þriðjudagur, 19. febrúar 2013

Almenn stjórnmálaályktun framhaldsstofnfundarAlmenn ályktun framhaldsstofnfundar Alþýðufylkingarinnar 16. febrúar 2013

Öll máttarvöld auðvaldsins berjast nú hatrammri baráttu fyrir því að velta oki kreppunnar yfir á alþýðuna. Það er m.a. gert með því að koma tapi banka og stórfyrirtækja yfir á ríkissjóð og lífeyrissjóði, en einnig með beinu arðráni í formi okurlána til heimila og fyrirtækja. Bankarnir og þeirra gæðingar eru þannig á endanum á fæðukeðju auðvaldsins og gleypa allt sem ætilegt er. Til að lífvænlegt verði í landinu er alger stefnubreyting nauðsynleg. Þjóðin hefur fengið forsmekkinn af afleiðingum þess að markaður kapítalismans stjórni samfélaginu. Að óbreyttu heldur kreppan áfram í dýpri og dýpri sveiflum.

Alþýðan hefur átt í vök að verjast en verður að snúa vörn í sókn í stéttabaráttunni. Til að hagkerfið geti náð jafnvægi og þjónað samfélaginu er nauðsynlegt að félagsvæða alla innviði þess og þá ekki síst fjármálakerfið. Þannig skapast mikið svigrúm til að efla velferðina á öllum sviðum og auka jöfnuð og lífsgæði. Þetta er eina leiðin til að leysa vanda þeirra þúsunda fjölskyldna sem eru fastar í skuldafjötrum og leysa úr læðingi þau samfélagslegu gæði sem efni standa til.