þriðjudagur, 23. apríl 2013

Svar við spurningum Sálfræðingafélags Íslands

Sálfræðingafélag Íslands sendi Alþýðufylkingunni fyrirspurn um stefnu í geðheilbrigðismálum. Hér eru spurningarnar og svör okkar við þeim:


Spurning 1
Hver er framtíðarsýn flokksins í geðheilbrigðismálum og hvaða atriði mun hann setja í forgang? Hér er mikilvægt að hafa alla aldurshópa í huga og bæði forvarnir og meðferð.

Svar:
Geðheilbrigðismál hafa farið halloka eins og flest annað í velferðarkerfinu undanfarin ár, og þá meina ég ekki bara kjörtímabilið sem er að klárast. Það er brýnt að hækka framlög hins opinbera til þeirra undir eins, enda er það viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á mikið undir því. Það á ekki að líta á geðheilbrigðismál sem bagga, einhvern lúxus sem við við höfum efni á þegar vel árar, vegna þess að þau eru meðal þess sem samfélagið okkar byggir á – þau eru einn mælikvarðinn á siðmenninguna í landinu. Það er margt sem þarf að bæta – nefna má vernd barna fyrir vanrækslu, forvarnir við vímuefnaneyslu ungmenna (og annarra) og að eldra fólk sé ekki afskipt. Það þarf að búa til úrræði fyrir afbrotamenn sem eru geðsjúkir en sakhæfir, það þarf að stórbæta aðbúnað fyrir fíkla og útigangsmenn, þar á meðal meðferð og endurhæfingu – og taka þá úr höndum fúskara og útvega þeim faglega hjálp í staðinn. Þó margt sé að, eru líka efnilegir vaxtarbroddar sem þarf að hlúa að, svo sem innleiðing batastefnu á geðsviði Landspítala, ný og betri réttargeðdeild og áform um geðgjörgæsludeild og öldrunargeðdeild, sem vonandi munu lukkast vel og þurfa þann stuðning sem þær þurfa frá hinu opinbera. Undirmönnun á geðdeildum er landlæg og hefur staðið árum saman og hana er aðeins hægt að leysa með auknum peningum – sama má segja um ástand geðdeildarbygginga, sem er ekki hægt að kalla mannbætandi né batahvetjandi. Þá er þörf á breyttu hugarfari; að geðdeildir taki ekki bara við sjúklingum, heldur að fagfólk, t.d. samfélagsgeðteymi, leiti uppi og sæki fólk sem þarf á hjálp að halda, og komi þeim í viðeigandi úrræði, líkt og mun vera gert í Danmörku. Því fyrr í sjúkdómsferlinu, sem hjálp er veitt, þess betri ættu batahorfurnar að vera. Það ætti að vera betra fyrir þá sjúklinga sem þá njóta þess, og þannig mundi kerfið betur þjóna tilgangi sínum.
Þó geðsjúkdómar eigi sjálfsagt eftir að fylgja mannkyninu um alla framtíð, og þó ekki sé hægt að útrýma þeim eins og bólusótt, er mikilvægt að greina samfélagslega þætti sem geta ýtt undir þá, og reyna að bæta þar úr. Augljóslega eru fátækt og neysla nautnalyfja slíkir þættir, en ekki má gleyma þeirri kúgun sem er innbyggð í öll samfélög stéttaskiptingar og annars ójafnréttis þar sem sumir eru húsbændur en aðrir hjú – og svo firringu, sem er ein hliðarafurð kapítalískra framleiðsluhátta. Það verður kannski ekki bundinn endir á kúgun og firringu á vorum dögum, en það þarf bæði að byrja að vinna kerfisbundið gegn hvoru tveggja (með því að minnka vægi fjármagnsins og auka vægi hins félagslega í samfélaginu) – og einnig að læra að lifa betur með þjóðfélagsmeinunum, á meðan við sitjum uppi með þau á annað borð. Það er framtíðarsýnin – að við, sem samfélag, þreyjum á meðan við undirbyggjum farsæld, réttlæti og allsnægtir fyrir komandi kynslóðir.


Spurning 2
Í lögum um réttindi sjúklinga segir að sjúklingar eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita, í samræmi við bestu þekkingu.
Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á gagnreynd sálfræðimeðferð að vera fyrsta meðferð við tilfinningavanda og fleiru. Almenningur hefur einungis mjög takmarkað aðgengi að slíkri meðferð, þar sem hún er a) í mjög litlum mæli í boði innan heilsugæslunnar og b) ekki niðurgreidd af Sjúkratryggingum. Hvernig hyggst flokkurinn beita sér í því að laga það ósamræmi sem þarna blasir við?


Svar:
Sálfræðimeðferð er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu landsins og sem slíkur á hún að sjálfsögðu að vera niðurgreidd af ríkinu og aðgengileg öllum sem hana þurfa. Ef við fáum tækifæri til munum við setja lög þar um.