sunnudagur, 13. janúar 2013

Ályktun stofnfundar Alþýðufylkingarinnar 12. janúar 2013

Undanfarin ár hefur kreppan varpað skýru ljósi á brestina í íslensku samfélagi. Kapítalisminn leiðir af sér ójöfnuð og kreppu. Kreppunni slotar ekki með aukinni veltu í hagkerfinu eins og allir aðrir flokkar boða, og þeim mun síður sem fjármálakerfið drottnar yfir efnahagslífinu og mergsýgur það. Aukin velta þýðir að óbreyttu aðeins að fámennur forréttindahópur getur dregið til sín meiri gróða en skuldunum sem fylgja er velt yfir á almenning. Þetta er gömul saga og ný sem íslenska þjóðin hefur ferska reynslu af.  

Alþýðufylkingin boðar þess í stað aukinn jöfnuð í samfélaginu sem náð verði fram með auknu vægi hins félagslega í hagkerfinu. Stefnt verði að því að allir innviðir samfélagsins verði félagslega reknir  og þá ekki síst fjármálakerfið sem þar með hættir að féfletta samfélagið í þágu lítils minnihluta.