þriðjudagur, 19. febrúar 2013

Ályktun um umhverfis- og auðlindamálÁlyktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013
um umhverfis- og auðlindamál

Þrátt fyrir nýsamþykkta rammaáætlun um raforkunýtingu hér á landi og þá almennu skoðun að auðlindir þjóðarinnar skuli vera sameign, hefur Íslandsbanki uppi áform um fjármögnun á tvöföldun raforkuframleiðslu á Íslandi næsta áratuginn. Þar með yrðu tæmdir möguleikar á frekari raforkuvinnslu í landinu. Á sama tíma eru uppi áform um að leggja sæstreng til Skotlands til að flytja út raforku til Evrópu. Allt ber þetta að þeim brunni að gera auðmönnum kleift að taka út gróða af orkuauðlindinni en velta kostnaði af gríðarlegri fjárfestingu yfir á samfélagið ásamt stórhækkun á orkuverði til almennings og framleiðslufyrirtækja. Það er undarleg forgangsröðun að undirbúa lagningu rafstrengs til Skotlands meðan bíða þarf meira en áratug eftir þriggja fasa rafstreng í Meðalland í Skaftafellssýslu.

Tilburðir auðmanna til að braska með auðlindir eru alvarleg ógn við náttúru og umhverfi, við sjálfbæra nýtingu auðlindanna og efnahag þjóðarinnar.