mánudagur, 18. febrúar 2013

Ályktun um EvrópusambandiðÁlyktun framhaldstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16.2. 2013 um ESB

Þegar ríkisstjórnin sótti um aðild Íslands að Evrópusambandinu var látið að því liggja að það væri sakleysisleg athugun á því hvað væri í boði í samningaviðræðum. En síðan hefur milljörðum verið eytt í aðlögun að Evrópusambandsaðildinni og mútur í formi styrkja til að afla málinu fylgis. Hvergi er hins vegar talað um að aðild að sambandinu muni kosta tugi milljarða í aðildargjald.

Svo virðist sem beðið sé eftir hentugu tækifæri til að afgreiða málið þegar þjóðin hefur fengið upp í kok af áróðri og þá verði notað sem rök að svo miklu hafi verið eytt í aðildarundirbúninginn að ekki megi láta það fara til spillis. Einnig talar Samfylkingin um aðild að ESB eins og um sé að ræða lausn á gjaldmiðilsvanda.

Aðild að Evrópusambandinu snýst hins vegar hvorki um gjaldmiðil eða möguleika á styrkjum. Þegar allt kemur til alls snýst hún um sjálfstæði þjóðarinnar og möguleika hennar á að taka lýðræðislegar ákvarðanir um framtíð sína. Kjarninn í regluverki ESB snýst um frjálshyggju og markaðsvæðingu. Allt skal keypt og selt á markaði sem mögulegt er. Þannig vilja auðmenn ESB komast yfir samfélagsleg gæði á Íslandi, auðlindir, vinnuafl og fyrirtæki, eins og í Grikklandi og öðrum ríkjum ESB. Það mun auka enn á ójöfnuð og torvelda okkur sem þjóð að breyta því og vinda ofan af markaðsvæðingunni.