miðvikudagur, 22. febrúar 2017

Ályktun um sjómannaverkfallið

Nýafstaðið sjómannaverkfall ber í sér lærdóma sem fólk ætti að taka eftir. Fyrsti er, að það er leið baráttunnar er leiðin til sigurs: Löng og ströng barátta skilaði sjómönnum kjarabótum. Annar: Kjarabæturnar eru takmarkaðar vegna þess að sjómenn völdu að samþykkja samninginn frekar en að taka slaginn enn lengur. Þriðji: Ríkisvaldið kemur fram sem bakhjarl útgerðarauðvaldsins með hótun sjávarútvegsráðherra um lög á verkfallið. Tökum eftir því að hún hótaði ekki að setja lög til að skikka útgerðarmennina til að ganga að kröfum sjómanna. Og ekki á verkbann á vélstjóra.

Sjómenn vinna erfiðari og hættulegri vinnu og eru lengur að heiman í senn heldur en flest annað vinnandi fólk á landinu. Fiskurinn verður ekki veiddur án þeirra. Þeir skulu virðir vel. Hins vegar er vel hægt að veiða fisk án kapítalista sem sölsa undir sig auðlindirnar og arðinn af vinnunni, og fá samt sérkjör hjá vinum sínum í ríkisstjórn.

Alþýðufylkingin vill að fiskistofnar Íslandsmiða séu nýttir í þágu þjóðarinnar. Hún vill frjálsar smábátaveiðar en að stærri skip þurfi að fá kvóta hjá útgerðarplássum, sem ráðstafi honum og fái auðlindagjald fyrir, en núverandi kvótaúthlutun verði fleygt fyrir borð. Alþýðufylkingin vill líka koma á félagslega rekinni útgerð, t.d. á vegum ríkis, sveitarfélaga eða alvöru samvinnufélaga, þannig að fámenn elíta maki ekki krókinn á auðlindinni, heldur njótum við hennar öll saman.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
22. febrúar 2017

Stofnun svæðisfélags Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu

Síðastliðinn laugardag, 18. febrúar, var stofnað svæðisfélag Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er sameiginlegt kjördæmisfélag flokksins í Reykjavíkur- og Suðvesturkjördæmum og í þeim sveitarfélögum sem tilheyra þeim. Félagið vinnur að framgangi stefnu Alþýðufylkingarinnar á félagssvæðinu, m.a. með kosningaundirbúningi.

Í stjórn voru kjörin Alice Bower, Jón Hjörtur Brjánsson, Tamila Gámez Garcell, Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir og Þorvarður B. Kjartansson.

fimmtudagur, 16. febrúar 2017

Stofnfundur svæðisfélags Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu 18. febrúar

Aðildarfélag Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu verður stofnað laugardaginn 18. febrúar. Stofnfundurinn verður í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, og hefst kl. 12.

Auk þess að samþykkja lög og kjósa stjórn, verður rætt um starf félagsins í náinni framtíð, tillögur til landsfundar í næsta mánuði o.fl.

Starfssvæði félagsins verður Reykjavík og Suðvesturkjördæmi. Auk þeirra sem þegar eru félagar í Alþýðufylkingunni, eru nýir félagar velkomnir á fundinn.

Heitt á könnunni.

Kveðja,

Undirbúningsnefndin

miðvikudagur, 15. febrúar 2017

Lög á sjómenn og SALEK – blikur á lofti

Þrýstingur vex jafnt og þétt kringum sjómannaverkfallið, og krafa um stjórnvaldsaðgerðir verða
Þórarinn Hjartarson
stálsmiður á Akureyri
háværari. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Atvinnuvegaráðuneytið gefur út svarta skýrslu, „Mat á þjóðhagslegum kostnaði verkfalls sjómanna“. Útgerðarmenn reikna greinilega með lögum á verkfallið – að fenginni reynslu af því á síðustu 30 árum hafa 15 sinnum verið sett lög á vinnudeilur og þar af sjö sinnum á sjómenn! (farmenn eða fiskimenn). Aðrir binda vonir við skattaafslátt, að láta þannig niðurgreiðslur ríkisins til sjávarútvegsins leysa útgerðina undan launahækkunum.

Deilan dregst á langinn og sýnir góða samstöðu og stéttvísi meðal sjómanna. Jafnframt sýnir hún enn einu sinni þá miklu samstöðu sem ríkir meðal íslenskra atvinnurekenda um að hindra að verkfallsaðgerðir skili árangri. Viðbrögð þeirra við verkföllum eru alltaf prinsippmál og í þeirra röðum ríkir í raun bann við því að beygja sig fyrir verkfalli, þar sem slíkt myndi skapa hættulegt fordæmi meðal launþegahópa. Stéttasamstaða atvinnurekenda snýst mjög um það að sýna að verkföll borgi sig ekki.  

Önnur stéttarleg viðbrögð eignastéttarinnar eru sama eðlis, og jafnvel alvarlegri. Atvinnurekendavald og ríkisvald nota neikvæða umræðu um verkfallið til að ráðast að samningsréttinum. Þar fer Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fyrir. Í Silfrinu um daginn (5/2) sagði hann orðrétt: „Það sem mér finnst að við eigum að spyrja okkur, svona í ljósi þessa verkfalls,  sem kemur á eftir mörgum öðrum verkföllum sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum, er einfaldlega það hvort við þurfum ekki að fara að endurskoða þennan ramma vinnumarkaðarins, sem virðist ekki hafa fram að færa neinar leiðir til þess að höggva á hnútinn þegar það er stál í stál.“  Sem sagt, breyta þarf „vinnumarkaðsmódelinu“. Bjarni vísar þarna líka í launadeilurnar 2015, sem urðu tiltölulega víðtækar. Viðbrögð fulltrúa atvinnurekenda og ríkisvalds – og ASÍ-forustu – við þeim verkföllum voru þau að þetta mætti helst aldrei endurtaka sig. Til að hindra það yrði að setja kraft í SALEK-viðræður milli aðila vinnumarkaðar. Í viðtalinu í Silfrinu bætti Bjarni við: „Í því sambandi er oftast talað um að við gætum stóraukið vald ríkissáttasemjara, að við gætum þvingað menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana, ef menn ná ekki niðurstöðu í samningum... þetta er í raun kjarni þess samtals sem hefur verið í gangi undanfarin ár undir merkjum SALEK, milli almenna og opinbera markaðarins og stjórnvalda... það miðar að því að við færum okkur nær norræna módelinu og að þróa og þroska leiðir til að komast út úr svona öngstræti.“ (*)

Ágreiningur hefur verið verulegur innan verkalýðshreyfingarinnar um SALEK-viðræðurnar. Verkalýðsfélag Akraness ásamt nokkrum öðrum verkalýðsforingjum hefur staðið fast gegn því vinnumarkaðslíkani sem SALEK hefur byggt á, af því það sé til þess fallið – og til þess hugsað – að stórskerða samningsrétt stéttarfélaga. ASÍ-forustan hefur mótmælt því kröftuglega: „Nei, það er ekkert í þessu samkomulagi sem hróflar við ákvæðum vinnulöggjafarinnar um samningsrétt einstakra stéttarfélaga“ (*) En orð Bjarna forsætisráðherra segja það sem segja þarf: Markmiðið er að „þvinga menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana“ og að „stórauka vald ríkissáttasemjara“, segir hann. Sem kunnugt er er eitt meginatariði í SALEK-viðræðunum stofnun Þjóðhagsráðs sem greina skuli stöðuna í efnahagsmálum í aðdraganda kjarasamninga og leggja línu um „svigrúm til launahækkana“.

Nú ríður á að verjast tvöfaldri hættu: hindra það að enn ein lög verði sett á kjaradeilu sjómanna og eins að „skaðinn“ sem vinnudeilan veldur verði síðan notaður til að þvinga upp á okkur nýjum ramma um vinnudeilur skv. óskum atvinnurekenda.

Þórarinn Hjartarson, stálsmiður á Akureyri

þriðjudagur, 24. janúar 2017

Fundur um heimsráðstefnuna í Mumbai gegn stríði, arðráni og óöryggri vinnu

Frá heimsráðstefnunni í Mumbai gegn stríði, arðráni og óöryggri vinnu sem haldin var 18.-20. nóvember 2016

Opinn fundur þar sem kynnt verður nýafstaðin alþjóðaráðstefna í Mumbai á Indlandi. Þar komu saman fulltrúar hundruða verkalýðsfélaga og stjórnmálaflokka frá öllum heimsálfum og ræddu stöðu og horfur verkalýðsbaráttu í heiminum.
Framsögumaður verður Jean Pierre Barrois, sem sat ráðstefnuna, ásamt Pierre Priet. Þeir eru frá franska blaðinu La Tribune des travailleurs (Verkalýðsblaðinu) og Parti ouvrier indépendant démocratique (POID) (Sjálfstæða lýðræðis-verkalýðsflokknum)
Fundurinn verður í MÍR-salnum, Hvefisgötu 105, fimmtudagskvöld 26. janúar og hefst kl. 20:00. Hann fer fram á ensku. Allir velkomnir.

Að fundinum standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK

fimmtudagur, 19. janúar 2017

Árið 2016 – ósigur hnattvæðingarinnar

Árið 2016 var merkisár, ár sviptinga í heimsmálum. Það var árið þegar vestræna
Þórarinn Hjartarson
stálsmiður
hnattvæðingareimreiðin – undir stjórn USA – tók að hósta alvarlega og missa ferð. Tvö mestu regináföllin sem hnattvæðingarstefnan varð fyrir á árinu voru Brexit í Bretlandi og kosning Donalds Trump í Ameríku. Á hernaðarsviðinu urðu atburðir sem draga í sömu átt.

„Hnattvæðingin“, hástig heimsvaldasinnaðs kapítalisma, er fyrirkomulag auðhringanna til að leggja undir sig markaði, auðlindir og atvinnulíf á heimsvísu. Stefna hnattvæðingarelítunnar var og er að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði auðhringanna. „Hnattvæðingu“ má lýsa sem hnattrænni kapítalískri verkaskiptingu á afar háu stigi, með sem frjálsast flæði fjármagnsins um lönd og álfur, ekki síst „útvistun“ iðnaðar í gróðaskyni til lágkostnaðarlanda en þar sem hönnun, vörumerki yfirstjórn og vald situr eftir sem áður á Vesturlöndum (aðallega) og sér um að gróðinn flæði í rétta átt. Takmarkanir landamæra eru eitur í beinum auðhringanna, og öll sjálfsákvörðun (minni) ríkja er eitur í beinum hnattvæðingarsinna.

Hnattvæðingin brast á af auknum þunga eftir fall Austurblokkar um 1990: GATT-viðræðurnar sem juku frelsi fjármagnsins og fóru fram í „lotum“, stofnun Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO), tilkoma NAFTA, þróun ESB með „frelsun“ markaðsaflanna og miðstýrðs fjármálavalds á kostnað sjálfsákvörðunar aðildarríkja – sálin í ESB, „fjórfrelsið“, er raunar kjarninn í reglum hnattvæðingarinnar, þá landfræðileg útþensla ESB í austur – og loks samningagerðin um TISA og TTIP.

Nýfrjálshyggjumenn og markaðskratar túlka þessa þróun sem efnahagslegt lögmál. Og jafnvel í augum andstæðinga þróunarinnar hefur skriðþungi þessarar eimreiðar verið eins og ósigrandi afl. „Lögmál“ er þetta þó ekki heldur birtist þarna fyrst og fremst sókn auðsins og markaðsaflanna en undanhald verkalýðs og alþýðu – undanhald sósíalisma/félagshyggju og þjóðlegrar sjálfsákvörðunar fyrir því sem kalla má alþjóðahyggju auðmagnsins.

Ekki breiðist hnattvæðingin einfaldlega um heiminn eins og sigrandi hugsun eða andans stormsveipur. Bandaríkin hafa með önnur Vesturlönd í eftirdragi leitast við að treysta ytri skilyrði hennar og hindra framrás keppinauta með valdi, hernaðarinnrásum, viðskiptaþvingunum og valdaskiptaaðgerðum – með sérstaka áherslu á Miðausturlönd og yfirráða- og áhrifasvæði gömlu Sovétríkjanna. Thomas Friedman, sem skrifar vikulega um alþjóðamál, efnahagsmál og hnattvæðingu í New York Times, segir:
„Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem hannaði F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“
Hnattvæðingarvinstrið
Engan þarf að undra stórlega að frjálshyggjuhægrimenn í viðskiptum og stjórnmálum fylki sér um stefnu og hugmyndir hnattvæðingar. Hitt er merkilegra að fólk sem skilgreinir sig til vinstri gerir það sama. Þá komum  við að frjálslynda vinstrinu og því sem ég að ofan nefndi markaðskrata. Frjálslyndisvinstrið hefur gengið inn á stefnu stórauðvaldsins: fríverslun og frjálst flæði fjármagns og vinnuaafls, m.ö.o. hnattvæðingu auðhringanna.

Nú er staðan sú að hjá frjálslynda vinstrinu hefur hnattvæðing (frjálst flæði, lágmörkun landamæra, „evrópuhugsun“, fjölmenning...) bókstaflega komið í stað þeirrar heimsvaldaandstöðu sem öðru fremur fylkti vinstri mönnum til baráttu á árum áður. Óvinur frjálslynda vinstursins er ekki lengur heimsvaldastefnan, frekar „þjóðernisstefnan“. Jafnframt því er stéttarafstaða og stéttabarátta hætt að vera grundvöllur þessarar vinstrimennsku og helstu baráttusviðin snerta nú kynjabaráttuna, stöðu útlendinga, litaðra, múslima, samkynhneigðra, hinsegin fólks...

Brexit
Kosningarnar um Brexit í júní sl. voru í meginatriðum mótmæli gegn hnattvæðingarreglunum, og hinu evrópska formi þeirra í ESB. Gegn öllum tilskipunum valdsins í Bretlandi og Brussel ákvað meirihlutinn að yfirgefa ESB. Áhrifamestu aðilar sem studdu útgöngu Breta voru samtökin „Vote leave“ sem hafði aðalkjörorðið „Vote leave – take back control“ og flokkurinn UKIP með kjöorðið „I want my country back“. Um atkvæðagreiðsluna í júní hef ég áður skrifað:
Annars vegar stóð hin fjölþjóðlega ESB-elíta, stjórnvöld Bretlands, fjármála- og bankavaldið, voldugustu fjölmiðlarnir, hins vegar almenningur. Almenningur vann.... Þar vó þyngst að verkalýður stórra og smárra bæja Englands hafði fengið meira en nóg – af markaðsfrelsi Evrópumarkaðarins, frjálsu flæði fjármagns inn og út, sem hefur tekið frá honum iðnaðinn og störfin og grafið undan verkalýðshreyfingunni m.a. með ódýru innfluttu vinnuafli. Það að vilja að stefnan í innflytjendamálum eigi að vera ákvörðuð í þjóðríkinu sjálfu er reyndar ekki það sama og rasismi. Það var á hefðbundnum Labour-svæðum sem fólk streymdi á kjörstaði og kaus útgöngu. Þetta voru sem sé mótmæli verkalýðs gegn Brusselvaldi, gegn Cameron og líka gegn Labour. Uppreisn hans gegn elítunni og valdinu.
Fyrirbærið Trump
Donald Trump hafnaði hnattvæðingunni – og gerði það að þungamiðju framboðsmála sinna. „Ameríkanismi, ekki hnattvæðing (glóbalismi) verður okkar trúarjátning“ sagði hann. Helsta kjörorð hans í því samhengi var „Flytjum iðnaðarstörfin heim!“ (Bring manufacturing jobs back“). Eftir kjör Trumps skrifaði Diana Johnstone á Counterpunch:
„Raunveruleg merking þessa uppnáms er að hnattvæðingarstefnu Wall Street hefur verið hafnað af þegnum heimalandsins... Kjósendur Trumps höfðu ýmsar ástæður til að kjósa Trump aðrar en „kynþáttahyggju“. Umfram allt vildu þeir störf sín til baka, störf sem hafa horfið fyrir tilstilli þeirrar efnahagslegu frjálshyggju sem flutt hefur iðnaðarstörfin yfir á láglaunasvæði.“ 
Hillary Clinton var fulltrúi kerfisins, fulltrúi óbreytts ástands, hreinræktaðri fulltrúi bandarískrar hernaðarstefnunnar en Trump – og fulltrúi hnattvæðingarinnar í heild. Valdakerfið bandaríska studdi Hillary. Allir stærstu bankarnir voru þar með, Wall Street, hergagnaiðnaðurinn og allir þungvægustu fjölmiðlarnir. En það dugði samt ekki. Hún tapaði.

Mjög gróflega orðað var það lágstéttin sem bar uppi kjör Trumps meðan hástéttin kaus Hillary Clinton. Trump vann yfirburðasigur meðal hvítra án háskólamenntunar. Skrið yfir til repúblíkana var mest hjá þeim lægst launuðu og mest stökk yfir til demókrata kom hjá þeim hæst launuðu. Þetta er umsnúningur á hefðbundnu fylgi flokkanna tveggja (á sér að vísu lengri aðdraganda en þessa kosningabaráttu eina).
  
Í ríkjandi umræðu, m.a. á Íslandi – og þó sérstaklega til vinstri – eru úrslitin bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrst og fremst túlkuð sem „vaxandi kynþáttahyggja“ eða „sigur hatursins“ með tilvísun til umræðu um flóttamannastraum, útlendingahræðslu, íslamófóbíu og ólöglega innfytjendur m.m. Ekki þarf að vefengja að þessir þættir hafi haft veruleg áhrif á fylgið. En á hitt er sjaldan minnst að bæði Nigel Farage og Donald Trump spiluðu mjög fimlega á megna óánægju alþýðu með hnattvæðingarstefnuna og það sem henni fylgir: versnandi kjör, útvistun iðnaðar, óöryggi, vaxandi ójöfnuður, félagsleg undirboð...

Það er ekki þannig að popúlistarnir Nigel Farage eða Donald Trump hafi „pískað upp stemningu“ gegn hnattvæðingu eða gegn ESB með lýðskrumi sínu. Sem popúlistar haga þeir einmitt seglum eftir vindi, og vindurinn er almenningsálitið. Þeir taka afstöðu gegn umræddum fyrirbærum af því hvað þau eru óvinsæl. Hagkerfið staðnar, innviðir fúna. Hnattvæðingarstefnan eykur auð hinna ríkustu en frá sjónarhóli almennings rífur hún niður landið fremur en byggja það upp.

ESB og popúlisminn
ESB er nú í svo slæmri kreppu að líkja má við niðurbrot. Einstök lönd í sambandinu hafa hafnað flóttamannapólitík ESB, og þó einkum því að löndin skuli ekki sjálf ákvarða stefnu sína í innflytjendamálum. Refsiaðgerðir ESB gegn Rússlandi hafa einnig reynt mjög á þanþol sambandsins enda eru þær framkvæmdar vegna tilskipana frá USA gegn sterkri innri andstöðu í Evrópu. Cameron gerði þá djöfuls skyssu að leyfa þegnunum að kjósa um aðild, og það fór sem  fór. Forseti ESB, Jean-Claude Juncker, sagði í ræðu á Evrópuþinginu.
„Við skulum bara gera sjúkdómsgreininguna heiðarlega: Evrópusambandið okkar er í tilvistarkreppu, a.m.k. að hluta. Aldrei áður hef ég séð jafn litla samheldni milli aðildarríkja, svo fá svið  sem við getum sameinast um að vinna saman á.“
Fríverslunarsamningur milli ESB og Bandaríkjanna, TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership), hefur undanfarin misseri verið í mótun bak við luktar dyr og gengur út á að gefa auðhringunum aukin völd. Frumkvæðið hefur algjörlega verið Bandaríkjamegin. Samningsgerðin hefur mætt hörðum mótmælum meðal almennings, 17% Þjóðverja styðja hann og 15% Bandaríkjamanna. Gagnrýnin gengur m.a. út á að yfir ½ milljón störf tapist í Evrópu, ekki síst tengd landbúnaði. Í ágúst sl. sögðu svo bæði Hollande Frakklandsforseti og Gabriel fjármálaráðherra Þýskalands að samningsgerðin hefði mistekist og væri strand. Í kosningabaráttunni tók síðan Donald Trump afstöðu gegn samningsgerðinni og sagði hana ógna störfum í landinu, svo samningunum er líklegast sjálfhætt.

Í þessu umhverfi óvinsællar hnattvæðingarstefnu hefur hægri popúlisminn vaxið fram – popúlískir flokkar Evrópu þenjast út og Trump sigrar Hillary. Ef við lítum á Evrópu sérstaklega er ljóst að hægripopúlisminn tekur í einu landi af öðru til sín það verkalýðsfylgi sem hefðbundnir vinstri flokkar tóku áður. Það er af því að þeir flokkar hafa yfirgefið verkalýðsstéttina. Þeir reyna ekki einu sinni að hlusta eftir óskum hennar og þörfum, hvað þá að styðja hana og leiða í stéttabaráttunni. Og þarna er augljóst að hægripopúlistar hafa hlustað miklu betur. Þeir hafa í velferðarmálum tekið upp mörg af stefnumálum vinstri flokkanna. Þar við bætist andstaðan við hnattvæðinguna og afleiðingar hennar, af því hvað slíkur málflutningur fellur í góðan jarðveg hjá almenningi. Hve mikið þessir flokkar munu fylgja málflutningnum eftir í verki er vafasamt (í ljósi þess að þeir játast kapítalismanum sjálfum) og allt annað mál – sem ekki verður rætt hér.

Það þarf ekkert að efast um að hægripopúlískir flokkar Evrópu hafa líka riðið á bylgju útlendingaótta og sums staðar púra rasisma, sem er auðvitað áhyggjuefni. Það breytir því ekki að höfnun kjósenda í Bretlandi og Bandaríkjunum á hnattvæðingarstefnunni árið 2016 var greinileg uppreisn alþýðu gegn fjandsamlegu kerfi. Sú uppreisn var um leið ósigur auðsins og valdsins þó framhaldið sé óljóst. Þróunin á komandi árum verður mjög háð því hvernig vinstri öflin í framhaldinu bregðast við þessari uppreisn.

Umsnúningurinn í Sýrlandi
Hér ætla ég að prjóna við lítinn kafla af öðru sviði, sviði stríðsátaka. Það tengist ekki pólitískum straumum á Vesturlöndum eins og Brexit eða fyrirbærið Trump, en stríðsrekstur Vestursins í fjarlægum löndum – innrásir eða staðgengilsstríð – eru órjúfanlegur hluti af hnattvæðingunni eins og áður var nefnt. Árið 2016 var árið sem vígið Austur-Aleppo féll til sýrlenska stjórnarhersins. Árið 2015 var Sýrlandsstjórn komin í mjög aðþrengda stöðu og hryðjuverka- og uppreisnarherirnir studdir af NATO-veldum og Persaflóaríkjum réðu stækkandi svæðum landsins. Íhlutun Rússa til stuðnings Sýrlandsstjórn seint á árinu 2015, í viðbót við þátttöku frá Íran og Hizbolla í Líbanon, snéri hins vegar dæminu við. Orrustan um Aleppo varð á árinu 2016 að táknrænni þungamiðju stríðsins. Þegar Austur-Aleppo var frelsuð skömmu fyrir jól varð ljóst að staðgengilsstríð Vestursins og bandamanna er tapað, þó það sé vissulega alls ekki búið. Umsnúningurinn í Sýrlandsstríðinu er því þriðja regináfall hnattvæðingarstefnunnar árið 2016.

Tim Anderson, ástralskur prófessor, hefur skrifað mikilvæga bók og fjölda greina um Sýrlandsstríðið. Ég eftirlæt honum að túlka þýðingu atburðanna í Aleppo:
„Frelsun Aleppo, sem er önnur mesta borg Sýrlands og djásn aftan úr fornöld, er alvarlegasta bakslag í 15 ára hernaðaryfirgangi undir forustu Washington á öllu svæðinu. Endurvakin herská nýlendustefna á þessu svæði hefur þanið sig frá Afganistan til Líbíu, undir langri röð falskra yfirskrifta. Innrásum og staðgengilsstríðum hefur verið fylgt eftir með efnahagslegum refsiaðgerðum og yfirgengilegum áróðri. En þessi mikla hernaðarútrás – sem George W Bush fyrrum forseti kallaði sköpun „Nýrra Miðausturlanda“ – hefur siglt á sker í Sýrlandi. Hinir miklu staðgengilsherir, launaðir og vopnaðir af Washington ásamt sínum staðbundnu bandamönnum Sádum, Tyrkjum, Katar og Ísrael hafa verið sigraðir af sterku svæðisbundnu bandalagi með stuðningi sýrlensku þjóðarinnar.“
Þegar Donald Trump eftir forsetakjör segir hluti eins og „...Við munum ástunda nýja utanríkisstefnu sem að lokum lærir af mistökum fortðíðarinnar. Við munum hætta að steypa stjórnvöldum og kollvarpa ríkisstjórnum...“ þá er það merki um það að sigrar Sýrlendinga skila sér á sinn hátt og valdamiðstöðvarnar í Washington þurfa að horfast í augu við breytta stöðu hins hnignandi risaveldis.

sunnudagur, 1. janúar 2017

Áramótakveðja til stuðningsmanna Alþýðufylkingarinnar

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs. Árið 2016 hefur verið nokkuð viðburðaríkt hjá Alþýðufylkingunni, og segja má að
hún hafi komist á kortið, og margfaldast sá fjöldi sem þekkir nokkuð til, og finnur til samstöðu með stefnu Alþýðufylkingarinnar. Á komandi ári liggja fyrir ekki síður mikilvæg verkefni, þar sem skipulagsleg uppbygging flokksins er í forgrunni. Í nóvember s.l. var stofnað fyrsta svæðisfélag Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og við höfum sett okkur það markmið að stofna félög um allt land fyrir landsfund í byrjun mars.

Það er mikil áskorun að taka sér það verkefni að sameina alþýðuna til baráttu gegn auðvaldinu til að koma á nýju þjóðskipulagi. Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað. Ég er sannfærður um að okkur tekst á komandi misserum að efla Alþýðufylkinguna og auka stöðugleika í starfi hennar, þannig að hún verði forystuafl á öllum sviðum stéttabaráttunnar. Ég vonast til að hitta mörg ykkar í starfi á næstunni og saman munum við gera árið 2017 að mikilvægu ári í uppbyggingu AF.

Þorvaldur Þorvaldsson
trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar

föstudagur, 16. desember 2016

Útgáfuhóf byltingardagatals á morgun laugardag

Byltingardagatal fyrir árið 2017 er komið út, í tilefni af 100 ára afmæli októberbyltingarinnar, tekið saman af Vésteini Valgarðssyni. Að útgáfunni standa Alþýðufylkingin, DíaMat, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK og Rauður vettvangur. Þetta eigulega og fróðlega dagatal kostar 1500 kr. og fæst í bókabúðinni Sjónarlind á Bergstaðastræti og hjá félögunum sem gefa það út.

Útgáfuhóf verður haldið kl. 15 laugardaginn 17. desember í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Fram koma Bjarki Karlsson ljóðskáld, Sigvarður Ari Huldarsson trúbador o.fl.  

Opið bréf til forseta Íslands

Herra forseti Íslands.
Þorvaldur Þorvaldsson
trésmiður og formaður
Alþýðufylkingarinnar

Í ljósi þess vandræðagangs sem einkennir tilraunir þeirra flokka sem sitja á Alþingi til að reyna að mynda ríkisstjórn viljum við hvetja þig til að leita til Alþýðufylkingarinnar og veita henni umboð til myndunar utanþingsstjórnar.
Núverandi stjórnarkreppa varpar ljósi á djúpstæða kreppu í samfélaginu. Þó að mikið sé talað um efnahagslegt góðæri, nær það aðeins til lítils hluta þjóðarinnar. Auk þess blasir við að þegar næsta efnahagsbóla springur verður það að óbreyttu enn á ný hinn fátæki skari sem verður látinn bera byrðarnar.

Öll stjórnmál í nútíma samfélagi snúast um það hvort áhersla er lögð á félagslegar lausnir eða hvort markaður kapítalismans er látinn um að móta efnahagslífið og skiptingu samfélagslegra gæða. Undanfarna áratugi hefur markaðshyggjan stuðlað að ört vaxandi ójöfnuði á Íslandi og auknu braski á kostnað verðmætasköpunar. Þess vegna er nauðsynlegt að vinda ofan af markaðsvæðingunni með auknu vægi félagslegra lausna til að koma á jafnvægi og meiri jöfnuði í samfélaginu.

Alþýðufylkingin kom til nýliðinna kosninga með ítarlega stefnuskrá, Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar, sem byggðist á áformum um félagsvæðingu innviða samfélagsins þar sem lykilatriði er að fjármálakerfið verði rekið félagslega, til að það hætti að draga til sín öll tiltæk verðmæti í samfélaginu og svelti þannig velferðina og aðra mikilvæga þjónustu við almenning.

Aðrir flokkar hafa ýmist sett fram óljósar og samhengislausar hugmyndir eða eru beinlínis handbendi auðstéttarinnar svo hún geti haldið áfram að raka saman gróða á kostnað alþýðunnar. Þess vegna geta þeir ekki komið sér saman um lausnir á aðsteðjandi vandamálum, enda vilja þeir ekki ráðast að orsökum þeirra.

Í samfélaginu er uppi hávær og réttmæt krafa um eflingu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Heilbrigðiskerfið hefur verið svelt um árabil og verulegt átak þarf til að það rétti úr kútnum. Bæði þarf að koma til aukin félagsvæðing og þar með betri nýting fjármuna og einnig veruleg aukning fjárveitinga. Menntakerfið hefur verið fjársvelt lengi og stendur frammi fyrir alvarlegum vanda. Nauðsynlegt er að verja auknu fé til skólanna og grípa til margvíslegra úrræða til að afstýra vaxandi kennaraskorti, sem getur varað lengi að óbreyttu.

Ýmsir flokkar taka undir nauðsyn þess að taka á þessum vandamálum, en Alþýðufylkingin ein hefur haldið á lofti nauðsyn þess að sækja peningana þangað sem þeir eru í raun og koma í veg fyrir að fjármála­fáveldið í landinu hafi opinn aðgang að því að féfletta samfélagið gegnum fjármálakerfið og aðrar samsteypur auðstéttarinnar. Án umbóta af þessu tagi verður velferðin ætíð afgangsstærð eftir að auðmenn hafa fleytt rjómann, og hrekst inn í vítahring einkavæðingar og niðurskurðar, hvað sem líður fögrum áformum.

Forsetinn er kosinn af þjóðinni og er æðsti trúnaðarmaður hennar. Ábyrgð hans hnígur því að hagsmunum þjóðarinnar og auknum lífsgæðum hennar. Í ljósi þess áréttum við hvatningu um að Alþýðufylkingunni verði falið að mynda utanþingsstjórn til að koma á jafnvægi og auknum jöfnuði í íslensku samfélagi.

Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.

miðvikudagur, 14. desember 2016

Byltingardagatal 2017, útgáfuhóf lau. 17. des

Byltingardagatal fyrir árið 2017 er komið út, í tilefni af 100 ára afmæli októberbyltingarinnar, tekið
saman af Vésteini Valgarðssyni. Að útgáfunni standa Alþýðufylkingin, DíaMat, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK og Rauður vettvangur.

Útgáfuhóf verður haldið kl. 15 laugardaginn 17. desember í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Fram koma Bjarki Karlsson ljóðskáld, Sigvarður Ari Huldarsson trúbador o.fl.


Þetta eigulega og fróðlega dagatal kostar 1500 kr. og fæst í bókabúðinni Sjónarlind á Bergstaðastræti og hjá félögunum sem gefa það út.