miðvikudagur, 24. apríl 2013

Svör við spurningum Læknafélags Íslands

Læknafélag Íslands sendi spurningar á öll framboð fyrir nokkru síðan. Við birtum hér svör Alþýðufylkingarinnar við þeim.
 
Sp 1: Hefur verið gengið of langt í niðurskurði til heilbrigðismála á undanförnum árum?
 
Sv: Alltof langt hefur verið gengið í niðurskurði til heilbrigðismála undanfarin mörg ár.
 
Sp 2: Starfsmannaflótti og lengri biðlistar eftir aðgerðum og rannsóknum eru vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Hvernig hyggst þinn flokkur bregðast við þessum vandamálum?
 
Sv 2: Annars vegar hyggjumst við stórauka framlög til heilbrigðismála og forgangsraða uppbyggingu í samráði við fagfólk. Fjármögnun þess mun byggjast á því að auka vægi hins félagslega í hagkerfinu og innviðum samfélgsins. Með því aðfjármálakerfið verði gert félagslegt og látið hætta að soga til sín allt sem tönn á festir skapast mikið svigrúm til uppbyggingar í velferð og auknum lífsgæðum almennings. Ennfremur hyggjumst við bæta nýtingu á fé til heilbrigðismála með því að draga úr einkarekstri í samráði við þær fagstéttir sem málið varðar og skapa aðstöðu til allrar heilbrigðisþjónustu á opinberum vegum. Þetta á einnig við um tannlækningar sem við teljum að eigi að lúta sömu lögmálum og önnur heilbrigðisþjónusta. Einnig teljum við að hagkvæmt geti verið að framleiða ýmsar lækningavörur hér á landi sem nú eru fluttar inn og þannig mætti spara gjaldeyri.
 
Sp 3: Var það farsæl breyting að slá heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu saman í eitt velferðarráðuneyti? Er velferðarráðuneytið ef til vill of stórt miðað við íslenskar aðstæður?
 
Sv 3: Við höfum ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt hafi verið að sameina heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin. Líklega ræðst það að mestu leyti af því hvernig skipulag og stjórnun er á hvorum málaflokki. 
 
Sp 4:Hefur verið gengið of langt í sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni?
 
Sv 4: Já við teljum að of langt hafi verið gengið í sameiningu sjúkrastofnana á landsbyggðinni. Við teljum að veita eigi sem mesta þjónustu innan seilingar frá fólkinu þar sem það býr en sérhæfð þjónusta verði á færri stöðum.
 
Sp 5: Hvernig á að efla heilsugæsluna og gera hana að aðlaðandi vinnustað fyrir lækna og annað starfsfólk?
 
Sv 5: Heilsugæslan gegnir mjög mikilvægu og víðtæku hlutverki í heilbrigðisþjónusunni. Okkur er ljóst að hún hefur átt mjög undir högg að sækja og biðtími eftir tíma hjá heimilislækni almennt mjög langur. Við vitum ekki hvort ástæðurnar fyrir því eru fleiri en fjársvelti en mjög brýnt er að snúa þessari þróun við með þeim ráðum sem til þarf. 
 
Sp 6: Hver er afstaða þíns flokks til nýbyggingar Landspítalans við Hringbraut? Væri æskilegt að reka tvö sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu?
 
Sv 6: Við höfum miklarefasemdir um fyrirhugaða nýbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Æskilegra væri að dreifa meiru af þjónustunni eftir því sem hægt er , bæði um landsbyggðina og nágrannasveitarfélög.
 
Sp 7: Hver er afstaða þíns flokks til einkarekstrar (ekki einkavæðingar) í heilbrigðiskerfinu? Hve stóran hluta heilbrigðiskerfisins er æskilegt að reka með samningum við Sjúkratryggingar Ísladns?
 
Sv 7: Við viljum draga úr einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og stefna að því að öll heilbrigðisþjónusta verði veitt beint af opinberum stofnunum. Við viljum að sama skapi vinda ofan af viðskiptavæðingu í heilbrigðiskerfinu þannig að Sjúkratryggingar Íslands verði óþarfar.