þriðjudagur, 4. júlí 2017

Stríðið og framtíðarhorfur Sýrlands

Inngangur eftir Þórarin Hjartarson og grein eftir Patrik Paulov

Þórarinn Hjartarson
stálsmiður
Í Speglinum 27. júní fjallaði Kári Gylfason um Sýrlandsstríðið. Hann hafði þar eftirfarandi eftir bandarískum blaðamanni, Jonathan Spyer: „Sýrland er ekki lengur til. Því hefur þegar verið skipt upp í sjö aðskilda hluta.“ (heimild) Greining Kára studdist einkum við grein frá 19. maí í ritinu Foreign Policy – sem er mjög miðlægt í bandarískri utanríkisumræðu og mætti kalla málgagn „The Deep State“ vestan hafs. Í greininni skýrir Spyer nánar skiptinguna í sjö svæði: „...svæðið undir yfirráðum stjórnarinnar, þrjú aðskilin svæði undir stjórn uppreisnarmanna, tvær kúrdneskar kantónur og ISIS-svæðið.“ Aftar í greininni slær hann föstu: „Sýrlandi verður skipt á milli stjórnarhlutans í vestri, uppreisnarmanna súnníaraba í norðvestri og suðvestri, svæði tyrknesk-studdra uppreisnarmanna í norðri, SDF-stýrða svæðið í norðaustri og loks eitthvert fyrirkomulag á austursvæðinu sem felur í sér yfirráð bæði SDF og vestrænt studdra araba.“ Stöðu síðastnefnda svæðisins, austursvæðisins, orðaði hann svo á öðrum stað: „...og æ opinskárri stuðningur Bandaríkjanna við þessar sveitir opnar möguleikann á að USA-studdur landshluti verði til austan Efrats“. (heimild)

Þessi greining er auðvitað ekki persónulegt álit Kára Gylfasonar. Hún er ekki heldur greining blaðamannsins Jonathan Spyers. Þetta er línan sem nú er við lýði í Washington (RÚV leitar aldrei annað eftir réttri túlkun átakanna í Miðausturlöndum). Hugveitan RAND Corporation, sem er hluti af bandaríska stjórnkerfinu, nánar tiltekið sérhugveita fyrir herinn,  hefur á undanförum árum árlega birt nokkuð sem hún kallar „Peace Plan for Syria“. Nýjasta áætlunin „Peace Plan for Syria III“ sem lögð var fram í febrúar sl. (ég deildi henni á fésbók SHA 26. febr.) er nánast orðrétt samhljóða framtíðarsýn Spyers um Sýrland. (heimild)

Þessi greining/áætlun hefur nokkur megineinkenni: Hún gerir reginmun á annars vegar ISIS og hins vegar allri annarri vopnaðri andstöðu sem kölluð er „uppreisnarmenn“. Greiningin horfist að nokkru í augu við slæmt gengi vopnuðu andstöðunnar í Sýrlandi undanfarið, einkum tapaða orustu um Aleppo, og þann veruleika að Assadstjórnin muni ekki falla, eins og stefnt var að framan af stríðinu. En strategistarnir í Washington aðlaga nú strategíu heildarstríðsins að þessum veruleik, og þeir ætla síst af öllu að gefa eftir allt „gamla“ Sýrland. Strategían um sundurlimun/balkaníseringu landsins hefur oft verið kölluð „plan B“.  Þessi uppfærða áætlun gerir ennfremur ráð fyrir beinni og opinskárri hernaðarþátttöku Bandaríkjanna en áður, nefnilega opinni þátttöku í stríðinu gegn Sýrlandsstjórn. Ennfremur er ljóst að hersveitum „Syrian Democratic Force“ (SDF), sem er borinn uppi af sveitum Sýrlands-Kúrda, er ætlað algjört burðarhlutverk í hinni uppfærðu áætlun. Kóngur vill sigla – en byr mun ráða. Það er þess vegna alls óvíst að þessi áform heimsvaldasinna heppnist fremur en þau sem fyrr voru lögð um Sýrland.

Hér að neðan fylgir annars konar greining á stöðu og horfum í Sýrlandsstríðinu nú sumarið 2017, séð út frá þjóðarhagsmunum og þjóðernisminnihlutum Sýrlands. Hún er sótt til blaðamannsins Patrik Paulov hjá sænska blaðinu Proletären 22. júní. Þessa greiningu vil ég gera að minni og hef þess vegna þýtt hana á íslensku. Bandaríkin reyna að höggva austurhluta Sýrlands af – Sýrlandsstjórn gerir gagnsókn         eftir Patrik Paulov

Í Austur-Sýrlandi fer fram aflkeppni sem hefur þýðingu fyrir valdajafnvægið í öllum heimshlutanum. Bandaríkin koma æ opinskár fram með herlið á sýrlensku landi og ráðast á land- og flugher Sýrlands.
Patrik Paulov
En sýrlensk stjórnvöld hafa með aðstoð Rússlands og Írans hafið sókn gegn tilraununum til að lima austursvæðin af landinu.

Nýlega hófu Persaflóaríkin Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin tilraun til að svelta út Katar. Ein af orsökum fyrir viðskiptabanninu er að Katar af efnahagslegum ástæðum og ástæðum raunsæisstjórnmála hefur tekið upp sáttfúsa afstöðu til nágrannalandsins Írans.

Viðskiptaþvinganirnar endurspegla vaxandi spennu í Miðausturlöndum eftir heimsókn Trumps til Sádi-Arabíu og Ísraels í maí. Forsetinn útnefndi þá Íran ásamt bandamönnum sem uppsprettu hryðjuverka og þar með höfuðóvin Bandaríkjanna.

Katardeilan sýnir jafnframt hve flókin og þversagnakennd staðan í Miðausturlöndum er orðin eftir áratugi af imperíalískum íhlutunum. Bandaríkin eru í bandalagi við bæði Katar og löndin sem reyna að brjóta það á bak aftur. Og löndin sem greinilegast hafa snúist til varnar Katar – Tyrkland og Íran – eru óbeint í stríði innbyrðis þar sem þau styðja hvort sína hliðina í Sýrlandsdeilunni.

Það er líka á sýrlenskri grund sem fram fer aflkeppni sem hefur mikla þýðingu fyrir framtíð Sýrlands og framtíð heimshlutans. Lengi hefur Sýrlandsher, studdur af Rússlandi, Íran og Hizbolla frá Líbanon unnið sístækkandi landsvæði. Vígahóparnir hafa tapað yfirráðasvæðum í Aleppó og öðrum héruðum og þeir hafa veikst af innri átökum. Öfgahópar í Sýrlandsstríðinu, studdir ýmist af Sádum eða Katar, hafa háð blóðugar orrustur sem er afleiðing af deilunni milli landanna tveggja.

Að undanteknu Idlib-héraði í norðvestri sem er undir yfirráðum al-Kaída öfgatrúarmanna eru í meginatriðum allir bæir og þéttbýlisstaðir í versturhluta Sýrlands undir yfirráðum stjórnarinnar.

Þau NATO-lönd og Persaflóaríki sem árum saman hafa þjálfað og vopnað þessa hópa eru áhyggjufull. Og vandamálið virðist ennþá stærra þegar Íslamska ríkið (ISIS) er að brotna saman í Írak og Sýrlandi og valdatómið eftir hryðjuverkasamtökin verður að fyllast.

Í Írak vinna Bandaríkin með Íraksstjórn sem getur yfirtekið borgir og bæi er Íslamska ríkið hverfur á braut. Í Sýrlandi er það hins vegar átakaefni hver eigi að leggja undir sig ISIS-svæðin í hinum  dreifbyggða austurhluta landsins.

Út frá alþjóðalögum er svarið einfalt. Það er hin löglega og SÞ-viðurkennda ríkisstjórn Sýrlands sem hefur réttinn til að stjórna sýrlensku svæði og enginn annar.

Bandaríkin og það bandalag sem risaveldið leiðir viðurkennir það ekki. Það þvert á móti er greinilegt að bandalagið reynir að hindra að Sýrlandsstjórn yfirtaki stjórn á þeim svæðum sem ISIS er rekið frá. Það er það sem átökin um borgina Raqqa snúast um.

Í febrúar 2016 birti Proletären grein með titlinum „Hver nær Raqqa fyrst“? Við slógum föstu að væntanlegur ósigur vígahópanna í Aleppo-héraði fengi bakmenn þeirra, NATO-löndin og Persaflóaríkin, til að beina sjónum að svokölluðum höfuðstað ISIS, Raqqa í norðaustur Sýrlandi. Það sem ekki lá fyrir þá var hvaða landher Bandaríkin gætu veðjað á í kapphlaupinu um Raqqa.  

Í dag, sextán mánuðum síðar, líður að lokum baráttunnar um Raqqa. Sýrlenskir stjórnarhermenn eru komnir inn í samnefnt hérað og nálgast bæinn úr suðvestri. Herinn hefur frelsað marga bæi frá hryðjuverkamönnum ISIS.

En það afl sem Bandaríkin kusu að veðja á, Syrian Democratic Force (SDF), hafa með bandarískri hjálp þegar náð til borgarinnar.

SDF samanstendur að mestu leyti af hersveitum sýrlensk-kúrdíska flokksins PYD. PYD er nátengt PKK, Kúrdíska verkamannaflokknum í Tyrklandi, sem er stimplaður sem hryðjuverkasamtök í Bandaríkjunum og af ESB. Þrátt fyrir tyrkneska andstöðu hafa stjórnvöld í Washington staðsett bandarískan herafla á yfirráðasvæði SDF í Norður-Sýrlandi. Í vor ákvað svo Trump-stjórnin að leggja SDF til vopn.

Að a.m.k. 700 bandarískir hermenn séu staðsettir í Sýrlandi er í þjóðréttarlega jafn ólöglegt og að Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa í þrjú ár varpað sprengjum á sýrlensk lönd án heimildar frá ríkisstjórn landsins. Alveg eins og það er þjóðréttarlega ólöglegt að önnur ríki haldi við stríðinu með því að vopna hópa innan Sýrlands.

Það er margskyns orsakasamhengi í því sem gerist. Að sýna fram á „frelsun “ Raqqa væri áróðursvinningur fyrir Trump sem hefur oft slegið föstu að Bandaríkin muni sigra ISIS. Raqqa er auk þess hernaðarlega mikilvæg borg með olíu- og gaslindir í næsta nágrenni.

Stjórnandi yfirvöld í Norður-Sýrlandi, því sem Kúrdarnir áður nefndu Rojava, halda fram að stríðið gegn ISIS sé frelsisstríð sem sé háð á þeirra forsendum og geti leitt til lýðræðis og friðar í öllu Sýrlandi. Evrópufulltrúi þeirra, Sinem Muhammed, segið við Proletären að það sé alþýðan sem hagnist mest og að SDF sé alls ekki notað af heimsvaldasinnum. 

Öll söguleg reynsla sýnir að það sem við sjáum í Norður-Sýrlandi er nokkuð annað. Bandaríkin hafa aldrei stuðlað að því að hjálpa undirokuðum þjóðum eða byggja upp lýðræði þó að slíkar ástæður hafi verið tilfærðar fyrir ólöglegum innrásarstríðum og valdaskiptaaðgerðum.

Að Bandaríkin vilji sýnast besti vinur Sýrlands-Kúrda snýst um það að það þjónar hagsmunum þeirra þessa stundina. En það sem gildir í dag þarf ekki að gilda á morgun, ef kappsmál Kúrda fara í blóra við efnahagslegt og valdapólitískt brölt Bandaríkjanna.

Það sem Bandaríkin gera í Sýrlandi líkist sígildri taktík heimsvaldasinna. Að drottna með því að deila, að styðja þjóðernislega og trúarlega minnihlutahópa til að kljúfa lönd og gegnum það ná áhrifum, og geta svo hvenær sem er skipt um bandamenn út frá því hvað þjónar eigin hagsmunum.

Augljóslega er það miklu mikilvægara fyrir Bandaríkin að „vinir“ þeirra taki Raqqa en að hryðjuverkamennirnir séu sigraðir. Það staðfestist af því að 18. júní skutu Bandaríkjamenn niður sýrlenska flugvél sem studdi sókn Sýrlandshers gegn ISIS vestur af Raqqa. Að sýrlenska flugvélin réðist  ekki gegn kúrdneska SDF heldur ISIS-hryðjuverkamönnum var staðfest af Sýrlensku mannréttindavaktinni, andstöðu-fréttastofu sem oft er vitnað til í Vestrinu.

Það eru líka heimildir til um að stríðsmenn ISIS fái að fljúga suður frá Raqqa í átt til Deir Ezzor. Í þeim bæ halda stjórnvöld velli en bærinn hefur lengi verið umsetinn af ISIS.

Aflkeppnin fer fram á mörgum sviðum. Bandaríkin hafa, m.a. í samvinnu við norskar og breskar hersveitir, komið upp nokkrum herstöðvum í Suðaustur-Sýrlandi, nærri landamærum Jórdaníu. Markmiðið er að þjálfa og vopna nýjan uppreisnarher sem á að geta sótt norður og tekið yfir er ISIS er hrakið á flótta.

Frá þessu er sagt berum orðum af alþjóðlegum fréttastofum. Áætlunin sem kemur í ljós er sú að SDF í norðri og vopnuðu sveitirnar í suðri eigi að mætast og sjá til þess að allt Austur-Sýrland verði ekki undir yfirráðum sýrlenskra stjórnvalda þegar ISIS er horfið.

Bandaríkin hafa á síðustu mánuðum í mörgum tilvikum gert loftárásir á sýrlenska stjórnarherinn til að stöðva framrás hans nálægt bandarísku herstöðvunum á sýrlenskri grund. Svo fáránlegt sem það hljómar staðhæfa Bandaríkin, sem gera sig sek um ólöglega innrás, að þau skjóti á her stjórnvalda í sjálfsvarnarskyni.

Baráttan um hin löngu austurlandamæri Sýrlands hefur mikla hernaðarlega þýðingu. Sýrlandsstjórn vill ná stjórn á svæðinu og umferðinni yfir til Íraks til að tryggja viðskipti og stjórna flutningi á vörum og vopnum. Það myndi bæta lífskjör sýrlensks almennings og styrkja Sýrlandsher.

Að opna landsamgöngur frá Líbanon í vestri til Írans í austri væri samtímis hagstætt fyrir öll lönd á þessari samgönguleið. Ekki síst hefði Íran mikinn hag af því vegna vaxandi hótana og refsiaðgerða Trumpstjórnarinnar.

Þetta er ástæða þess að Sýrlandsstjórn ásamt bandamönnum hefur hafið sókn til að reka inn fleyg á milli SDF og ISIS í norðri og uppreisnarmanna í suðri. Þann 9 júní náði sýrlenski stjórnarherinn í fyrsta sinn frá 2015 landamærum Íraks og kom upp varðstöð norðan við eina af herstöðvum Bandaríkjanna í Suðaustur-Sýrlandi. Seinna náðu íraskar sveitir landamærasvæðinu sín megin í samstilltu átaki með Sýrlendingum.

Þar með var um sinn girt fyrir áætlanir heimsvaldasinna.

Hvað kemur út úr yfirstandandi aflkeppni í Austur-Sýrlandi ætlum við ekki að hafa getgátur um. Ef eitthvað einkennir undanfarin sex ár er það snöggar vendingar í stríðinu og áherslubreytingar hjá ríkjunum að baki valdaskipta-uppreisninni.

Hver veit hvað hinn óútreiknanlegi Trump gerir næst í Sýrlandi, eða að hve miklu leyti Bandaríkin ætla í alvöru að reyna að koma á valdaskiptum í Íran, eins og Rex Tillerson utanríkisráðherra tjáði 13. júní við utanríkismálanefnd Fulltrúadeildarinnar. Fremur en nokkuð annað myndi það skapa öngþveiti í öllum heimshlutanum.

Hver veit hvaða gagnráðstafanir Pútín forseti og Lavrov utanríkisráðherra gera til að stöðva bandarískar árásir á sýrlensk hernaðarleg skormörk og til að koma á þeim pólitísku friðarsamningum sem þeir hafa stefnt að í áráraðir. Eða hvað Rússar hyggjast gera til að hindra að fleiri vinir Rússlands í heimshlutanum verði fyrir eyðileggjandi valdaskiptaaðgerðum.

Hver veit í hvaða formi og með hvaða krafti ISIS mun lifa áfram eftir að kalífadæmi þeirra er rústað og á hvern hátt hryðjuverkastefnan verður notuð áfram sem yfirvarp fyrir nýjum hernaðarlegum landvinningum.


Við því verður að segja að stríðið er alls ekki heldur búið í Vestur-Sýrlandi. Þrátt fyrir góðan árangur getur Sýrlandsstjórn varla til lengdar látið Idlib-hérað standa eftir sem virki fyrir al-Kaídahópa og hryðjuverk þeirra gegn sýrlensku þjóðinni.

(Íslensk þýðing: Þórarinn Hjartarson)

mánudagur, 12. júní 2017

Stríð 21. aldar og íslenska sjónarhornið

Þórarinn Hjartarson skrifar

RÚV hafði í samvinnu við UNICEF á „Degi rauða nefsins“ (9. júní) þátt til að styrkja söfnun fyrir þjáð og snauð heimsins börn. Safnað var vegna hungursneyðar í Suður-Súdan, Jemen, Sómalíu og Nígeríu. Ekki var minnst á að vestræn stórveldi hafa staðið á bak við hernað í þremur þessara landa, sem ræður líklega mestu um hungrið. Svo kom „yfirlitsmynd yfir hörmungarnar í Sýrlandi“.

Þórarinn Hjartarson
stálsmiður á Akureyri
Fókusinn var á Aleppó – og spurningin um  sökina var auðveld: Einn aðili var fundinn sekur, Sýrlandsstjórn/her, sem stundað hefði fjöldamorð á borgarbúum. Lyginni er dælt í okkur með sprautum. Yfirlitsmyndin var dæmigerð fyrir túlkun íslenskra fjölmiðla á styrjöldum okkar daga. Helstu fjölmiðlar Íslands – RÚV og dagblöðin tvö – eru alveg samstíga í túlkun á helstu styrjöldum 21. aldar. Skýringarmunstrið er u.þ.b. svona:

a) Stríðið í  Sýrlandi er kallað „borgarastríð“ en sagt stafa af réttlátri „uppreisn“ gegn miskunnarlausum harðstjóra. Af ytri afskipum af stríðinu er einkum talað um þátt Rússa. Þagað er um peningana frá Sádi-Arabíu sem fjármagna „uppreisnina“ eða endalausa aðflutninga og þjónustu við hana frá Tyrklandi. Og fátt sagt um um þátt Bandaríkjanna allt frá viðskiptabanni á Sýrland til þjálfunar og vopnasendinga til „uppreisnarinnar“.

b) Stríðið í Jemen er kallað „borgarastríð“ og er þá alveg horft framhjá því að fyrir tveimur árum (júlí 2015) breyttist stríðið í innrásarstríð þegar Sádi-Arabía réðist á þetta fátæka land með 100 sprengjuflugvélum og her sem taldi 150 þúsund hermenn, aðallega málaliða. USA og NATO-veldin sjá Sádum fyrir vopnum, sbr. spánnýjan samning Trumps við Sáda, stærsta einstaka vopnasölusamning sem gerður hefur verið. Sl. haust hófu Bandaríkin svo beinan hernað gegn Jemen við hlið Sáda.

c) Stríðið í Írak er í íslenskum fjölmiðlum skilgreint sem „stríð gegn ISIS“ og „stríð gegn hryðjuverkum“. Góðu gæjarnir berjast við að „frelsa“ Mósúl. En „stríðið gegn ISIS“ í Mósúl og víðar í Írak er einfaldlega framhald Íraksstríðsins 2003-2011, innrásar og hernáms sem kostað hefur milljón Íraka lífið, og skóp m.a. fyrirbærið ISIS. Bandaríkin eru aldeilis ekki frelsandi afl heldur hernámsafl í Írak sem hefur enn sama markmið, að sundurlima landið og komast yfir auðlindir þess.

d) Stríðið í Úkraínu er kallað borgarastríð. Aldrei þessu vant er gert mikið úr utanaðkomandi íhlutun, þ.e.a.s. íhlutun og yfirgangi Rússa. Hins vegar er kyrfilega þagað um þátt CIA sem stjórnaði valdaráninu í Kiev 2014 eða um hernaðarlega innikróun Rússlands, af hálfu NATO-velda, fyrir og enn frekar eftir það valdarán.

Sem sagt, þessum helstu styrjöldum sem nú geysa lýsa fjölmiðlarnir okkar sem borgarastyrjöldum og/eða „stríði gegn hryðjuverkum“. Skipulega er horft framhjá hinum vestrænu afskiptum. Fjölmiðlarnir íslensku bergmála þær túlkanir sem stóru fréttastofurnar vestan hafs gefa en þær aftur tjá einfaldlega hagsmuni bandarískrar heimsvaldastefnu og hergagnaiðnaðar. Svo muldra menn gjarnan í skeggið eitthvað um það böl sem hlýst af „óumburðarlyndi“ og „trúarofstæki“.

Ofantaldar styrjaldir hanga saman. Stríðin eru öll betur skilin sem árásarstríð en sem borgarastríð. Yfirstjórn þeirra er í Washington. Árið 2001 lýstu USA og NATO yfir „stríði gegn hryðjuverkum“ (áður en þeir réðust inn í Afganistan). Það var yfirskrift og réttlæting hnattræns hernaðar og síðan hafa þeir  stundað látlausar valdaskiptaaðgerðir, ýmist beint eða með hjálp svæðisbundinna bandamanna. Helsta þungamiðja stríðsrekstursins hefur verið í Miðausturlöndum og önnur þungamiðja á fyrrum yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Um er að ræða samhangandi íhlutunarstefnu Vestursins til að steypa „óþóknanlegum“ stjórnvöldum og koma að öðrum „þóknanlegum“. Svæðisbundnir bandamenn með eigin valdahagsmuni koma hér við sögu, og Sádi-Arabía er mikilvægasti bandamaður NATO í múslimaheiminum, í því verkefni Vestursins að ná yfirráðum í Miðausturlöndum. Og framan talin stríð öll eru liðir í heimsyfirráðastefnu þar sem aðalmeðulin eru hernaðarleg. Aðeins einn aðili rekur slíka stefnu í nútímanum: Vesturblokkin (NATO-blokkin) undir forustu Bandaríkjanna.

Þáttur íslenskrar utanríkisstefnu í þessu samhengi er hvorki saklaus né friðsamlegur. Ísland tekur þátt í valdaskipta- og yfirráðastefnu NATO-veldanna, eftir getu sinni. Alltaf. Óháð því hverjir skipa ríkisstjórn, enda heyrist engin andstaða við þá stefnu á Alþingi. Ísland var í bandalagi hinna viljugu þjóða gegn Írak (við það var reyndar andstaða á Alþingi). Ísland studdi árásarstríð NATO gegn Afganistan og gegn  Líbíu. Íslenska vinstri stjórnin viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa í Sýrlandi – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands, og stillti sér þannig á bak við „uppreisn“ (kostaða, vopnaða og mannaða utanlands frá) gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Ísland tekur þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi, mótatkvæðalaust í utanríkismálanefnd og á Alþingi.  Í málefnum stríðs og friðar fylgir Ísland þeirri línu sem lögð er í Washington, punktur. Og röklegt framhald þess: íslenskar fréttastofur eru í þeim málum endurvarpsstöðvar stóru fréttastofanna vestra sem eru hluti af stríðsvélinni.

föstudagur, 19. maí 2017

Ályktun um samgöngumál

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar mótmælir harðlega þeim niðurskurði sem ríkisstjórn peningavaldsins hefur farið í á samgönguáætlun. Ennfremur fordæmir miðstjórnin allar hugmyndir um einkavæðingu samgöngukerfisins en hugmyndir um vegatolla eru ekkert annað en inngangur að slíku. Miðstjórnin hafnar með öllu þeim viðbárum að ekki sé nægilegt fé til framkvæmdanna, tugir ef ekki hundruð milljarða eru innheimt á hverju ári í umferðartengdum sköttum og gjöldum. Á tíma sívaxandi umferðar erlendra ferðamanna sem að auki færa þjóðinni gríðarlegar gjaldeyristekjur er það ráðslag stjórnvalda að minnka fjármagn til viðhalds og uppbyggingar vegakerfisins frá ári til árs, í stað þess að stórauka það, óskiljanlegt og með öllu ólíðandi.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar hvetur almenning, ásamt sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum, í hinum ýmsu landshlutum til að láta stjórnvöld ekki etja sér í innbyrðis átök um fjárveitingar sem þau sjálf standa fyrir því að takmarka, en mótmæla einum rómi áðurnefndum niðurskurði. Fyrst og fremst stefnir þessi óboðlega stjórnsýsla mannslífum í voða, en mun auk þess valda stórfelldu eignatjóni og verða frekari dragbítur á uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar, sem þegar hefur dregist svo mjög úr hömlu að orðið er til stórskammar fyrir land og þjóð.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar 13. maí 2017

fimmtudagur, 18. maí 2017

Ályktun um umhverfismál

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar áréttar að meðan þjóðfélagið er keyrt áfram af gróðadrifnu markaðskerfi, sem gerir endalausar kröfur um siaukinn hagvöxt sé tómt mál að tala um uppfyllingu markmiða Parísarsamkomulagsins og annarra skuldbindinga Íslendinga hvort sem er hérlendis eða á alþjóðavettvangi. Miðstjórnin átelur tvískinnung umhverfisráðherra og ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í daðri við olíuvinnsluhugmyndir, mengandi þungaiðnað og vaxandi flugsamgöngur, og hvetur stjórnvöld til fara raunhæfar leiðir til að minnka losun CO2 en þá þarf að koma til félagsvæðing þjóðfélagsins þar sem hagsmunir samfélagsins en ekki auðmanna eru hafðir í fyrirrúmi.

Ný stefna þarf að fela í sér t.d. áhersla á rafbílavæðingu með tilheyrandi niðurfellingu gjalda og uppbyggingu þjónustukerfis í almannaeign, félagsvæðing og efling almenningssamgangna og margt fleira.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að undið verði ofan af umhverfisógninni og komið á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar hvetur íslenskan almenning til þess að taka umhverfismálin föstum tökum og vinna að því, bæði með lífsháttum sínum og pólitískri baráttu, að gripið verði til viðunandi viðbragða við þeim vanda sem óbilgirni markaðshyggjunnar hefur skapað í heiminum. Til þess að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi, bæði hjá almenningi og innan umhverfishreyfinga, á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar 13. maí 2017

miðvikudagur, 17. maí 2017

Ályktun: Einkavæðing undir radar

Einkavæðing undir radar

Ríkisstjórnin reynir kerfisbundið að einkavæða innviði samfélagsins í áföngum, og koma í veg fyrir umræður og önnur samfélagsleg inngrip í það ferli.

Það er fyrirséð, að opnun einkasjúkrahúss undir nafni klíníkurinnar í Ármúla, grefur alvarlega undan íslensku félagslegu heilbrigðiskerfi. En heilbrigðisráðherra neitar að axla ábyrgð á starfsleyfi þessa einkasjúkrahúss og svo mikið sem taka afstöðu til málsins.

Fyrirhuguð innlimun Fjölbrautaskólans við Ármúla í Tækniskólann, sem er einkarekinn, er einnig tilraun til að sölsa menntastofnanir undir samtök atvinnurekenda, í trássi við vilja starfsfólks, og án samráðs við neina sem málið varðar. Svipaðir tilburðir eiga sér stað á fleiri sviðum.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar fordæmir einkavæðingar- og markaðsvæðingaráráttu íslensku auðvaldsflokkanna, og hvetur til sameiginlegrar andspyrnu frá alþýðunni. Það er ekki nóg að hægja á, eða stöðva einkavæðingarnar, heldur verður að snúa vörn í sókn og félagsvæða það, sem áður hefur verið markaðsvætt. Gera þarf áætlun sem stefnir að því að allir innviðir íslensks samfélags verði félagslega reknir.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar 13. maí 2017

þriðjudagur, 16. maí 2017

Ályktun um sameiginlegt ábyrgðarleysi auðvaldsins

Samfélagslegt ábygðarleysi auðvaldsins

Ákvörðun HB Granda um að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi og segja upp næstum 90 manns, er enn ein sönnun þess, að svokölluð samfélagsleg ábyrgð einkafyrirtækja er ekkert annað en orðin tóm.
Þetta atvik kallar einnig á grundvallarendurskoðun á yfirráðum yfir aflaheimildum. Útgerðarauðvaldið hefur á undanförnum áratugum þvælst um landið, og skilið mörg byggðarlög eftir í miklum vanda. Það hefur því sýnt sig að óbreytt kerfi stuðlar ekki að byggðafestu eins og lögin kveða á um.

Æskilegast væri að útgerð á Íslandi væri að sem mestu leyti félagslega rekin, bæði til að tryggja byggðafestu, og ekki síður til að afrakstur sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar skili sér til hennar.
Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar hvetur allan almenning á Íslandi til að sameinast í baráttu fyrir róttækum breytingum í sjávarútvegi, sem byggist á sanngjarnri skiptingu veiðiheimilda milli byggðalaga og að félagslegur rekstur stærri útgerða verði forgangsvalkostur.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar 13. maí 2017

mánudagur, 8. maí 2017

Bú er landstólpi, eyðibýli ekki

Það fréttist um daginn að hið gamalgróna býli Unaós í Hjaltastaðaþinghá er að líkindum fara í eyði vegna þess að eigandinn, íslenska ríkið, auglýsir ekki eftir nýjum ábúanda þegar bóndinn hættir.
Vésteinn Valgarðsson


Nú bætast við fréttir um að fjöldi ríkisjarða sé farinn í eyði í Skaftárhreppi og oddviti hreppsins gagnrýnir hvað ríkið dregur það lengi að auglýsa þær, og ber við „stefnumótunarvinnu“. En stefnuleysi er líka ákveðin stefna í svona máli, því ef landinu er ekki haldið í byggð á meðan menn eru að hugsa sig um, þá fer það í eyði. Svo einfalt er það. Það er stefnan.

Þessi „stefnumótun“ ríkisins hefur staðið í einhver ár. Það er langur tími í landbúnaði. Það er nefnilega a.m.k. tvennt sem gerir landbúnað einstakan meðal atvinnugreina. Annars vegar er hann eina atvinnugreinin sem mannkynið getur ekki lifað án. Hins vegar er ekki hægt að hætta bara með hann og byrja aftur eftir nokkur ár, eins og stígvélaverksmiðju eða leigubílastöð. Þegar landið fer í órækt, hús í niðurníðslu, og búsmalinn í sláturhús er mjög mikið átak að byrja aftur. Og dýrt. Svo ekki sé minnst á samfélagslega upplausn, svo sem þegar börnum snarfækkar í skóla sem var fámennur fyrir.

Það vill svo til að ég er með lausn, stefnu sem hver sem er má gera að sinni: Landið á að vera í byggð og þegar bújörð í eigu ríkisins losnar á strax að auglýsa hana. Flóknara er það ekki.


-- Vésteinn Valgarðsson
stuðningsfulltrúi og varaformaður Alþýðufylkingarinnar

Ávarp flutt á Rauðum 1. maí

Af hverju þarf vinnufólk alltaf að standa í stappi við vinnuveitendur? Af hverju getum við ekki bara unnið saman frekar en að vera alltaf að reyna að berjast á móti hvert öðru? Til að svara þessu þurfum við að gera okkur grein fyrir því að markmið okkar eru andstæð: sem vinnandi fólk viljum við sem hæst laun fyrir eins litla vinnu og mögulegt er og vinnuveitandinn vill sem mesta vinnu fyrir eins lítinn pening og mögulegt er. Með öðrum orðum: ef við, almenningur, hættum að berjast þá mun öll baráttan koma frá auðvaldinu.

Við höfum aldrei fengið neitt frítt frá auðvaldinu og það mun ekki breytast.
Frá upphafi kapítalismans hefur ójöfnuður ávalt farið vaxandi. Þó lífskjör hafi aukist með tímanum, líkt og þau gerðu í nær öllum öðrum kerfum sem komu þar á undan, þá hefur ávöxtur efnahagskerfisins alltaf ratað á færri og færri hendur.
Þetta segir sig sjálft: enda fyrir einn til að græða þarf einhver annar að tapa.

Okkar helsta varnartól hafa verið stéttarfélög. En við megum ekki gleyma því að ef stéttarfélögin eiga að vinna fyrir okkar kjörum, þá þurfum við sjálf að vera virkur partur af þeirra baráttu.

Mig langar að vitna í Bernie Sanders, en fyrir sirka 10 mánuðum sagði hann þetta:

Sen. Bernie Sanders: "We cannot allow ourselves to become used to the fact that we got hundreds of thousands of children in this country who are homeless. That is our greatest danger, becoming used to it and thinking that it is normal. It is not normal. It is an outrage. And never, ever lose your sense of outrage."

Þetta eru sterk orð og eiga fullan rétt á sér. Okkar helsta hætta er sú að við sættum okkur við núverandi stöðu og að okkur fari að þykja þetta eðlilegt; Að svona sé þetta bara. Þegar fjöldi fólks hefur ekki efni á því að eiga sér heimili, þá megum við ekki sætta okkur við það, heldur þurfum að líta á það sem hneykslið sem það er.

Þó við höfum barist fyrir 8 klukkutíma vinnudegi, þá skiptir það engu máli ef fólk getur ekki lifað á launum sínum. Við sjáum að það er ekki nóg að berjast fyrir betri kjörum, því um leið og við lítum í burtu þá tekur auðvaldið allt til baka sem við höfum unnið fyrir.

Það er ekki nóg að berjast fyrir breytingum í lögum eða kjarasamningum þegar kerfið vinnur gegn manni. Í efnahags kerfi sem ýtir undir brot á vinnufólki í þeim tilgangi að hámarka gróða, þá verður það ljóst að það sem þarf að breytast er kerfið sjálft.

Þetta er baráttan sem Alþýðufylkingin er tilbúin að fara í. En enginn flokkur út af fyrir sig getur náð þessu markmiði einn. Þessu verður aðeins náð þegar við getum fengið stuðning og samstarf vinnufólks. Ef við sættum okkur við það sem við höfum eða teljum að það sé ekki hægt að breyta því, þá erum við nú þegar búin að tapa. En ef vinnandi fólk er tilbúið að lyfta upp hnefa og berjast fyrir ávöxtum sinnar eigin vinnu, þá er valdið okkar. Því ekkert kerfi hefur lifað að eilífu og fyrr eða síðan þá munum við sigra.

fimmtudagur, 4. maí 2017

NORÐUR-KÓREA OG „DJÖFLARNIR“ Í HEIMSVALDAKERFINU

Þórarinn Hjartarson skrifar:
Þórarinn Hjartarson


Þann 26. apríl boðaði Trump alla Öldungadeildina í Hvíta húsið til að ræða ógnina sem stafar af N-Kóreu sem sé „alvarlegt vandamál fyrir allan heiminn“. Þegar Bush-stjórnin útnefndi „öxulveldi hins illa“ eftir 11. september var Norður-Kórea á þeim lista. Hin voru Íran, Írak, Kúba, Líbía og Sýrland. Síðan er hálfur annar áratugur liðinn og önnur ríki hafa bæst á óvinalista USA, nefnd nöfnum eins og „harðstjórnir“ og „bófaríki“: Venezuela undir Chavez og áfram, Súdan, Zimbabwe, Úkraína líka um tíma og í seinni tíð einkum Rússland. Þegar Bandaríkin hafa gefið ríkjum slíka stimpla fylgja bandamennirnir í Vesturblokkinni (NATO + ESB) alltaf dæmi þeirra.  

Hin útlægu ríki eru sem sagt stimpluð „harðstjórnir“, „einræði“ og þaðan af verra og fá svo meðferð í samræmi við það: Áróðursmaskínan mikla djöfulgerir (demóníserar) viðkomandi, svo koma efnahagslegar refsiaðgerðir, diplómatísk einangrun og valdaskiptaaðgerðir í formi innri „uppreisna“ fjármagnaðra utanlands frá, tilraunum til „litabyltinga“ sem stjórnað er utanlands frá – eða bein innrásarstríð.

Ef við horfum gagnrýnu auga á þessar stimplanir sem koma frá Washington og helstu valdamiðstöðvum Vesturlanda og spyrjum hvað þessi útlagaríki hafi raunverulega til saka unnið kemur yfirleitt í ljós að höfuðglæpur þeirra er skortur á undirgefni við Vestrið.

Útlagaríkin eiga almennt það sameiginlegt að hafna kröfum USA og bandamanna um a) frjálsar fjárfestingar og b) aðstöðu fyrir herstöðvar. Eftir lok kalda stríðsins um 1990 varð sú stefna fljótt ráðandi meðal vestrænna „hnattvæðingarsinna“ að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði vestrænna, fjölþjóðlegra auðhringa. Bandaríkin hafa alls um 900 herstöðvar utan lands og hernaðaraðstöðu í 130-150 löndum, og þú neitar ekki USA um hernaðaraðstöðu ef þú vilt vera í „hlýjunni“. Stjórnvöld í Íran, Írak og Líbíu áttu lengi það sameiginlegt að vilja hnekkja valdi dollarsins í alþjóðaviðskiptum, ekki síst olíuviðskiptum. Gaddafí fór m.a.s. fyrir hreyfingu um ný samtök Afríkuríkja og nýtt fjármálakerfi þeirra þar sem sameiginlegur gjaldmiðill þeirra yrði gulldínar í stað dollars. Það var margföld dauðasök.

Glæpur Pútíns er augljós. Á 10. áratug fékk Rússland sjokkþerapíu einkavæðingar undir leiðsögn AGS og Jeltsín var USA/NATO-veldum undirgefinn. Vestrænir auðhringar sáu fyrir sér eilífar veiðilendur fjárfestinga um allt gamla Sovétsvæðið. NATO tók mikinn sprett landvinninga í austur og lýsti því m.a. yfir 2008 að bæði Úkraína og Georgía innan skamms „munu verða aðildarlönd NATO“. En Pútín eyðilagði þau bjartsýnu áform í Ossetíu og Afkasíu það ár og svo á Krím 2014. Og fór svo að styðja „viðnámsöxulinn“ (Axis of Resistance) í Miðausturlöndum. Djöfuls Rússneski risinn sem var kominn á hnén hafði sem sagt brölt á fætur aftur! Nú duga engir silkihanskar!

Berum að lokum saman tvö lönd sem koma mjög við sögu vestrænnar heimsvaldastefnu. Víetnam og Norður-Kóreu. Eftir sigurinn á heimsvaldasinnum 1975 hóf Víetnam fyrst þjóðlega uppbyggingu, mótað af sovétbýrókratísku stjórnkerfi en fljótlega samt með miklum „markaðslausnum“. En eftir fall Sovét og kapítalíska umbyltingu Kína missti landið sína pólitísku bakhjarla og markaðshyggjan varð alveg ofan á. Víetnam sveigði þá fljótt af hinni þjóðlegu stefnu, opnaði sig fyrir hnattvæðingunni, bauð fram auðlindir landsins til alþjóðlegra auðhringa ásamt afar ódýru og réttindasnauðu vinnuafli, umfaðmaði stofnanir eins og WTO og TPP (Trans-Pacific Partnership), tók svo upp hernaðarsamvinnu við Bandaríkin, m.a. í umkringingu Kína, nokkuð sem var staðfest í heimsókn Obama til landsins á síðasta ári. (sjá hér)

Norður-Kórea hins vegar hefur frá upphafi (eftir tortímandi stríð og vopnahlé 1953) treyst á efnahagslegan sjálfsbjargarbúskap – og hélt því áfram eftir lok kalda stríðsins – ásamt því að halda fast við ríkiseign á helstu framleiðslutækjum og miðstýrðan áætlanabúskap með takmarkaða aðstöðu fyrir erlenda fjárfesta – og að sjálfsögðu enga hernaðaraðstöðu heimsvaldasinna í landinu. Stefna þeirra brýtur u.þ.b. allar reglur vestrænnar hnattvæðingar. Viðbrögðin létu aldrei á sér standa, með orðum Mike Whitney: „Bandaríkin hafa kallað yfir landið hungursneyð, meinað stjórn þess um aðgang að erlendu fjármagni, kæft efnahag þess með lamandi refsiaðgerðum og komið upp banvænum eldflaugakerfum og herstöðvum við landamærin.“ Sjá hér grein um N-Kóreu og Vestrið.


Það sem hinir útnefndu „djöflar og útlagar“ eiga sameiginlegt er ekki „harðstjórn“ umfram önnur lönd heldur andstaða við bandaríska og vestræna yfirráðastefnu og hnattvæðingu. Það er hún sem er vandamálið, ekki „harðstjórarnir“ í Norður-Kóreu eða annars staðar.

mánudagur, 1. maí 2017

Rauður fyrsti maí

Alþýðufylkingin býður í menningar- og skemmtidagskrá í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Kvöldið byrjar kl. 20.
Fram koma Sólveig Hauksdóttir, Þorvarður B. Kjartansson, Kristian Guttesen, Sigvarður Ari Huldarsson o.fl.
Gestur kvöldsins er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Léttar veitingar.