mánudagur, 22. apríl 2013

Svör til Femínistafélagsins

Lesið færsluna Framboð og femínismi á heimasíðu Femínistafélags Íslands, þar eru svör framboðanna (m.a. Alþýðufylkingarinnar) við spurningum Femínistafélagsins. Til einföldunar birtum við okkar svör sérstaklega hérna:

Sp 1: Er framboðið femínískt?
Sv: Við viljum að jöfnuður og jafnrétti verði meginregla í öllu samfélaginu og við erum því eindregið á móti hvers konar mismunun, meðal annars á grundvelli kynferðis. Stéttabaráttan verður ekki háð án jafnréttisbaráttu.
Sp 2: Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að jafna hlut karla og kvenna í stjórnmálum?
Sv: Stjórnmálin eru afurð þjóðfélagsins og það þarf fyrst og fremst að jafna hlut karla og kvenna í þjóðfélaginu öllu. Það munar meira um þá jöfnun, og áhrif hennar á stjórnmálin, heldur en að setja reglur um stjórnmálin sjálf. Í stjórnmálunum sjálfum munar mest um að koma að ærlegu fólki sem berst gegn ójafnrétti og öðru félagslegu ranglæti.
Sp 3. Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að útrýma kynbundnum launamuni hérlendis?
Sv: Með því að gera launakerfið gegnsærra og rekstur einstakra fyrirtækja, sem og fjármálakerfisins, lýðræðislegri, og með því að endurreisa ýmsa innviði samfélagsins sem hafa hátt hlutfall kvenna í vinnu, svo sem heilbrigðiskerfið. Auk þess viljum við jafna vægi starfa í þjóðfélaginu, sem mundi gagnast lágt launuðu fólki af báðum kynjum.
Sp 4: Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að uppræta kynbundið ofbeldi, svo sem nauðganir, ofbeldi í nánum samböndum, vændi, mansal o.fl., og færa þolendum þess réttlæti í dómskerfinu?
Sv: Til að byrja með, viljum við ekki að neinn sé í aðstöðu til að geta ekki hafnað ósæmilegum tilboðum og það gerum við með því að styrkja félagslega stöðu þeirra sem í dag eru neðst í þjóðfélagsstiganum. Í öðru lagi á að senda þau skilaboð að kynferðislegt ofbeldi sé óásættanlegt, og það gerum við ekki bara með lögum og reglum heldur líka með því að skapa menningu þar sem gildi virðingar, réttlætis og jöfnuðar eru í hávegum, í stað þeirrar þjóðfélagslegu kúgunarmenningar sem ríkir. Í þriðja lagi þarf kerfið að skýla þolendum, m.a. með því að þolendur þurfi ekki að flýja að heiman (heldur séu ofbeldismenn fjarlægðir) eða, ef hjá því verður ekki komist, að í nægileg úrræði sé að venda. Þá viljum við gera réttarkerfið gjaldfrjálst, þannig að málsatvikin ráði ferðinni en ekki fjárhagsstaða málsaðila. Við mundum leita ráða sérfræðinga til að útfæra þessar aðferðir nánar og til að finna fleiri aðferðir.
Sp 5: Hvaða aðgerðum, ef einhverjum, mun framboðið beita sér fyrir til að stemma stigu við aðgengi að klámi?
Sv: Aðallega forvörnum í formi eðlilegrar og hreinskilinnar kynfræðslu í skólum fyrir börn og unglinga, og með því að stuðla að því að skólakerfið (og þjóðfélagið) innræti börnum virðingu fyrir fólki.