mánudagur, 11. febrúar 2013

Félagsvæðing fjármálastarfseminnar


Framsaga Þorvalds Þorvaldssonar

Ég ætla að nota tíma minn hér í upphafi til að rökstyðja nauðsyn þess að fjármálakerfið allt verði ekki aðeins þjóðnýtt heldur félagsvætt, þannig að eðli þess og tilgangur verði stokkað upp. Eigin hagnaður verði ekki markmið fjármálafyrirtækja, heldur verði þau hluti af félagslegri þjónustu við almenning og fyrirtæki þar sem allir sitja við sama borð á málefnalegum forsendum. Meginreglan verði sú að enginn geti grætt á því bara að eiga peninga án þess að nein verðmætasköpun eigi sér stað.

Við stöndum frammi fyrir aðstæðum þar sem allt efnahagskerfið og þar með allt samfélagið er ofurselt fámennum fjármálaklíkum og braski þeirra sem skapa engin verðmæti en soga til sín öll verðmæti, ekki bara jafnóðum og þau eru sköpuð, heldur langt inn í framtíðina með yfirráðum yfir auðlindum, með skuldsetningu almennings og ríkisins, og margvíslegum öðrum fjármálagjörningum. Undanfarin misseri hefur umræðan um þjóðfélagsmál verið gróflega afvegaleidd með því að kreppan hefur verið gerð að einhvers konar siðferðislegu áfalli og reynt að finna sökudólga og sérstaklega reynt að troða samviskubiti upp á þjóðina vegna þess að hún hafi tapað sér í neyslu í stað þess að spara. Minna er fjallað um að lítill minnihluti standi fyrir stórum hluta neyslunnar og sölsi undir sig meirihluta af eignum samfélagsins. Aukin markaðsvæðing á flestum sviðum samfélagsins hefur stóraukið ójöfnuð en það hefur jafnan verið túlkað sem ill nauðsyn til að tryggja aukna verðmætasköpun sem allir hagnist eitthvað á. Opinber umfjöllun um fjármálakerfið á Íslandi hefur að miklu leyti byggst á þeirri hugmynd að verðmæti skapist úr engu í viðskiptum. Að gróðinn sé mælikvarði á verðmætasköpun. Reyndin er hins vegar sú að gróðinn er á kostnað samfélagsins. Það á sérstaklega við um gróðann í fjármálageiranum sem á ekki afturkvæmt inn í neins konar verðmætasköpun en er þvert á móti notaður til að skuldsetja verðmætaskapandi starfsemi og soga til sín hagnaðinn af henni.

Hinn kapítalíski markaður mótar allt samfélagið og hann sveiflast eftir sínum eigin lögmálum. Kapítalistinn selur sínar afurðir með hagnaði sem hann notar til að fjárfesta til að auka framleiðsluna og gróðann til að fjárfesta enn frekar, þangað til afurðirnar hætta að seljast. Annars vegar vegna þess að þörfin fyrir þær er mettuð og þó oftast enn frekar vegna skorts á kaupgetu fólksins. Enda, þegar horft er á þversnið samfélagsins, er gróðinn um það bil mismunurinn á þeim verðmætum sem vinnandi fólk skapar og því sem það fær greitt fyrir. Þannig verður kaupgeta almennings minni en sem nemur framleiðslunni og offramleiðsla hleðst upp. Og jafnframt kallar aukinn gróði á aukna fjárfestingu og veltu sem er langt umfram aukningu fólksfjölda. Þannig urðu offramleiðslukreppur framan af skeiði kapítalismans oft bundnar við svæði eða atvinnugrein, og leystust gjarnan með auknum landvinningum og nýjum mörkuðum. Þar kom uppskipting nýlendna milli nokkurra iðnríkja mjög við sögu.

Seint á 19. öld kom heimsvaldastefnan til sögunnar. Þó að orðið imperíalismi hafi verið þýtt á íslensku sem heimsvaldastefna er fyrirbærið ekki eingöngu stefna heldur sögulegt skeið, síðasta skeið kapítalismans. Það einkennist m.a. af samþjöppun auðmagns og einokun. Samruna framleiðslu-, verslunar- og bankaauðmagns. Uppskiptingu heimsins milli nýlenduvelda er að mestu leyti lokið og breytt valdahlutföll kalla því á endurskiptingu og stríð. Í ljósi þessa breyttust kreppur kapítalismans. Þær urðu alþjóðlegar, dýpri og langvinnari. Átökin um afleiðingar kreppunnar hafa að sama skapi orðiði umfangsmeiri og stórtækari og kostað heimsstyrjaldir og fjölda staðbundinna syrjalda. Næstu heimskreppu á undan þeirri sem núna herjar, lauk með heimsstyrjöld árið 1945. Þá tók við 30 ára tímabil sem nefnt hefur verið gullöld kapítalismans. Það er lengsta samfellda velgengnitímabil í sögu kapítalismans. Fyrir því eru tvær forsendur helstar. Í lok stríðsins var Evrópa og fleiri heimshlutar í rúst. Gríðarleg þörf var fyrir uppbyggingu á mannvirkjum, framleiðslutækjum, innviðum samfélaganna og á sama tíma kom til sögunnar ýmis ný neysluvara og þjónusta. Í öðru lagi hafði auðvaldskerfið gengið fram af almenningi víða um heim með hörmungum stríðsins og mörg lönd voru á barmi byltingar. Til að koma í veg fyrir byltingu fólksins var víðast hvar slakað nokkuð til gagnvart kröfum þess. Þannig kom til aukin velferð á sviði heilbrigðisþjónustu, menntunar og á fleiri sviðum. Til að standa undir henni var komið á fót ríkisrekstri í nokkrum framleiðslugreinum. Allt varð þetta til að lengja tíma stöðugleikans. En allt tekur enda. Það óhjákvæmilega gerðist, gróðahlutfallið fór að falla og hagvöxtur dróst saman. Verulega fór að sneyðast um arðvænlega fjárfestingakosti. En fjármagnið hlóðst upp og öskraði á fjárfestingar. Nú voru góð ráð dýr. Fé án hirðis þótti ekki góður kostur og því var reynt að fjárfesta í ýmsu öðru en framleiðslu á vörum og þjónustu. Einhverju sem lét efnahagsreikninga vaxa. Hinar nýju fjárfestingar fólust að miklu leyti í auðlindum og einkavæðingu þeirra. Einkavæðingu á opinberum framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum. Einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, menntun og umönnun. Skuldsetningu almennings. Lífeyri og loks væntingum um verðhækkanir á ýmsum bréfavafningum. Þessi þróun byrjaði í Bandaríkjunum og víða í Evrópu á áttunda áratugnum, en á Íslandi fór hún lítið af stað fyrr en á níunda áratugnum og fór svo á flug á þeim tíunda. Þessar breytingar, sem oft eru nefndar fjármálavæðing, hafa falið í sér geysilegan vöxt fjármálakerfisins. Þær orsökuðust ekki af valdatöku Reagans eða Thatcher. Ekki einu sinni Davíðs Oddssonar. Orsakasamhengið er frekar á hinn veginn. Fjármálavæðingin orsakast af hratt vaxandi fjármagni sem ekki fær pláss í verðmætaskapandi framleiðslu eða þjónustu. Spákaupmennska verður umfangsmikil og fjármálakerfið vex raunhagkerfinu yfir höfuð. Í Bandaríkjunum komu 17% gróðans úr fjármálakerfinu árið 1980. Árið 2005 hafði þetta hlutfall vaxið upp í 38%.

Fjármálakerfið er nú orðið ein stór ryksuga sem sogar til sín öll verðmæti í hagkerfinu gegnum vaxtaokur og eigin fjárfestingar. Til að þetta kerfi geti haldist uppi er reynt að skapa því efnislegan bakhjarl, t.d. með aukinni orkuvinnslu sem lítið fæst fyrir og aukinni framleiðslu á áli, þó það sé þegar offramleitt. Á rúmum áratug hefur raforkuframleiðsla hér á landi tvöfaldast og áform eru uppi um að tvöfalda hana aftur fyrir 2024. Þá verður framleiðslan komin upp í um 35 terawattstundir á ári eða um 4500 megawött í afli. Þetta er um það bil öll sú orka sem talin er virkjanleg með góðu móti á landinu. Þannig er náttúru og auðlindum þjóðarinnar sóað til að halda uppi spilavíti fjármálaauðvaldsins, óþolandi ójöfnuði og ósjálfbæru hagkerfi. Þetta er ekki mjög flókið reiknisdæmi. Til að standa undir 5% vöxtum þarf að minnsta kosti 5% framleiðsluaukningu. Það þýðir tvöföldun á um 14 árum. En fólksfjöldinn tvöfladast kannski á 70 til 100 árum. Jafnvel meira núorðið. Hvernig á þá að ráðstafa þessari aukningu? Þarf endalaust að auka neysluna?

En hvað er þá til ráða? Er hægt að hafa taumahald á fjármálakerfi sem drifið er áfram af gróðasókn eigendanna? Því er stundum kastað fram, að mikilvægt sé að bæta regluverkið. En hvernig á regluverk fjármálakerfisins að vera? Sýnir ekki reynslan að regluverkið stjórnast mest af þörfum auðstéttarinnar á hverjum tíma, nema gripið sé inn í með afgerandi hætti? Auðstéttin getur ráðið miklu um flæði fjármagns um hagkerfið og haft með því áhrif á lífskjör fólksins. Þannig getur auðstéttin náð fram vilja sínum meðan hún hefur rétt til að reka fjármálastarfsemi í hagnaðarskyni. Liggur þá ekki nokkuð beint við að einfalda regluverkið þannig að starfsleyfi fjármálafyrirtækja verði afturkölluð og þegar verði hafist handa um að endurskipuleggja þau undir opinberri forsjá, með ný markmið svo sem fyrr er getið? Hvaða markmið geta það svosem verið? Fyrst má nefna að með því að afleggja vexti, eða því sem næst, fær almenningur strax hag af breytingunni með ódýrara húsnæði og lægra vöruverði ef því er fylgt eftir að það skili sér þangað. Þar með getur fólk hætt að vinna eins mikið og getur notað meiri tíma í að sinna uppbyggilegum hugðarefnum. Minni þrýstingur verður á að auka framleiðsluna stöðugt og þar með ágang á náttúruna. Við verðum að skoða atvinnuleysisvandann í nýju ljósi. Líta á hann fyrst og fremst sem framfærsluvanda. Samfélagið verður að hætta að ofsækja atvinnulausa og beygja þá í duftið. Með örugga framfærslu finna flestir sér skapandi verkefni. Það er út í hött að í ofgnóttarsamfélagi nútímans sé litið á það sem nauðsyn að allir vinni jafn mikið og fyrir meira en 100 árum til að brauðfæða samfélagið.

Ég hygg að við séum að nálgast viss skil í mannkynssögunni. Vistkerfið þolir ekki aukna áníðslu og er þegar á undanhaldi víða. Ný stórstyrjöld kann að vera á næsta leiti. Það er ekkert sem bendir til þess að auðvaldið finni aðra leið út úr þessari kreppu en þeirri síðustu. Þá kemur til kasta fólksins að finna sína leið. Leið félagsvæðingar. Það er ekki nóg að stöðva frekari einkavæðingu og láta þar við sitja. Það verður að snúa henni við og vinda ofan af fyrri gjörningum. Það er ekki nóg að hafa góða framtíðarsýn í afmörkuðu hólfi, en leita svo í allt annað hólf eftir baráttumálum og lausnum á verkefnum dagsins. Þetta verður að vera samtvinnað. Stjórnmálaafl sem tekur sjálft sig alvarlega verður að gera það upp við sig hvort það ætlar að þjóna fjármálaauðvaldinu eða berjast gegn því, og þá fyrir nýrri samfélagsgerð. Þjóðnýting fjármálakerfisins er lykilskref í baráttunni gegn auðvaldinu í dag og ef vel tekst til getur sú barátta sparað samfélaginu mikinn sárauka á næstu áratugum. Ágætu félagar. Ég hef vísvitandi sniðgengið umfjöllun um lífeyriskerfið í þessu erindi. Þó að sú markaðsvæðing lífeyrisréttindanna sem felst í núverandi sjóðssöfnunarkerfi kalli á drjúgan hluta þeirrar offjárfestingar sem sligar samfélagið, þá held ég að þetta sé efni í annan fund þar sem fleiri hliðar málsins koma við sögu. Því ætla ég ekki að fjalla meir um það hér í inngangi en gæti komið inn á það í umræðum.

Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður er í bráðabirgðastjórn Alþýðufylkingarinnar. Þessi framsaga var flutt á málfundi VG um fjármálastarfsemi snemma vors 2012 og hefur áður birst á vefritinu Eggin.is þann 12. mars 2012.