem er varla hægt að hugsa til enda. Að auki er eigin lánveitandi til þrautavara öryggistæki sem bætir lánshæfismat ríkja, og lækkar þar með vexti af erlendum bankalánum.

Ísland þarf sjálft að ráða sínum ríkisfjármálum. Frændur okkar Írar, Spánverjar og Grikkir eru nú með sín ríkisfjármál í þumalskrúfum ESB. Ef ríki er pínt til að minnka útgjöldin í kreppu, harðnar kreppan því minni peningar fara út í hagkerfið.

Við þurfum sjálf að ráða okkar eigin skatta- og tollamálum. Við þurfum að ráða því hvort við höfum skattþrep eða ekki, hvernig virðisaukaskattur er reiknaður, hvort við viljum vernda einhverjar atvinnugreinar með tollum o.s.frv. Til þess að við getum mótað samfélagið eins og við viljum hafa það, þurfum við að hafa þessi verkfæri í okkar höndum.

Þessi listi er auðvitað hvergi nærri tæmandi.

„Pakkinn“ sem okkur býðst er einfaldlega allur pakkinn. Aðalatriðin liggja þegar fyrir og það eru ekki veittar stórar, varanlegar undanþágur. Það er því ekkert að „kíkja í“ – og raunveruleg áhrif sjáum við auk þess ekki nema eftir margra ára aðild, eins og Írar og Grikkir hafa gert. Þá er erfiðara úr að fara en í að komast.

Um leið og „varnarlínur“ skilgreina lágmarkskröfur fyrir viðræðurnar, skýra þær og undirstrika heilan lista af ástæðum til þess að forðast aðild og hætta aðlögun – auk þess jafnvel að yfirgefa EES-samninginn líka, til að geta endurheimt sumt sem við höfum þegar tapað. Enginn er betur til þess fallinn en við, að taka ákvarðanir um okkar hag. Afstöðuleysi er óábyrgt, því málið kemur okkur við og þess vegna eigum við að taka afstöðu: ESB, nei takk.

Vésteinn Valgarðsson

Þessi grein birtist upphaflega í janúartölublaði Blaðs stéttarfélaganna og hefur einnig birst á vefritinu Egginni. Þessi útgáfa er örlítið breytt.